Betra að skrifa plott en hrærast í pólitík

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður, rithöfundur og sex barna móðir hefur sent frá sér Barnsránið, sjöttu bókina um Ölmu blaðamann, sem leysir ótrúlegustu morðgátur. Guðrún byrjaði að skrifa sakamálasögur þegar börnin voru öll löngu uppkomin og hún hætt í föstu starfi á vinnumarkaðinum, en hún vann lengi bæði á Ríkisútvarpinu og  seinna á Morgunblaðinu. „Ég var svo heppin að vera í góðri vinnu, ég hafði til dæmis ekki viðveruskyldu á Morgurnblaðinu og gat þess vegna verið meira með börnunum þegar þau voru ung“, segir hún.

Guðrún skrifaði tvær skáldssögur þegar hún var yngri og segir að það hafi verið dýrmæt reynsla, þegar hún var aftur komin í þá stöðu að geta skrifað skáldverk. Þær sögur voru að vísu ekki glæpasögur.  Guðrúnu finnst sakamálavettvangurinn spennandi  og segir að það sé áskorun að skrifa plott í bækur. „ Þeir sem hafa gaman af plottum hafa tvo möguleika, annars vegar að gerast stjórnmálamenn eða skrifa plott í sakamálasögu. Þegar maður skrifar fær maður að vera í friði og getur gert það sem maður vill  – það tel ég betra en vera í erilsömum og taugatrekkjandi heimi stjórnmálanna“, segir hún.

Það er mikill gestagangur hjá Guðrúnu. Flest börn  hennar búa í nágrenninu ásamt sínum börnum.  Það er alltaf fólk að koma og fara á heimilinu. Barnabörnin eru 16 og langömmubörnin 3. Hún segir hentugt fyrir skyldfólk búi svona nálægt hvert öðru og geta þannig umgengist í heimi hversdagslífsins.  En hvenær skyldi Guðrún hafa tíma til að skrifa?

„Þetta er auðvitað ferli. Byrjar oftast með þvi að skrifa ég hugmyndir á umslög og tilfallandi pappíra,“ segir hún. Þegar hún svo á stund, skrifar hún kannski tvo til þrjá kafla í einu.  „Svo fer ég að gera eitthvað annað, en hugurinn heldur vaflaust áfram að vinna, þótt ég taki ekki eftir því sjálf. Síðan sest ég aftur við tölvuna og sögunni vindur fram. Þá gerist ýmislegt og að því er virðist stundum næstum ósjálfrátt“, segir Guðrún. Hún hefur miklar mætur á Agötu Christie og sýnir blaðamanni ævisögu hennar. Bókin sú er um það bil að detta í sundur, greinilega mikið lesin. „Agatha gefur ýmis ráð í bókinni og kemur þar að auki fyrir sem yndisleg og skemmtileg kona“, segir Guðrún um þessa drottningu glæpasagnanna.

Nýjsta bók Guðrúnar heitir sem fyrr sagði Barnsránið. Þegar sagan hefst hafa þau Alma og Gunnar maðurinn hennar leigt ungverskum bræðrum bílskúrinn sinn, Gunnhildur dóttir þeirra á í sambúðarvandræðum og Alma er búin að missa vinnuna.  Þeim fer ekki að lítast á blikuna þegar Ungverjarnir eru farnir að selja, líklega stolið bensín á lóðinni og hafa auk þess skorið á dekkin á jeppa Gunnars. Þau kalla lögregluna til.  En þegar barið er uppá í bílskúrnum svarar enginn og Ungverjarnir eru fluttir út með allt sitt hafurtask. Í framhaldi af því fer sagan á flug;

„Þetta er beinlínis yfirgengilegt. Ég hreinlega skil ekki hvernig þeir hafa getað flutt allt draslið burt án þess að við tækjum eftir því. Þeir hafa meira að segja sópað planið. Þeir hafa ekki ætlað að láta ná sér,“ sagði Gunnar.

Þeir hljóta að hafa fengið hjálp með bensínið og olíuna. En þeir voru nú ekki með mikið með sér inni við. Nánast bara sængurföt, fatnað, nokkra diska og eitthvert dót,“ svaraði Alma.

Þau gengu inn í skúrinn eins og til að fullvissa sig um að enginn væri í honum. Hvítmáluð herbergin lyktuðu af hreinsiefni. Salernið var hreint og glugginn þar opinn. Allt var þarna nýtt af nálinni, einfalt og látlaust. Húsgögnin höfðu þau Alma og Gunnar lagt til og því hafði ver fljótlegt fyrir mennina að koma sér í snatri í burtu.

„Ég held að þeir hafi meira að segja skúrað! Þvílíkt og annað eins. Þetta er eins og í lygasögu,“ sagði Gunnar og skoðaði gluggana. Hann horfði enn einu sinni í kringum sig eins og hann tryði ekki eigin augum. Engum blöðum var um það að fletta – útlendu leigjendurnir voru horfnir af vettavangi og höfðu skilið svo vel við að engu var líkara en þeir hefðu aldrei verið þarna.

„Ef illa gengur hjá Gunnhildi þá vantar ekki að hún getur flutt beint inn. Það er þá sú ögnin,“ sagði Gunnar um leið og hann skellti hurðinni að skúrnum harkalega í lás.

Alma og Gunnar fóru inn til sín. Þar settust þau við barborðið í eldhúsinu og vissu varla hvað þau ættu að segja.

„Heldur þú að bræðurnir hefni sín meira?“ sagði Alma loks

„Varla, nú eru þeir komnir í vandræði. Það er fínt að þeir borguðu í reiðufé. Það er þá ekki hægt að rekja neitt,“ sagði Gunnar og fékk sér kaffi.

Alma kinkaði kolli. Hún var hugsi, henni fannst eins og eitthvað hefði gleymst. Hvað gæti það hafa verið? Allt í einu mundi hún hvað það var sem var að vefjast fyrir henni.

„Gunnar – manstu eftir dekkjunum sem bræðurnir fengu að geyma í bakgarðinum fyrir nokkrum dögum?“

„Já, hvað með þau?“

„Kannski hafa þeir ekki tekið þau.“

„Breytir það einhverju?“ sagði Gunnar og lét kaffibollan síga.

„Mig minnir að þau hafi verið í pokum sem var merktur dekkjaverkstæðinu. Kannski getum við rakið spor þeirra. Mér finnst að þeir eigi að borga fyrir það sem þeir eyðilögðu.“

„Ég held ég tali nú frekar við tryggingafélagið en fá á mig frekari hefndaraðgerðir,“ svaraði Gunnar. Saman gengu þau eigi að síður út og inn í bakgarðinn við húsið. Þar lágu dekkin enn – í pokum eins og Ölmu minnti. Hún gekk að dekkjapokunum en snarstansaði. Inn á milli visinna grastoppa sá hún svarthærðan, ungan mann í dökkum fötum liggja hreyfingarlausan. Það var storknað blóð á andliti hans.

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 13, 2019 13:04