Íslensku glæpasögurnar vinsælar

Guðrún Guðlaugsdóttir

Hús harmleikja er sjöunda sakamálasaga Guðrúnar Guðlaugsdóttur um blaðamanninn Ölmu Jónsdóttur. Í þessari bók er Alma komin austur á Eyrarbakka og dvelur þar við bókarskrif, sem fjalla um áhrif reimleika í húsum. Hún kynnist litríkri leikkonu Oktavíu Bergrós og þangað kemur svo kvikmyndaleikstjórinn Irma ásamt fleirum. Dauðinn ber að dyrum og ýmsir liggja undir grun.

Guðrún Guðlaugsdóttir er í hópi íslenskra sakamálasagna höfunda, en þeir verða stöðugt fleiri. Fyrir hálfri öld þótti ógerningur að skrifa sakamálasögur á Íslandi, enda landið lítið og morð fátíð. Þetta hefur heldur betur breyst og það eru ekki bara glæpasögur sem hafa slegið í gegn, framhaldsþættir í Sjónvarpi þar sem fjallað er um glæpi eru einnig afar margir og vinsælir. Það virðist orðin ein helsta iðja fólks í vestrænum velferðarsamfélögum að lesa um glæpi og horfa á sakamálasögur.

Guðrún segist halda að það stafi af því að velmegunin hafi fyrir Kovid-19 almennt verið töluverð í umhverfi okkar. „Fólk vill láta hræða sig þegar lífið býður því ekki uppá neitt hræðilegt dagsdaglega. Í seinna stríðinu og hörmungunum sem þá dundu yfir, voru ástar-, dans- og söngvamyndir vinsælastar. Þá hafði enginn sérstakan áhuga á glæpamyndum. Ég held sem sagt að þetta tengist því að menn hafi það ágætt,  hafi allt sem þeir þurfa. Þá sækir fólk í spennu, því við erum svolitlir spennufíklar og nægir kannski ekki að spila í lottó eða Happdrætti háskólans. Fólk vill fá inní líf sitt spennu sem er ekki hættuleg og  gerir það með því að lesa glæpasögur“, segir hún.

Reimleikasögurnar í bókinni sem Alma er að skrifa eru allar sannar. Guðrún segist hafa tínt þær saman úr bókum og viðtölum við fólk, sem hún hafi tekið um áratugaskeið. „Það hafa margir sagt mér sögur af reimleikum í húsum“.  Guðrún nefnir Dillonshús sem dæmi um alþekkta reimleikasögu. Það hús er nú í Árbæjarsafni en stóð áður í Suðurgötu. „Í fjölmiðlum fyrri tíma kom fram að þar eitraði maður fyrir sér, konu sinni og börnum. Það gengur enn sá orðromur að einhver sé á ferli í þessu húsi“, segir hún.  En grípum nú niður í fimmta kafla bókarinnar, Hús harmleikja.

Morguninn eftir var allt orðið skellibjart og Ölmu fannst óhugnaður næturinnar víðs fjarri og næstum hlægilegur. Hvaða vitleysa hafði þetta eiginlega verið? Hana hafði sennilega dreymt illa. Hún teygði úr sér og fann hvernig henni óx kjarkur. Hún hafði ábyggilega orðið svona myrkfælin og ímyndunarveik vegna þess að hún var á nýjum stað og alein í húsinu. Hún klæddi sig og fór fram til þess að fá sér morgunmat. Eftir að hafa ristað sér brauð og hitað sér te ákvað hún að fara út og skoða sig um.

Gömlu húsin á Eyrarbakka voru sannarlega þess virði að skoða þau. Hún gekk fram og aftur um aðalgötuna. Stansaði loks og virti vandlega fyrir sér gömlu búðina sem Guðlaugur Pálsson hafði rekið. Á annað hundrað ár voru nú liðin síðan hann sem ungur maður hafði opnað verslunina. Margir höfðu sannarlega lagt þangað leið sína þá rösku sjötíu áratugi sem hann hafði staðið þar bak við búðarborðið. Gæti hugsast að reimt væri í þessu litla, gamla timburhúsi?

Hún gekk líka framhjá gamla Rauða húsinu og nýja Rauða húsinu, þar var nú rekið veitingahús. Elsta hluta þess hafði víst Guðmunda Nielsen tónskáld byggt og rekið þar verslun.

„Dugnaður og kjarkur í þeirri konu,“ hugsaði Alma. Gamla bakaríið við Bakarísstíg var nú fyrir margt löngu orðið fallegt einbýlishús. Eftir því sem hún hafði lesið sér til um var bakaríið næstelsta húsið í þorpinu. Hún var samt ekki viss.

Alma ákvað að leggja leið sína í Húsið á ný. Það opnaði klukkan ellefu. Hún hafði áhuga á að ræða betur við Oktavíu Bergrós. Kannski vissi hún eitthvað um hugsanlega reimleika í gömlu húsunum á Eyrarbakka, að minnsta kosti hvað varðaði sjálft Húsið.

Oktavía reyndist ekki sérlega fróð um sögu húsa á Eyrarbakka og varla einu sinni um Húsið og sögu þess.

„Ég er ókunnug hér. Veit bara að það hengdi sig fólk hér í Húsinu. Það stendur í kvæðinu sem ég benti þér á að lesa. Gerðir þú það ekki‘?“ Oktavía leit a Ölmu spurnaraugum.

„Jú ég skrifaði meira að segja hluta af því niður. Hefur þú orðið vör við eitthvað tengt þeim atburðum hér í Húsinu?“

„Nei ekki neitt um það. En stelpa sem tók þátt í sýningu hér einu sinni kom um daginn og sagði mér að það væru sögusagnir um afturgenginn mann í risinu. Stelpan átti að vera í nítjándualdarbúningi í sýningunni, þar á meðal í korseletti strengdu með hvalbeini. Það bara hvarf og fannst svo síðar á öðru rúminu í risherberginu. Enginn kannaðist við að hafa farið með það þangað. Ég trúi þessu varla. Og hvað ætti afturgenginn vinnumaður svo sem að gera við korselett? Samt er þetta skrýtið – ég sá í augunum á stelpunni að hún var að segja satt. Ég fer því eins sjaldan og ég get upp í þetta herbergi. Mér finnst ég reyndar stundum heyra hljóð uppi – en það er ekki að marka. Ég er dálítið ímyndunarveik. Líklega er þetta vara vindurinn. Hvers vegna viltu vita þetta?“ spurði Oktavía forvitin.

 

 

 

Ritstjórn desember 3, 2020 07:39