Er hægt að ná frábærum árangri í námi með lítilli fyrirhöfn? Líklega myndum við flest svara neitandi, enda alin upp við að lúsiðni og þrautseigja sé það eina sem skili árangri. Ólafur Haukur Johnson er hins vegar á öðru máli. Hann hefur kynnt sér helstu rannsóknir og kenningar um hvers vegna sumir einstaklingar ná frábærum árangri með lítilli fyrirhöfn og hvaða námstækni þeir beita. Hann brennur af ástríðu fyrir góðri menntun og segir alla geta náð mjög góðum árangri.
„Lestur eru undirstaða alls náms svo auðvitað kennum við hraðalestur, en þetta snýst um svo miklu meira en það,“ segir hann. „Fræðimenn, sem hafa stúderað þá sem skara fram úr í námi eða á öðrum sviðum, hafa komist að mjög samróma niðurstöðu um það hvers vegna sumir ná stöðugt frábærðum árangri í námi, íþróttum og listum. Hvað eiga góðir námsmenn sameiginlegt, hvað eiga frábærir íþrótta- og listamenn sameiginlegt? Hvers vegna varð Tiger Woods svona góður í golfi eða Víkingur Heiðar snillingur í píanóleik? Það sama á við bestu íþrótta- og listamennina. Aðferðirnar eru alls staðar svipaðar en samt lærir enginn þessar aðferðir í skóla. Ég fer í gegnum nýjustu kenningar helstu fræðimanna veraldarinnar á síðustu árum.“
Ólafur hefur lengi hugað að atriðum til að auðvelda nám og þjálfun. Kjörorð hans eru: Betur vinnur vit en strit. Þess vegna stofnaði hann Hraðlestrarskólann árið 1978, Sumarskólann ehf., sem bauð sumarnám fyrir framhaldsskólanemendur, stofnaði hann með mági sínum árið 1993 og síðast en ekki síst stofnaði hann Menntaskólann Hraðbraut sem bauð nám til stúdentsprófs á 2 árum árin 2003-2012. „Á þessum tíma buðu aðrir skólar nám til stúdentspróf á 4 árum. Þann námstíma var talið óhugsandi að stytta þegar Hraðbraut varð til. Nú er búið að stytta allt framhaldsskólanám í þrjú ár. Nemendur og kennarar Hraðbrautar ruddu þeirri breytingu braut með frábærum árangri,“ segir hann.
Alltaf vel undirbúnir í tímum
Aðspurður um það hvernig hægt var að taka fjögurra ára nám og skera það niður í tvö ár segir Ólafur: „Ég hafði langa reynslu af kennslu í framhaldsskóla og taldi að það nám væri byggt á óskilvirkum kennsluramma. Því þróaði ég nýtt skilvirkt heilstætt nám frá fyrsta degi til stúdentsprófs. Ég bjó til sex vikna lotur og í hverri lotu tóku nemendur þrjár námsgreinar í einu. Þegar komið er í framhaldsskóla sitja menn oftast uppi með sex til sjö námsgreinar á önn. Í Hraðbraut þurftu nemendur bara að einbeita sér að þremur námsgreinum í einu. Í þessum stuttu lotum var kennt í fjórar vikur, síðan kom prófavika í fimmtu viku og svo var ein vika í fríi í lok hverrar lotu. Þetta gekk mjög vel og nemendur útskrifuðust á tveimur árum. Meðalnámstími í menntaskóla á þeim árum var fimm og hálft ár. Við skárum þetta niður og margir sögðu í byrjun: „Þetta hefur nú verið einhver skemmri skírn, eitthvert prumpnám. En svo var aldeilis ekki. Vinsælasta námsbraut skólans var byggð upp með hliðsjón af eðlisfræðibraut MR sem orðlögð er fyrir miklar kröfur. Vart þarf að taka fram að nemendur Hraðbrautar, með reynslu í skilvirkum vinnubrögðum, stóðu sig einnig sérstaklega vel þegar í háskólanám var komið.
Meðal fjölmargra nýjunga í Hraðbraut var að kennt var aðeins þrjá daga í viku en hina tvo dagana mættu nemendur og unnu heimavinnuna sína með aðstoð kennara ef þeir þurftu á aðstoð að halda. Þeir mættu þess vegna alltaf vel undirbúnir í tíma.“ Ólafur segir að engin sérstök vandamál hafi komið upp og námsálag ekki meira en svo að nemendur hafi notið öflugs félagslífs.
„Það er svo gaman þegar maður getur gefið fólki góð tækifæri í lífinu.“ segir Ólafur að lokum en hugsanlega er vefnámskeið í hraðnámi jólagjöfin í ár. Frekari upplýsingar er að finna á www.hradbraut.is.