Hlýtt nýtt ár!

Árið 2021 rann fram hjá okkur á fleygiferð líkt og öll ár virðast orðið gera.“Glottir tungl en hrín við hrönn, og hratt flýr stund“ orti Jón Ólafsson fyrir margt löngu síðan og eins gott að kveða fast að þegar álfadansinn er stiginn. Nýtt ár virðist byrja með fullmiklum gassagangi og ótíðindum, veiran sem hefur sett mark sitt á líf okkar allra færðist enn í aukana nú um áramótin þótt sitthvað bendi til þess að um fjörbrot séu að ræða og vetrarveðrin skella á okkur af þunga.  Fréttir af siðblindu og óþverraskap einstaklinga eru samt eiginlega enn þá sorglegri því að þar eru ekki náttúruhamfarir á ferðinni heldur bara meðvitaðar gjörðir ákveðinna hópa sem virðast álíta það vera í lagi að níðast á þeim sem minna mega sín. Ekki skortir þessa einstaklinga greind en virðist þó skorta heilmikið upp á dómgreind og samvisku. Það er vissulega sorglegt.

Vetrarkvíði.

Við erum nefnilega fá og smá sem byggjum þetta land og það væri áreiðanlega farsælt ef þessar fáu hræður kynnum að umgangast hvort annað af samhygð og virðingu. Bara svona yfirhöfuð og sem oftast. Þá gætum við verið stolt af því að vera Íslendingar.

Ég ætlaði nú samt ekkert að gerast fréttaskýrandi á vondar fréttir. Nei ég ætlaði í byrjun árs að hugleiða aðeins tengslin á milli okkar og náttúrunnar en kannski hljómar það nú eins og sitthvor endinn á sömu spýtunni. Nú er hávetur og vetur á Íslandi eru sannarlega langir og strangir um það þarf ekki að deila. Íslendingar flykkjast til Kanaríeyja á vetrum eins og hverjir aðrir farfuglar því sólaleysi og kuldi gera mörgum lífið býsna erfitt. Ég ætla nú samt að leyfa mér að halda því farm að það séu samt ákveðin forréttindi að fá að upplifa svo sterkar andstæður árstíða eins og við gerum. Á einum og sama deginum getum við upplifað frostkaldar stillur, snævi þakta jörð og stjörnuskin og svo eins og hendi sé veifað er skollinn á bylur og sér ekki út úr augum.

Veður og færð

Við hjónin ákváðum að hlífa flugeldakvíðnum hundinum okkar og leigðum okkur pínulítinn sumarbústað út með Eyjafirði þar sem við dvöldum á nýársnótt. Það var sannarlega dásamlegt, það var stillt og kalt og þar sem engin ljósmengun truflaði hvelfdist yfir okkur stjörnuhiminn og tunglskinið glampaði á snjónum Við fórum snemma að sofa enda engin sérstök ástæða til að bíða miðnættis fyrir okkur og sérlega ljúft að kúra í hlýju og þögn í þessu litla og afskekkta húsi. Um sex leytið var þó friðurinn úti þegar norðaustanáttin bókstaflega skall á húsinu og stormurinn fór að ýlfra og hamast úti fyrir. Við klæddum okkur, tókum saman dótið okkar og ákváðum að renna heim áður en færið versnaði. Samt kom okkur á óvart þegar við komum út hversu fljótt er að fenna yfir vegi og hversu skafrenningur í lausamjöll getur byrgt manni sýn. Við höfum þó búið á norðurhelmingi landsins nær alla okkar tíð. Það er varla að undra að útlendingar á bílaleigubílum trúi ekki að færð og veður geti breyst eins hratt og það gerir.

Þetta getur auðvitað verið miserfitt en taki maður mark á veðurspám ,sem varla eru spár lengur heldur fræði sem vita með nokkurri vissu hvernig náttúruöflin haga, sér, er vel hægt að forðast að láta veðrið skapa sér voða. Við eigum hlý hús, fatnað, góða bíla og góðar skóflur og getum jafnvel brynjað okkur með æðruleysi gagnvart þeirri óumflýjanlegu staðreynd að á Íslandi er vetur í 9 mánuði.  Og þá er ég auðvitað að tala um venjuleg vetrarveður en ekki ógnir s.s. snjóflóð.

En ef við hinsvegar ætlum á annað borð að búa hér áfram þá er eiginlega fremur tilgangslaust að ergja sig á frosti, hríð eða myrkri því það tekur einungis frá okkur orku sem við gætum notið til þess að gera eitthvað skemmtilegra. Eða vitlegra. Við getum til dæmis rifjað upp hvernig sumarið á Íslandi er eiginlega stórkostlegra en önnur sumur af því einmitt að andstæðurnar eru svo stórkostlegar. Andstæður frá svartamyrkri yfir í nóttleysi sumarsins. Hvítt vetrarlandslag breytist í litadýrð í stórkostlegri sumarsinfóníu. Grasið er grænna og sjórinn blárri en þar sem árstíðirnar lulla um í einhverri meðalmennsku. Ísland ætti eiginlega hið mesta sólarland því að hér er sólin okkur svo einstaklega dýrmæt og hjartfólgin.

Frostbólgur

Ég segi ekki að einstaka sinnum á vetrum finn ég til þess að gaman væri að geta farið berfættur á sandölum út í göngutúr eða bara gengið upprétt og frjálsleg í fasi en ekki staulast um í sífelldri hálku og fallhræðslu. En bara stundum, svona þegar að það er sérstaklega erfitt að þreyja Þorrann og Góuna. Annars er ég búin að læra að klæða af mér kuldann enda orðin gigtarskrokkur og ekki lengur hégómleg gagnvart síðum nærbuxum og ullarsokkum. Ég man þá tíð að gallabuxur voru vetrarklæðnaður og maður var alltaf kuldabólginn á fótunum. Þegar maður svo kom inn úr frostinu í þá daga þá tók við ofsakláði og hiti í frostbólginni húð…en þótti ekkert sérstakt tiltökumál. Kannski ekkert skrýtið að maður sé gigtveikur í dag.

Mér sýnist að við gætum okkur að meinalausu eytt minni tíma í það sem er ekki í okkar valdi að breyta líkt og veðrinu á Íslandi,  en eytt meiri tíma þegar að því kemur að ala hér upp kynslóðir af réttsýnu og samheldnu fólki. Ekki fólki með krónískar frostbólgur í hjartanu, það er svo einstaklega óspennandi. Jafnrétti þýðir svo miklu meira en bara sömu laun fyrir sömu vinnu eða einhverjir kynjakvótar.Jafnrétti er djúp sannfæring um að allar manneskjur verðskuldi sömu virðingu og reynslan er að sýna okkur núna að við þurfum að vanda okkur meira á því sviði. Notum tímann vel í að kenna börnunum okkar og barnabörnum um siðferði og jafnrétti þannig að sagan um ríku kallana sem misnota stöðu sína og niðurlægja aðrar manneskjur þurfi ekki að endurtaka sig.

Gleðilegt ár og haldið endilega á ykkur hita.

Inga Dagný Eydal febrúar 14, 2022 07:00