Bjuggu við rafmagnsleysi langt fram á sjöunda áratuginn

Orkumál eru mjög ofarlega í umræðunni í dag og hafa verið lengi eins og orkuskipti, orkuvinnsla, Rammaáætlun og nýjar virkjanir. Allir vilja óheftan aðgang að orku en á sama tíma eru margir á móti virkjunum, hvort heldur um er að ræða í vatnsafli, jarðhita eða vindorku. Í þessu sambandi er fróðlegt að rifja upp og skoða hvenær raforkuvinnsla hófst í landinu og hvað þjóðin hefur gert til þess að uppfylla þessar kröfur nútímans. Í þessu efni er fróðlegt að skoða tiltekinn stað og rifja upp tilkomu rafmagnsins. Raforkusaga Bolungarvíkur er dæmi um að leiðin var ekki alltaf auðveld en hér verður sagan sögð í helstu atriðum.

Bolungarvík er einn af nyrstu stöðum landsins og dagarnir stuttir þar mestan hluta ársins. Það er sérstakt að sigla frá Djúpinu og sjá Bolungarvík frá sjó, staðurinn er úti við ysta haf milli fjalla og svo endalaust hafið þar sem eru „bestu“ fiskimið landsins. Það er ýmislegt sem fylgir því að búa afskekkt eins og Bolvíkingar þekkja en nauðsynlegir hlutir, eins og rafmagn, komu seint þangað og það var ekki auðveld leið að fara.

„Við Bolvíkingar fögnum birtunni og höldum í heiðri að baka pönnukökur þegar sólin fer að skína yfir fjöllin í Syðridal,“ segir Kristján B. Ólafsson hagfræðingur sem ólst upp í Bolungarvík. Hann segir að á Ísafirði sé sólardagurinn 25. janúar og þá láti sólin sjá sig þar við Sólgötuna eftir nær tveggja mánaða fjarveru. Kristján segist vel muna að oft hafi verið rafmagnslaust í Bolungarvík jafnvel í lengri tíma þegar hann var að alast upp þar þó að fylli ekki sjö áratugina, eitthvað sem borgarbörnin og flestir á landinu hafa ekki kynnst.

„Mér er mjög minnisstætt hversu oft við bjuggum við rafmagnsleysi þegar ég var að alast upp á 6. og 7. áratug síðustu aldar. Flest hús voru reyndar með olíukyndingu þannig að það var hiti í húsum en það gat verið snúið fyrir fólk varðandi vinnu og eldamennsku að hafa ekki rafmagn.

Ísingar og óveður gerðu það að verkum að svokölluð vesturlína, sem m.a. þjónaði Bolvíkingum, sló oft út. En nú liggur rafmagnslínan til Bolungarvíkur í gegnum göng en ekki yfir há fjöll og kletta svo það breytir miklu hvað þetta varðar. Og til viðnótar er Landsnet með 12 MW dísilstöð sem er varaafl fyrir Bolungarvík og nágrenni,“ segir Kristján. „Hafnarfjörður varð fyrsti raflýsti bærinn á Íslandi en fyrsta rafstöðin kom þar árið 1904 og það var Jóhann Reykdal trésmiður sem stíflaði Hamarskotslækinn sem svo er kallaður þar og rafvæddi 15 hús. Í Reykjavík kom rafstöð 1921.“ Í Lifðu núna hefur verið sagt frá Bjarna í Hólmi sem með eigin hugviti rafvæddi bæi í Skaftafellssýslum og víðar um landið á fyrri hluta 20. aldarinnar og má nærri geta hversu mikil straumhvörf það voru fyrir bændur og fólk í bæjum að fá raflýsingu og ótrúlegt til þess að hugsa hve stutt er síðan byrjað var að raflýsa hér á landi, nokkuð sem við leiðum sjaldan hugann að, svo sjálfsögð er raforkuvæðing okkur, en um 1950 voru heimarafstöðvar um 530 í landinu en fækkaði óðum eftir að byrjað var að rafvæða sveitirnar og með kaupum á orku frá RARIK. 

Átti að virkja Dynjanda, helstu náttúruperlu landsins

En hvenær kom þá rafmagnið til Bolungarvíkur og hvernig var ferlið? „Raforkuvinnslan í Bolungarvík á sér töluverðan aðdraganda og var leiðin alls ekki auðveld enda tók það mörg ár þar sem fólk gat verið rafmagnslaust í ákveðinn tíma sem hafði vitanlega áhrif á líf þess áður en það komst endanlega á. Rafvæðingin hófst með olíu, eða dísilvélum. Forsöguna má rekja allt til ársins 1919  en Jón L. Fannberg sem var oddviti Hólshrepps, eins og Bolungarvík hét þá, var einn helsti frumkvöðull þess að Fossá í Syðridal var virkjuð. Raflýsingarfélag Bolungarvíkur hf. var stofnað sama ár og kannað hvort hægt væri að kaupa vél úr skipi sem hafði strandað þarna á sandinum en það varð ekki úr því. Á árunum 1921 til 1958 var raforkuvinnslan í Bolungarvík alfarið með dísil.“

„Árið 1931 var keyptur stærri rafall. Guðmundur Jónsson var fyrsti rafstöðvarstjórinn en ári seinna tók Kristján Sumarliðason til starfa sem vélgæslumaður og gegndi því starfi til 1956. Kristján Sumarliðason og sonur hans, Guðmundur Hafstein, sem lengi starfaði við vélgæsluna hjá föður sínum, áttu oft erfiða tíma vegna tíðra bilana en vélarnar voru keyrðar sem varafl löngu eftir að Reiðhjallavirkjun tók til starfa árið 1958.“

Kristján með gömlum skólafélögum í Bolungarvík.

Og vinnan hélt áfram við að koma á rafmagni í Bolungarvík. „Árið 1949 keypti Hólshreppur jarðstreng sem var tengdur inn á bæjarkerfið. Þetta var upphafið að stofnun Rafveitu Bolungarvíkur. Hreppurinn átti strenginn en Íshúsið framleiddi og seldi síðan raforkuna. Árið 1950 voru fest kaup á bráðabirgðavélum frá Sauðárkróki en þá var byrjað að leita að vélum til framtíðar. Rafmagnseftirlit ríkisins mælti með kaupum á tveimur Miller-dísilvélum frá atvinnumálaráðuneytinu en það kom svo í ljós að þær voru bæði þungbyggðar og höfðu auk þess staðið lengi á hafnarbakkanum vegna þess að þær voru taldar ónothæfar í báta sökum hristings. En vélarnar voru engu að síður keyptar og sömuleiðis húsnæði undir starfsemina og það var byrjað að keyra vélarnar 31. desember, á gamlársdag, sama ár. Það komu strax í ljós miklir gallar á nýjársdag sem var náttúrlega ekki heppilegur tími,“ útskýrir Kristján. „Vélarnar voru sendar í viðgerð til Þingeyrar og tókst sæmilega að nota þær til ársins 1958 en Bolvíkingar notuðust við dísilvélar frá 1921-1958. Þess ber að geta að litlu mátti muna að fallegasti foss okkar Íslendinga, Dynjandi í Arnarfirði, yrði virkjaður í þágu RARIK og Bolvíkinga. Það atvikaðist þannig að árið 1945 fór fram undirbúningsvinna og átti Bolungarvík að vera aðili að þeirri framkvæmd en hafnaði því, sem betur fer. Hugmyndinni varð slegið á frest og við njótum enn Dynjanda og gerum vonandi áfram um ókominn tíma,“ segir Kristján sem er mikill náttúruunnandi.

Fullyrða má að sögn Kristjáns að Reiðhjallavirkjun og örugg raforkuvinnsla með vatnsafli í stað dísils hefði fyrr komist á í Bolungarvík ef ekki hefði komið til lánsfjárskortur og takmörkuð fjárráð hreppsins á þeim tíma,  þ.e. til að ráðast í svo stóra framkvæmd. „Þess má geta að gamla þumalputtareglan hjá verkfræðingum var sú að „engin vatnsaflsvirkjun væri svo vitlaus að hún væri ekki fjárhagslega hagkvæm.“

Bolinder-dísilvél.

Rafmagnið fór alltaf af á aðfangadag

Þótt rafmagnið væri komið til Bolungarvíkur var þar með ekki öll sagan sögð. „Eldri Bolvíkingar muna vel að rafmagnið var tekið af á kvöldin og á nóttunni og þá þurfti fólk helst að vera komið heim fyrir miðnætti. Venjulega var fólki gert viðvart en um fimm mínútum áður en rafmagnið fór byrjaði ljósið að blikka og þá hentist fólk heim, vegalengdirnar voru stuttar sem betur fer. Margir náðu sér þá í olíulampa eða kerti og héldu áfram við sauma eða spjall eða hvað sem þeir voru að gera. Þetta var ekki lagt af fyrr en um 1950 en fólk segist þó hafa dansað fram yfir miðnætti á böllum en síðasta dansinn, sem var vangadans, var dansaður í myrkri.

Á sjötta áratugnum var árviss atburður að rafmagnið færi af á aðfangadag þegar allar húsmæður voru að elda jólasteikina en hagsýnar húsmæður í Bolungarvík lærðu að dreifa eldamennskunni þennan dag og flestir voru með vasaljós í náttborðsskúffunni. Og fólk lærði fleira. Rafmagnið var dýrt þannig að fólk slökkti ljós þegar það fór út úr herbergi og kannast margir við þann sið enn í dag. Mánaðarlega var svo farið í húsin til að lesa af mælum og spunnust margar sögur af þeim ferðum en mælarnir voru sagðir hafa verið staðsettir á hinum furðulegustu stöðum, jafnvel fyrir ofan hjónarúm og viðkomandi jafnvel í ástarleikjum, en ég þori ekkert að segja til um sannleiksgildi þeirra sagna,“ segir Kristján kómískur.

Kristján er mikill skíðamaður enda gott skíðasvæði við Bolungarvík.

Orkuþörfinni  ekki annað

Um 1960 var álagið orðið svo mikið að Reiðhjallavirkjun annaði ekki eftirspurn. Hvað var þá gert? „Það fór svo að RARIK keypti Rafveituna í Bolungarvík árið 1965 og var Bolvíkingurinn Jóhann Líndal Jóhannsson ráðinn stöðvarstjóri í Reiðhjallavirkjun og til þess að halda utan um að endurbyggja raforkukerfið í Bolungarvík. Orkubú Vestfjarða tók svo til starfa í ársbyrjun 1978. Það var síðan mikill fengur fyrir Bolvíkinga og Vestfirðinga að fá nýja 12 MW varaaflsstöð Landsnets árið 2015,“ segir Kristján um langa og stranga göngu Bolvíkinga við að rafvæða heimabæinn.

 

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna