Gullveig Sæmundsdóttir blaðamaður skrifar
Þegar ég var krakki lét ég mig dreyma um spennandi ævintýri sem myndu gerast í lífi mínu. Sem betur fer upplifði ég ýmis ævintýri en þó ekki þau sem ég hafði látið mig dreyma um. Óþekkti ríki frændinn sem ákvað að koma í heimsókn og gefa okkur systkinum allt mögulegt lét til dæmis aldrei sjá sig, enda var hann ekki til. Þess vegna fékk ég ekki nýtt hjól og fór heldur ekki í ferð með mömmu til Danmerkur þegar ég var tíu ára. Ég eignaðist hins vegar ágætis hjól. Það var grænt og keypt notað en nýttist mér prýðilega. Til Danmerkur fór ég heldur ekki fyrr en löngu seinna og þá sem flugfreyja.
Draumarnir urðu aðeins jarðbundnari með árunum en héldu áfram að snúast um eitthvað sem mig langaði að eignast eða ævintýri sem mig dreymdi um að upplifa. Þegar ég var í Kvennaskólanum voru svokallaðir “bleiser” jakkar mikið í tísku. Þeir voru oftast dökkbláir með bróderuðu merki á brjóstvasanum. Minntu einna helst á einkennisjakka sem ungmenni í heimavistarskólum í Englandi gengu í. Sama ár urðu rúskinnsjakkar aðal tískubólan og auðvitað langaði mig bæði í “bleiser” og rúskinnsjakka. Líkurnar á því að ég eignaðist slík verðmæti voru nánast engar en þá gripu forlögin í taumana í líki ástkærrar vinkonu sem var með mér í skólanum. Hún var svo heppin að eignast hvoru tveggja og ákvað að vera frekar í nýrri jakkanum en bauð mér hinn að láni, sem ég þáði með þökkum. Rúskinnsjakka eignaðist ég síðan seinna og þá af því að ég hafið efni á að kaupa hann. Ég hef líka eignast fleiri en einn “bleiser” enda slíkir jakkar mjög praktiskir og eiga ekki bara við sem einkennisbúningar í heimavistarskólum. 😊En eftir að ég eignaðist jakkana voru þeir ekki jafn spennandi og þegar mig dreymdi um að eignast þá. Eins er það með fyrstu Danmerkurferðina. Hún var að vísu mjög skemmtileg en samt ekki sama ævintýrið og ég hafði séð fyrir mér þegar ég var tíu ára. Eitt er draumur og annað veruleiki.
Ég er sannarlega ekki hætt að láta mig dreyma og velta vöngum yfir ýmsu. Þegar byrjaði að gjósa við Fagradalsfjall fylgdist ég spennt með gangi mála. Ég er vön að líta til veðurs þegar ég vakna á morgnana en þegar fór að gjósa breyttist “vaktin”. Mér dugði ekki lengur að gá til veðurs á morgnana og tók til við að “gá til goss” á morgnana og aftur á kvöldin enda sá ég bjarmann frá eldinum heiman að frá mér. Ég fann fyrir ákveðinni eftirvæntingu, naut þess að vera í sporum sjónarvottsins og geta fylgst aðeins með því sem um var að vera frá eigin sjónarhóli. En þó að ég væri komin til vits og ára var mér ljóst að það væri með eldgosið eins og náttúruna yfirleitt að hún fer sínu fram hvað sem tautar og raular. Eða gerir hún það kannski ekki?
Ég hef alltaf gengið mikið og nýt þess að búa þannig að stutt er að heiman frá mér og út í ósnortna náttúru. Mér finnst líka bæði gott og gaman að fylgjast með jurtunum í garðinum mínum taka við sér þegar fer að vora. Fyrir nokkrum áratugum setti ég niður runna sem samkvæmt því sem mér var sagt myndi bómstra vel og ríkulega í skjólgóðum garðinum. Síðan hef ég beðið í ofvæni, vor eftir vor og sumar eftir sumar, eftir að nú sé komið að því að runninn launi mér atlætið og gleðji með blómunum. Hvernig sem á því stendur hefur lítið orðið úr þeim draumum. Reyndar ekki jafn lítið og draumunum um ríka frændann heldur frekar í stíl við drauminn um “bleiser” jakkann. Eitt og eitt blóm hefur litið dagsins ljós en runninn að öðru leyti verið grænn og frekar óspennandi. Í vor var ég ákveðin í að nú yrði runninn fjarlægður. Hann hefði hvort sem er aðeins valdið mér vonbrigðum og ætti ekkert gott skilið. Ég fékk garðyrkjumann til að líta á runnann og staðfesta skoðnun mína. Sá velti vöngum, spurði hvort runninn hefði oft verið klipptur, hvort hann hefði verið klipptur að hausti eða að vori og hvenær síðast hefði verið farið um hann runnaklippum. En þó að ég eigi þennan runna, hafi sett hann niður og haft hann fyrir augunum árum saman gat ég alls ekki svarað spurningum sérfræðingsins. Ég hreinlega mundi ekki nákvæmlega hvort eða hvenær blessaður runninn hefði verið klipptur. Ég væri hins vegar með það á hreinu að það væri til skammar að hafa hann grænan og leiðinlegan fyrir augunum enn eitt árið. Garðyrkjumaðurinn vildi ekki staðfesta álit mitt. Hummaði og haaði eins og læknir gerir þegar sjúklingurinn hefur sjúkdómsgreint sjálfan sig og vill að læknirinn staðfesti greininguna.
Niðurstaðan varð sú að við ákváðum að sjá aðeins til. Sleppa því að klippa í ár og taka stöðuna þegar liði á sumarið. Ef ekki bólaði á blómum væri kannski lag að farga blessuðum runnanum í haust. En svo gerðist það óvænta! Runninn tók við sér sem aldrei fyrr, blómstrandi greinum fjölgaði dag frá degi – ekki síst góðu sólardagna sem glöddu menn og málleysingja. Hvað verður um runnan er óvíst enn sem komið er. En ég er að hugsa um að skrá hjá mér að árið 2022 hafi runninn ekki verið klipptur – ætti kannski að bíða til haustsins með skráninguna. Meðfylgjandi mynd tók ég af runnanum – sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir.