Á vef Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er greint frá því að bókmenntahópur FEB verði endurræstur miðvikudaginn 9. febrúar næstkomandi – að því gefnu að samkomutakmarkanir leyfi.
Nú á vorönn 2022 fara fyrstu tveir tímarnir í að ræða sjálfsævisögu austurríska gyðingsins Stefans Zweig, Veröld sem var en sem viðfangsefni í mars er á áætlun að taka fyrir bók Böðvars Guðmundssonar, Enn er morgunn. Hún er efnislega óbeint framhald af Veröld sem var, nema hvað vettvangurinn er Ísland frekar en meginland Evrópu.
Umræðum á fundum bókmenntahópsins stýrir Jónína Guðmundsdóttir, sem er bæði bókmennta- og bókasafnsfræðingur að mennt. Þrír fundir eru áformaðir, miðvikudagana 9. febrúar, 23. febrúar og 23. mars frá kl. 13.00 til 15.00.
„Um gríðarlega mikið að ræða“
Bókmenntahópur FEB hefur lengi verið starfandi, en eins og gefur að skilja hefur starfsemi hans legið í láginni „kóf-árin“ tvö sem nú er að ljúka. „Við Gísli Jafetsson fórum af stað með bókmenntahóp á vegum FEB þegar Djöflaeyjabálkurinn var settur á svið í Þjóðleikhúsinu á sínum tíma. Það er heilmikið starf sem við höfum unnið síðan,
en síðustu tvö ár hafa verið svakalega erfið eins og alþjóð veit,“ segir Jónína í samtali við Lifðu núna.
Auk bókmenntahópsins, sem er opinn öllum, stýrir Jónína ljóðalesturshóp sem hefur starfað síðan árið 2014. „Sá hópur hittist að jafnaði tvisvar í mánuði, átta mánuði ársins. Þetta er grjótharður umræðuhópur, ákaflega samstilltur,“ segir hún, en tekur fram að hann sé í raun lokaður, ólíkt bókmenntahópnum.
Hún segir það vera langþráð að geta aftur farið af stað með þær líflegu umræður um bókmenntir sem hópurinn stundi. Með bókunum sem nú séu teknar fyrir sé „um gríðarlega mikið að ræða“. Það sé tilhlökkunarefni eftir þetta langa „Kóf-hlé“ að geta hitt aftur allt það klára fólk sem mæti á fundi hópsins og eiga hreinskiptnar umræður yfir kaffibolla um töfra bókmenntanna.
Jónína bætir því við að hún hafi byrjað á þessu til að hafa verðugt viðfangsefni þegar hún hætti að vinna. Hún tók á efri árum próf í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, en hún vann áður sem bókasafnfræðingur á bókasöfnum og við skjalastjórn.
Hist í Stangarhyl
Fundir bókmenntahópsins fara að öllu jöfnu fram í húsnæði FEB í Stangarhyl 4 í Reykjavík. Skráning fer fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 eða með því að senda póst á netfangið feb@feb.is.
Nú í janúar hófust ýmis önnur námskeið á vegum FEB, þar á meðal tæknilæsisnámskeið í notkun á spjaldtölvum, í spænsku og Íslendingasagnanámskeið þar sem Grettis saga er tekin fyrir undir leiðsögn Baldurs Hafstað. Þá eru líka leikfiminámskeið í gangi, en þau eru haldin síðla morguns á þriðjudögum og fimmtudögum.