Boleyn systurnar leiksoppar feðraveldisins

Við birtum fyrir nokkru lista yfir áhugaverðar myndir á Netflix. Þar á meðal voru bæði eldri og nýlegar myndir. Hér kemur annar listi sem er eins samansettur.

The other Boleyn girl

Þetta er mynd um grimmileg örlög ungra kvenna í Bretlandi á  16. Öld, þegar feður og frændur voru tilbúnir að gefa dætur sínar, jafnvel til þess að þær yrðu hjákonur ríkra og áhrifaríkra karla. Toppurinn var auðvitað að komast innundir hjá kónginum sjálfum, Hinriki áttunda, sem var afskaplega veikur fyrir fögrum konum. Konurnar voru eins og skiptimynt í valdabaráttu karlanna og höfðu ekkert um örlög sín að segja. Sagan um Önnu Boleyn er sígild og hefur orðið mörgum skáldum að yrkisefni. Minna er vitað um eldri systur hennar Mary sem myndin fjallar um. Það er óhætt að mæla með þessari mynd, hún er virkilega góð, þó ýmsir hafi gagnrýnt það að hún fylgi ekki sögunni nákvæmlega, enda er hér um skáldskap að ræða þó stuðst sé við atburði sem áttu sér stað. Að mati blaðamanns Lifðu núna, er sagan samt sem áður afar áhugaverð.  Hlutverk Boleyn systra er í höndum Natalie Portman og Scarlett Johnson. Leikstjóri er Justin Cadwick.

Hjónin Connie og Edward eru gift og eiga átta ára son

Unfaithful

Unfaithful er dæmi um mynd sem fer rólega af stað, en síðan fer allt úr böndunum svo jaðrar við geðveiki. Svo mikið er víst að framhjáhald úthverfa eiginkonunnar og móðurinnar Connie Sumner sem Diane Lane leikur tekur óvænta stefnu þegar eiginmaðurinn Edward kemst á snoðir um allt saman. Hann er leikinn af hjartaknúsaranum Richard Gere. Myndin er hörku spennandi og Connie missir nánast stjórn á lífi sínu þegar hún fer að vera með Paul Martel, sér miklu yngri manni sem hún hittir af tilviljun í New York. Leikstjóri myndarinnar er Adrian Lyne.

Kate Wyler er töffari

Diplomat – ný þáttaröð væntanleg

Þessi þáttaröð fjallar um töffarann Kate Wyler sem starfar í bandarísku utanríkisþjónustunni og er gerð að sendiherra í Bretlandi.  Eiginmaðurinn sem hún er raunar að hugsa um að skilja við í upphafi þáttaraðarinnar spilar töluvert hlutverk í myndinni, en hann á líka að baki  starfsferil í utanríkisþjónustunni, þó nú sé hann einungis „sendiherrafrú“.  Æsileg atburðarás fer af stað á alþjóðavettvangi, þar sem sannarlega reynir á hinn nýja sendiherra. Það er Keri Russel sem fer með hlutverk Kate, en manninn hennar Hal Wyler leikur Rufus Sewell. Fyrsta þáttaröðin var vel leikin og spennandi, samtals 8 þættir. Næsta þáttaröð af Diplomat er sögð væntanleg á Netflix.

Sandra Bullock leikur konu sem hefur setið í fangelsi í 20 ár fyrir morð

The unforgiveable

Sandra Bullock leikur Ruth Slater í þessari mynd, en hún er að losna úr fangelsi eftir 20 ár þegar myndin hefst. Hún sat inni fyrir morð á lögreglustjóra sem kom inná heimili hennar í Washington fylki  til að bera hana og litlu systur hennar út, en þær bjuggu við erfiðar fjölskyldu aðstæður. Hún byrjar að vinna og hefur leit að systur sinni, sem hafði verið ættleidd eftir að Ruth fór í fangelsið. Það er ýmislegt sem blandast inn í leitina en hún hefur loks uppá systur sinni. Smám saman kemur sannleikurinn um líf þeirra í ljós. Myndin er byggð á samnefndri breskri þáttaröð og er leikstjórinn Nora Fingscheidt. Myndin er spennandi og óvenjulegt að sjá Söndru Bullock fara með skapgerðarhlutverk, í stað þess að leika „sætu stelpuna“ sem krækir að lokum í draumaprinsinn. Hún kann greinilega ýmislegt fyrir sér.

Remains of the Day

Þessi klassíker með Anthony Hopkins svíkur engan. Hann leikur í myndinni James Stevens yfirþjón á Darlington setrinu í Bretlandi á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina. Yfirboðari hans jarlinn af Darlington er stuðningsmaður Nazista, sem síðar á eftir að koma honum í koll. Stevens hefur helgað sig þjónustunni á Darlington setrinu sem virðist köllun hans í lífinu. Það kemur hins vegar róti á huga hans þegar ný ráðskona, Miss Kenton, sem leikin er af Emmu Thompson, kemur til starfa. Þau hrífast af hvort öðru, en breskur hugsunarháttur þessa tíma og lífsköllun Stevens gera þeim erfitt um vik. Myndin fékk á sínum tíma frábærar viðtökur og var tilnefnd til fjölda verðlauna, meðal annars fyrir leik þeirra Anthony Hopins og Emmu Thompson sem sýna stjörnuleik í myndinni.

 

 

Ritstjórn september 28, 2023 07:00