Steinunn og sterkasta kona í heimi

“Ég fékk hugmyndina þegar ég sá heimildarmynd Baldvins Z um Reyni Örn Leósson “Reynir sterki”, segir Steinunn G. Helgadóttir sem gaf nýverið út bókina “Sterkasta kona í heimi”. “Harmurinn í heimildarmyndinni heillaði mig, þó að lokum yrði bókin mín allt öðru vísi.”

Listakona út í gegn

Steinunn er listakona hvernig sem á hana er litið en hún hefur í gegnum tíðina unnið með ýmis listform. Eiginmaður hennar er Karl Kristjánsson læknir og eiga þau fimm börn. Þau bjuggu um tíma í Svíþjóð en fjögur barna þeirra búa nú í Svíþjóð og Danmörku og barnabörnin líka svo Steinunn segir brosandi frá því að hún eigi þangað erindi mjög oft.

Steinunn byrjaði feril sinn með því að skrifa ljóð en gerði ekki mikið með þau. Síðan fór hún í myndlistina og hefur starfað sem myndlistarmaður megnið af ævinni. Hún segist reyndar hafa unnið töluvert með orð í myndlist sinni svo listformin samtvinnuðust. Ljóðin tóku svo yfir á tímabili og Uppheimar gáfu út ljóðabókina Kafbátakórinn sem kom út um svipað leyti og hún fékk ljóðstaf Jóns úr Vör eða 2011. Seinni ljóðabókin heitir Skuldunautar.

Fyrsta skáldsaga Steinunnar bar titilinn “Raddir úr húsi loftskeytamannsins” en fyrir þá bók fékk Steinunn Fjöruverðlaunin. Síðan skrifaði hún bókina “Samfeðra” og í þessum tveimur bókum koma sömu söguhetjur fyrir þótt þær séu ekki framhald eða tengdar að öðru leyti. Nýverið kom svo út nýjasta bók Steinunnar og ber hún nafnið “Sterkasta kona í heimi” sem vísar eins og áður segir í sögu Reynis sterka.

Er mikill “nörd”

„Ég er dellukona, svona manneskja sem fær eitthvað á heilann. Gúgla það endalaust, ræði áhugamálið við alla sem ég næ í og eitt af því sem hefur heillað mig og heltekið eru sögur um töframenn eins og Houdini, fólk sem gerir eitthvað sem á ekki að vera hægt.“

Í heimildarmyndinni fann hún tengingu á milli Reynis og Houdinis, en meðal aflrauna sem Reyni tókst til dæmis að framkvæma var að brjótast út úr læstum fangaklefa sem hann var settur vel hlekkjaður inn í.

“Bókin átti strax að vera um konu sem væri sterk eins og Reynir en sagan varð auðvitað alls ekki eins og saga hans því sterkasta kona í heimi fer sínar eigin leiðir,” segir Steinunn. Bókin fjallar um systkini sem eru aðskilin í æsku og það hefur vond áhrif á þau. Strákurinn verður vegan kokkur og foringi í sundurleitum hópi aðgerðarsinna en stúlkan lærir förðunarfræði. Hún fæðist með þessa ofurkrafta, en flíkar þeim ekki, sérhæfir sig í líkförðun og verður svo vinsæl að allir vilja fá hana til að snyrta sig eftir dauðann. Langur biðlisti myndast, hún kemst í tísku og annar ekki eftirspurn sem hún skýrir þannig að með því að gera fólk fallegt fyrir síðustu ferðina geti hún látið allar sögur enda vel. Förðunarfræðingurinn, aðstandendur og líkin spjalla svo saman á meðan hún vinnur.

“Þegar ég komst lengra inn í handritið tók þessi kona, Gunnhildur, stjórnina því hún er sterk á svo mörgum plönum, þó umhverfið kenni henni að ofurkraftar séu ekki beinlínis viðeigandi í hennar tilviki. Kraftakonur eru sjaldséðar í sögunni. Jú annars, innan um karlhetjurnar í tímaþokunni glyttir í einstaka konu … formann kannski eða skessu – en þær eru sjaldgæfar.”

 

 

 

Ritstjórn október 25, 2019 09:16