Reykjavíkurborg býður uppá akstursþjónustu fyrir eldri borgara, sem uppfylla þau skilyrði að vera orðnir 67 ára, búa í eigin húsnæði og hafa ekki aðgang að bíl. Aksturinn er líka ætlaður þeim eldri borgurum sem geta ekki notað almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar. Þessi þjónusta er nokkuð mikið notuð. Ef maí mánuður á þessu ári er tekinn sem dæmi, þá voru 283 sem nýttu sér akstursþjónustuna. Hún er í boði á höfuðborgarsvæðinu alla daga vikunnar, á sömu tímum og strætisvagnar ganga, þó ekki á næturnar þegar næturstrætó gengur. Akstursþjónustan notast við allt frá stærri bílum sem taka hjólastóla til leigubíla, til að aka eldra fólki milli staða.
Ferðin með akstursþjónustu eldri borgara kostar 1185 krónur. Hver einstaklingur getur fengið samþykktar allt að 30 ferðir í mánuði, en Sigurbjörg Fjölnisdóttir deildarstjóri hjá velferðarsviði borgarinnar segir einnig algengt að eldri borgarar nýti sér 2-4 ferðir á mánuði. Panta þarf ferðirnar með a.m.k. dagsfyrirvara og það er Strætó sem sér um þjónustuna fyrir borgina, rétt eins og akstursþjónustu fatlaðra. Akstursþjónusta eldri borgara er þó ekki lögbundin eins og akstur fatlaðra. Bílstjórar akstursþjónustu eldri borgara, bíða eftir þeim í anddyrinu þar sem þeir búa ef þarf, aðstoða þá við að komast inní bílinn og aftur að anddyri á staðnum sem ekið er til. Ef fólk notar bíl frá akstursþjónustunni til að fara til læknis pantar það bílinn deginum áður. Það er hins vegar ekki alltaf vitað hvenær læknisheimsókninni lýkur, þannig að í þeim tilvikum geta menn hringt í akstursþjónustuna og látið vita að tíminn hjá lækninum sé búinn og þeir séu tilbúnir til að fara heim.
Sótt er um akstursþjónustuna hjá þjónustumiðstöðvum borgarinnar í hverfinu þar sem menn búa. Það er gert með því að fara á staðinn og sækja um, en einnig er hægt að gera það rafrænt í gegnum tölvu.
Karl Grant leigubílstjóri er einn þeirra sem ekur með eldri borgara sem skipta við akstursþjónustuna. Hann segir algengast að þeir séu að fara í sjúkraþjálfun, heimsókn til læknis eða í innkaupaferðir. En hann aki fólki einnig sem er að fara út að borða, í bíó eða leikhús.
Skoðaðu þjónustu Reykjavíkurborgar við eldri borgara með því að smella hér, á Upplýsingabanka Lifðu núna.