Lítum á viðbótargreiðslurnar sem fyrsta skref

Starfshópur á vegum félags- og barnamálaráðherra leggur til að gripið verði til sértækra aðgerða til að bæta kjör þeirra eldri borgara í landinu sem höllustum fæti standa. Um er að ræða viðbótargreiðslur eða húsnæðisstuðning til þeirra sem eru með mánaðartekjur undir lágmarki Tryggingastofnunar ríkisins, sem er um 240 þúsund krónur á mánuði. Lagt er til að þessu fólki verði tryggð 90% af fullum ellilífeyri frá TR.

Þeir sem hafa takmörkuð réttindi

Það er álit hópsins svo vitnað sé í tilkynningu frá ráðuneytinu að:  „verst settir í hópi aldraðra eru þeir sem hafa takmörkuð réttindi í almannatryggingum á Íslandi vegna fyrri búsetu erlendis, hafa áunnið sér lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum lifa eingöngu eða nánast eingöngu á bótum almannatrygginga eða búa í leiguhúsnæði eða mjög skuldsettu eigin húsnæði. Líklegt þykir að hluti hóps aldraðra falli undir nokkra eða alla fyrrnefnda flokka og búi þannig að öllum líkindum við fátækt“.

Ekki nóg að gert

Áætlað er að hópurinn sem þarf á viðbótargreiðslunum að halda sé í kringum 700 manns og gert er ráð fyrir því að það myndi kosta ríkið 300 – 400 milljónir króna á ári að hrinda tillögum starfshópsins í framkvæmd.  „Að sjálfsögðu teljum við ekki nóg að gert“, segir Haukur Halldórsson sem var formaður starfshópsins, en hann er jafnframt stjórnarmaður í Landssambandi eldri borgara. „Við lítum á þetta sem fyrsta skref, að hysja þá upp sem hafa ekki einu sinni það lágmark sem Tryggingastofnun greiðir fólki. En 30% eldri borgara eru undir lágtekjumörkum, sem þýðir að þau ná ekki lágmarkslaunum. Við lögðum til að frítekjumörk yrðu hækkuð til að bæta kjör þessa hóps, en með því móti dregur úr skerðingunum“.

Þarf að breyta lögum fyrir þinglok

Fulltrúar eldri borgara voru áfram um þetta en Haukur segir að aðrir í hópnum hafi ekki tekið undir tillöguna á þessu stigi, enda þyrfti lengri aðdraganda, til að útvega peninga til þess  á fjárlögum árið 2020. En tillögunni var ekki hafnað. Hann segir jafnframt að til þess að unnt sé að hrinda tillögum hópsins um viðbótarstuðning við þá verst settu í framkvæmd 1.júní á þessu ári, eins og talað er um, þurfi bæði að breyta lögum og semja reglugerðir, áður en þingi verður slitið í vor.

Ritstjórn febrúar 12, 2019 08:34