Breytingarnar í borgarlandslaginu eru spennandi

Umbreyting borgarlandslagsins er yfirskrift erindis sem Anna María Bogadóttir, arkitekt og menningarfræðingur, heldur í Ljósmyndasafni Reykjavíkur miðvikudaginn 2. júní kl. 12:10. Erindið er hluti af Fléttu Borgarsögusafns og er haldið í tengslum við afmælissýningu Ljósmyndasafnsins, Sigurhans Vignir │ Hið þögla en göfuga mál.

Tíminn mótar umhverfið kynslóð eftir kynslóð en framtíðin teiknar sig út frá sýn samtímans sem fyrr en varir, er orðin að fortíð. Þvert á tímavíddir gengur hið sígilda. Verðmæti byggjast upp í tímans rás. Í stöðugri umbreytingu borgarlandsins fangar ljósmyndin augnablik og stöðvar tímann um stund. Ljósmyndin lýkur upp glugga inn í framtíðarsýn fortíðar, drauma og daglegt líf.

Ókeypis er á Fléttuna og á yfirstandandi yfirlitssýningu á ljósmyndum Sigurhans Vignir á meðan á fyrirlestri stendur.

Flétta er viðburðaröð Borgarsögusafns þar sem fjölbreyttum sjónarhornum er fléttað saman við sýningar og starfsemi safnsins.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur fagnar 40 ára starfsafmæli sínu á þessu ári og sýningin er sérstök afmælissýning. Hún stendur til 19. september 2021.

Ritstjórn maí 31, 2021 14:39