Bryndísi Schram þarf ekki að kynna fyrir Íslendingum. Hún er ein af þeim sem kastljósinu hefur verið beint að allt frá því hún var ung stúlka í Vesturbænum. Hún var kjörin fegurðardrottning Íslands, þegar hún var nítján ára menntaskólanemandi– enda annáluð fyrir fegurð.
Undanfarið hefur ekki borið mikið á Bryndísi, svo að okkur lék forvitni á að vita, hvað hún hefði helst fyrir stafni þessa dagana. Í ljós kom, að hún er sjálfstætt starfandi og stóð til dæmis fyrir „Kvöldstund með Bryndísi“ í Hannesarholti í síðustu viku. Þar gerðist hún „stand-up comedian“, eins og nú er til siðs – en með alvarlegum undirtón – við góðar undirtektir áhorfenda.
Bryndís byrjaði snemma í dansnámi, m.a. við Listdansskóla Þjóðleikhússins frá stofnun hans. Þar að auki lauk hún prófi í leiklist frá Þjóðleikhússkólanum og BA prófi frá H.Í. í latínu, frönsku og ensku. Síðan var hún fastráðinn dansari og leikari við Þjóðleikhúsið til 1970, en þá á fluttist hún til Ísafjarðar, þar sem þau hjónin, hún og Jón Baldvin, stofnuðu og stýrðu Menntaskólanum á Ísafirði fyrsta áratuginn.
Á þessum tíma kynntist þjóðin Bryndísi á ný á sjónvarpsskjánum. Margir minnast hennar enn fyrir Stundina okkar, sem ávann sér ótrúlegar vinsældir. Hún vann við dagskrárgerð og þáttastjórnun bæði hjá RÚV og Stöð 2. Hún ritstýrði tímaritum og var um fjögurra ára skeið framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs. Þegar Jón Baldvin dró sig í hlé frá stjórnmálum, gerðist hann sendiherra í Norður- og Suður-Ameríku og síðan í Finnlandi, Eystrasaltslöndum og Úkraínu. Á þeim árum stóð Bryndís fyrir blómlegu menningar- og landkynningarstarfi á vegum þessara sendiráða.
Bryndís hefur alla tíð verið viðriðin leikhúsið og leiklistina. Hún er enn leikhúsmanneskja fram í fingurgóma og sér um þessar mundir um leiklistargagnrýni í DV og Pressunni. Hún segir það starf krefjast þess, að hún sjái allar leiksýningar og er alsæl með það.
Þau hjónin hafa verið með annan fótinn suður í Andalúsíu á Spáni undanfarin ár. Bryndís segist nota það sem athvarf, þegar ruglið gengur úr hófi fram hér heima, enda hugfangin af spænskri tungu. „Þangað förum við til að njóta lífsins í dásamlegu umhverfi og góðu veðri og sinna ritstörfum sem við gerum bæði töluvert af,“ segir þessi síunga farandkona, sem á s.l. hausti lauk nokkurra vikna flamenco námskeiði í þorpinu sínu.
.