Tengdar greinar

Carrie Fisher uppreisnargjörn, ákveðin og hjartahlý

Að vera barn tveggja stórstjarna í Bandaríkjunum er ekki endilega ávísun á hamingju og gott líf. Carrie Fisher var ein sönnun þess. Hún var hæfileikarík, gáfuð en fékk ekki notið sín til fulls vegna ýmissa erfiðleika tengda áföllum í æsku og andlegs sjúkdóms sem hún glímdi við. Henni var lýst þannig af vinum sínum að hún væri uppreisnargjörn, villt, ákveðin, sterk og hjartahlý. Carrie lést þann 27. desember 2016 aðeins sextug að aldri.

Hún var leikkona, rithöfundur og handritshöfundur. Í starfi sínu tókst henni að sameina áræðni, kjark og vongleði. Þekktust var hún fyrir hlutverk Leilu prinsessu í fyrstu Star Wars-seríunni. Hún var dóttir söngvarans Eddies Fishers og leikkonunnar Debbie Fisher. Hjónaband foreldra hennar fór út um þúfur þegar faðir hennar fór að halda við bestu vinkonu móðurinnar. Út af fyrir sig nógu slæmt en þegar við bætist að vinkonan var Elizabeth Taylor er ekki nokkur von um að málið gleymist.

Carrie var aðeins tveggja ára og bróðir hennar Todd ársgamall þegar hneykslismál foreldra hennar skóku heimsbyggðina. Debbie átti samúð flestra en Elizabeth var ekki dæmd eins hart og við hefði mátt búast því hún var nýlega orðin ekkja. Eiginmaður hennar Mike Todd hafði látist í flugslysi skömmu áður en ástarsamband hennar og Eddies hófst. Aldrei þessu vant var það því karlmaðurinn sem fór verst út úr öllu saman. Hætt var við sjónvarpsþáttaröð sem fyrirhuguð hafði verið og Eddie átti að leika aðalhlutverkið í og miðar á tónleika hans hættu að seljast. Ferill hans náði í raun aldrei sama flugi eftir þetta. Mike Todd var að auki besti vinur Eddies sem jók enn á reiði og hneykslun aðdáenda stjarnanna. Hann giftist síðar aftur og eignaðist tvö börn með seinni konunni.

Carrie í hlutverki Leiu prinsessu.

Póstkort frá brúninni 

Í fyrri ævisögu sinni, Postcards from the Edge, segir Carrie frá því að hún hafi verið mikill bókaormur sem barn og ákaflega hæglát. Henni gekk vel í skóla en lauk aldrei framhaldsskólanámi því hún var farin að leika með móður sinni á Broadway fimmtán ára gömul í verkinu Irene. Eftir það fór hún til London, í inntökupróf í London School of Speech and Drama og komst inn. Þar var hún við nám í átján mánuði en komst þá inn í Sarah Lawrence College og lauk námi þaðan.

Hennar fyrsta hlutverk í kvikmynd var í Shampoo með Warren Beatty og Julie Christie í aðalhlutverkum. Árið 1977 bauð George Lucas henni hlutverk Leiu prinsessu í fyrstu Star Wars-myndinni og þar með voru örlög hennar eiginlega ráðin. Hún varð Leia prinsessa í augum nánast alls heimsins.

Carrie hafði heilmikið með það að gera að Leia var sjálfstæð kona, ekki stríðsmaður en karlarnir og fullfær um að leysa sín eigin vandamál. Sú hlið persónunnar þróaðist í næstu myndum og í síðustu myndinni Empire Strikes Back er Leia harður og reynslumikill hershöfðingi. Hún hafði hins vegar nýlokið tökum á Star Wars: The Last Jedi áður en hún lést en Star Wars: The Force Awakens var frumsýnd var ári fyrir andlát hennar.  Þrátt fyrir velgengni stjörnustríðsmyndanna náði Carrie Fisher ekki hæstu hæðum í Hollywood vegna leikhæfileikanna. Árið 1987 kom út ævisöguleg skáldsaga hennar, Postcards From the Edge. Carrie hafði ævinlega fjallað opinskátt um baráttu sína við bipolar disorder. Hún hafði nefnt báðar hliðar persónuleika síns, Roy var hinn áræðni villti hluti en Pam sú sem stóð á ströndinni og grét fremur en að taka stökkið. Í Postcards From the Edge sagði hún einnig frá erfiðu sambandi sínu við móður sína og fíknisjúkdómi sínum.

Carrie Fisher með móður sinni Debbie Fisher.

Góður penni

Hún reyndist lipur penni og skrifaði af einstakri yfirsýn og kímni sem heillaði alla. Bókin náði metsölu og árið 1990 kom út kvikmynd byggð á henni með Meryl Streep, Shirley McLaine og Dennis Quade í aðalhlutverkum. Hún fylgdi vinsældum myndarinnar eftir í uppstandinu, Wistful Drinking eða Löngunarfull drykkja og síðar kom út bók með sama nafni.

Hún gerði jafnan góðlátlegt grín að persónu sinni Leiu prinsessu og öllum Star Wars heiminum. Hún sagðist þekkja of vel bæði dökku hliðina og þá ljósu þ.e. the dark side til að geta tekið fantasíuna alvarlega. Í síðustu bók sinni The Princess Diarist spurði hún hreinskilnislega, „Hver myndi vera með þetta mikið gloss í miðjum bardaga?“ Þar talar hún einnig um hversu slítandi það er að vera stöðugt í sviðsljósinu og eiga ávallt á hættu að það sem þú gerir rati í fjölmiðla.

Carrie Frances Fisher fæddist 21. október árið 1956 í Beverly Hills í Kaliforníu. Hún lýsir fæðingu sinni þannig að móðir hennar hafi verið svæfð til að tryggja sársaukalausa fæðingu en engu að síður hafi liðið yfir pabba hennar. „Þannig að þegar ég kom í heiminn var ég nánast eftirlitslaus og ég hef reynt að bæta upp fyrir þá staðreynd alla tíð síðan.“ Líklega hefur aldrei verið von um að Carrie ætti eitthvað sem líktist venjulegri æsku, en hefði svo verið var endanlega úti um hana þegar hún kom fram í fyrsta sinn með móður sinni í Irene, 15 ára og tveimur árum síðar tók hún einnig þátt í sýningu með henni.

Baráttan við fíknina

Fljótlega fór hún að drekka í óhófi. Þegar upptökur á The Empire Strikes Back stóðu yfir skemmti hún sér með hljómsveitarmeðlimum Rolling Stones og þeir eru ekki beint þekktir fyrir að halda aftur af sér þegar kemur að partíhaldi. Með þeim lærði hún að taka kókaín með áfenginu en áður hafði hún aðallega kosið að nota LSD og percodan. Um svipað leyti var hún valin til að vera gestgjafi í Saturnday Night Live á og átti í ástarsambandi við Dan Aykroyd. Hún lék í The Blues Borhhers og þar kynntist hún Paul Simon og giftist honum. Hjónabandið entist í nokkra mánuði. Í The Princess Diarist játaði hún hins vegar í fyrsta sinn nokkuð sem óstaðfestur orðrómur hafði verið um lengi nefnilega að hún og Harrison Ford hefðu átt í ástarsambandi meðan á upptökum fyrstu Star Wars-myndinni stóð.

Árið 1985 rétt eftir að tökum á Hannah and her Sisters lauk tók hún of stóran skammt og var flutt upp á spítala þar sem dælt var upp úr henni. Hún fór í meðferð eftir það og sú reynsla er meginþemað í Postcards from the Edge.  Þar á meðal lýsir hún því hvernig móðir hennar færði henni hnetusmjörssmákökur og ævisögu Judy Garland þegar hún kom í heimsókn til hennar. Með gjöfunum fylgdi sú persónugreining að Suzanne (persónan sem í raun er Carrie sjálf) væri einfaldlega of óþolinmóð. Hún væri sífellt í leit að uppfyllingu langanna sinna og gæfi sér ekki tíma til að bíða eftir neinu.  Suzanne svarar: „Umsvifalaus fullnægja óska tekur of langan tíma.“

Henni tókst þó að ná tökum á vanda sínum og kom oft fram opinberlega og ræddi baráttu sína. Fyrir það sæmdi Harvard-háskóli hana árlegum verðlaunum sínum, Outstanding Lifetime Achievement Award in Cultural Humanism. Síðustu árin áður en hún dó hafði Carrie einnig nóg að gera í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hún kom fram í Sex and the City og The Big Bang Theory. Hún fór einnig iðulega með gestahlutverk í bresku gamanþáttunum Catastrophe. Á Þorláksmessu árið 2016 fékk hún hjartaáfall um borð í flugvél á leið frá London til Los Angeles og lést síðan af völdum þess að morgni 27. desember. Hún átti eina dóttur Billie Lourd með umboðsmanninum Bryan Lourd. Móðir hennar, Debbie Reynolds, varð svo mikið um veikindi og lát dóttur sinnar að hún dó daginn eftir andlát Carriear, 84 ára að aldri. Þótt oft slægi í brýnu milli þeirra mæðgna þótti þeim innilega vænt hvorri um aðra og milli þeirra voru náin tengsl.  Öll ystkini Carrie, Todd, Joely og Tricia Fisher Leigh eru á lífi í dag og starfa flest við kvikmyndaiðnaðinn.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 6, 2024 07:00