Dægurflugur og mjúkar melódíur í hádeginu

Músíkalska parið Ástrún Friðbjörnsdóttir og Ívar Símonarson flytja skemmtilega blöndu af ábreiðum úr ýmsum áttum ásamt frumsaminni tónlist Ástrúnar í Borgarbókasafninu Gerðubergi föstudaginn 15. nóvember kl. 12:15-13:00 og
Borgarbókasafnið Spönginni laugardaginn16. nóvember  kl. 13:15-14:00. Hér er á ferð spennandi tónlistarviðburður sem vert er að njóta og enginn aðgangseyrir.

Ástrún Friðbjörnsdóttir er söngkona og lagahöfundur. Hún byrjaði ung í tónlistarnámi og hefur sungið klassík, flamenco, jazz og popp en hefur undanfarið verið að gefa út sína eigin tónlist. Hún gaf út smáskífuna Sandkorn vorið 2023 þar sem Ívar Símonarson sá um gítarútsetningar og gítarundirleik. Ívar Símonarson er gítarleikari og gítarkennari og hefur einbeitt sér að flamenco gítarleik og sótt ýmis námskeið því tengdu á Spáni.

Ívar og Ástrún hafa spilað saman í næstum tuttugu ár og flytja  á þessum tónleikum, ásamt Leifi Gunnarssyni bassaleikara, lögin hennar Ástrúnar og nokkra þekkta jazzstandarda eins og My funny Valentine, My favorite things og Lullaby of Birdland.

Dægurflugur í hádeginu er tónleikaröð sem Borgarbókasafnið stendur fyrir í samstarfi við Leif Gunnarsson kontrabassaleikara. Þar kemur fram margt af okkar helsta tónlistarfólki og á tónleikunum gefst Reykvíkingum tækifæri til að koma saman, hitta félaga, njóta tónlistar og spjalla við tónlistarfólkið eftir tónleika.

Markmiðið er fyrst og fremst að færa metnaðarfulla tónlist út í hverfi borgarinnar þannig að fólk geti notið hennar í eigin nærumhverfi og á eigin forsendum. Listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar er Leifur Gunnarsson kontrabassaleikari.

Frítt er inn á tónleikana og eru öll hjartanlega velkomin.

Viðburðurinn á Facebook
Viðburðurinn á heimasíðu

Ritstjórn nóvember 14, 2024 07:00