Dagbækur frá ömmu og sendibréf frá pabba

Páll Valsson

Það er mikil aðsókn að námskeiðum sem fjalla um ættfræði og einnig námskeiðum þar sem kennd er ritlist. Páll Valsson rithöfundur og útgefandi er einn þeirra sem hefur kennt á svipuðum námskeiðum og um þessar mundir er hann einmitt að kenna á námskeiði í Endurmenntun HÍ, sem heitir Að rita ævisögur og endurminningar. Sjálfur hefur hann skrifað ævisögur og segir að það sé sennilega ástæðan fyrir því að EHÍ hafði samband við hann. Það hefur yfirleitt verið fullt á námskeiðum hans, jafnvel svo að til vandræða hefur horft, og hann segir að nemendurnir séu gjarnan um og yfir fimmtugt.  „Þetta er fólk sem er ýmist sjálft að skrifa minningar sínar, eða situr uppi með efni frá ættingjum sínum, foreldrum, öfum og ömmum, jafnvel vinum og maka“, segir hann.

Annað að skrifa efni til almennrar útgáfu

Páll segir að einhverjir séu ef til vill með dagbækur ömmu eða mömmu, gömul sendibréf, ýmsar frásagnir og fróðleik um sveitir. „Það er til mikið efni víða og menn velta fyrir sér hvort það sé einhvers virði og vilja fá aðstoð við að meta það og setja það í einhvern búning“, segir hann og bætir við að námskeiðin hafi verið skemmtileg og hann sé sannfærður um að það muni koma ágætar bækur út úr þeim áður en yfir lýkur, því margir hafi frá mörgu að segja og séu einnig pennafærir. Hann segir þó greinarmun gerðan á því, hvort menn séu eingöngu að skrifa fyrir sjálfa sig og nánustu fjölskyldu, eða hvort þeir vilji skrifa sögur sem þeir ætli til útgáfu. „Ef menn ætla efnið til útgáfu, eru vinnubrögðin allt önnur. Þetta er tvennt ólíkt“ segir hann.

Hvers vegna vill fólk skrifa?

Á námskeiðinu fer Páll yfir ýmsar aðferðir sem hægt er að beita við ritun ævisagna eða endurminninga. „Það er spurning hvernig fólk kemur sér í gang. Flestir eru með eitthvað sem ýtir á þá til að fara að skrifa.  Ég spyr fólk kannski, hvað það sé sem togi í það. Það geta verið einhver eftirminnileg atvik, eða ákveðnar persónur og þá er hægt að byrja þar og taka svo boltann þaðan.“

Margs konar efni innan seilingar

Eitt af því sem hægt er að gera er að taka upp efni, sérstaklega ef fólk er enn á lífi sem man ákveðna atburði eða persónur. Einnig ef skrifa á ævisögu fólks sem er enn til frásagnar. Sé ætlunin að skrifa um líf manneskju sem er fallin frá, segir Páll að það sé spurning um að reyna að setja sig í spor hennar. Stundum vanti líka lýsingar á umhverfi eða samfélagi. Það sé hægt að setja sig inn í það og þá sé fólk kannski komið með spennandi handrit. Hann segir að sumir átti sig kannski ekki á því hversu víða sé hægt að leita að efni á netinu, til dæmis á tímarit.is. Þannig sé margs konar efni innan seilingar sem geti hæglega nýst þeim sem hyggja á skrif um ævi sína eða annarra.

 

Ritstjórn október 11, 2017 10:04