Dekrað við fæturna

Fæturnir eru verðmæt undirstaða vellíðunar. Þeir ráða úrslitum um hvernig við berum okkur í daglegu amstri og sé eitthvað að þeim verður öll hreyfing erfið. Þess vegna þarf að hugsa vel um fæturna. Halda húðinni mjúkri til að koma í veg fyrir siggmyndun, klippa neglur og verja álagspunkta.

Baðsölt

Að hvíla þreytta fætur í fótabaði virkar vel, ekki hvað síst ef bætt er baðsalti í vatnið. Baðsölt eru hreinsandi, mýkjandi og örvandi. Með hjálp þeirra er hægt að vinna á siggi, litarblettum og örva blóðrásina um fæturna.

Epsom-salt

Virkni epsom-salts er velþekkt en það hefur verið notað í heilsubætandi tilgangi áratugum saman. Mjög margir kjósa að setja ævinlega epsom-salt út í baðvatnið. Það inniheldur bæði magnesíum og súlfat er draga úr vöðvaspennu.

Fótskrúbbur

Með því að skrúbba blauta fæturna með þar til gerðum fótskrúbbi eða með bursta er hægt að komast langt í að ná burtu öllu siggi og dauðum húðfrumum. Þeir sem vilja geta búið til sinn eigin skrúbb en mjög mörg góð snyrtivörumerki framleiða þá líka.

Heimatilbúinn skrúbbur

½ dl sykur

½ lyftiduft (það leysir upp dauðar húðfrumur)

½ dl ólífuolía eða önnur góð olía

Hægt er að nota gróft salt í stað sykurs og margir blanda einnig haframjöli saman við skrúbbinn.

Krem og kúrar

Gott fótakrem er nauðsynlegt að eiga allan ársins hring. Það heldur húðinni rakri og mjúkri. Ef húðin á fótunum er mjög þurr er gott ráð að fara í fótabað að kvöldi, hreinsa vel burtu allar dauðar húðfrumur, bera fótakremið á og sofa í þunnum bómullarsokkum. Þá nær kremið að smjúga vel inn í húðina yfir nóttina. Sumir kjósa að bera ólífuolíu á fæturna. Það má taka sérstaka kúra af og til og taka þá nokkrar daga í að sinna fótunum einstaklega vel. Fara í fótabað á hverju kvöldi, bera rakamaska á fæturna og sofa með krem á þeim. Slíkir kúrar geta komið í veg fyrir líkþornamyndun.

Fótsnyrting

Á hverju heimili ætti að vera til fótsnyrtisett. Neglurnar á fótunum þarfnast meiri umhirðu en bara að klippa þær af og til. Naglaböndin verða þykk ef ekki er sinnt um að hreinsa þau burtu reglulega. Sumum hættir til að fá inngrónar táneglur en auðvelt er að koma í veg fyrir það vandamál með því að klippa þær ört. Til að neglurnar haldi fallegu lagi og útliti þarf að pússa yfirborð þeirra og þjala þær til.

Brúnir fætur

Fallegir brúnir fætur eru mikil prýði en á Íslandi er sjaldnast svo sólríkt að slíkur litur náist fyrr en langt er liðið á sumarið. Brúnkukrem geta brúað bilið og þá er gott að byrja á að þurrbursta húðina á fótum og fótleggjum, fara í sturtu og skrúbba sig vel með góðu kornakremi, raka fæturnar eða vaxa, þurrka síðan vel og bera brúnkukremið á. Stundum þarf að fara nokkrar umferðir til að ná jöfnum og góðum lit.

Steingerður Steinarsdóttir ritsstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 15, 2025 07:00