Birna Sigurðardóttir auglýsingastjóri Lifðu núna ólst að hluta til upp í Læknishúsinu á Fáskrúðsfirði en þar bjuggu foreldrar hennar fyrstu árin hjá afa hennar og ömmu, Litu Bohn Ipsen Sigurðsson og Haraldi Sigurðssyni. Birna rifjaði upp nokkur áhugaverð minningarbrot um ömmu sína og þá nýstárlegu jólasiði sem hún kom með austur með sér á fimmta áratug síðustu aldar.
Afi hennar og amma voru bæði læknar. Hún man vel eftir að oft var komið með alvarlega slasað fólk inn á heimili þeirra. Þetta voru uppgangstímar og síldinni mokað upp úr skipunum við höfnina og oft gekk mikið á við að ná í og vinna aflann.
„Ég man eftir því hvernig fólkið hljóðaði af kvölum á næturnar,“ segir hún. „Eitt sinn var komið með sjómann sem hafði fengið bobbing í andlitið og kinnbeinið og ennisbeinið voru brotin og húðin hafði flest af hluta andlitsins. Afi var í vitjun og amma tók við honum og hlúði að honum og gerði við sárin eins og hægt var. “
Frábær læknir og frumkvöðull
Lita Bohn Ipsen Sigurðsson var merkileg kona og frumkvöðull á mörgum sviðum. Hún kom með eiginmanni sínum til Fáskrúðsfjarðar 23. október árið 1940. Hann var heimilis- og fæðingalæknir en hún lyf- og geðlæknir. Haraldur hafði misst fyrri konu sína, Súsönnu Maríu þegar hún var aðeins tuttugu og átta ára. Börn hans, Sigurður og Ragna voru þá ung að árum og þeim var komið fyrir hjá föðursystur sinni meðan faðir þeirra fór í sérnám til Danmerkur. Þar kynnist hann Litu en hún var aðstoðaryfirlæknir á sjúkrahúsinu þar sem hann lærði. Þau sendu eftir börnunum eftir að þau tóku saman og þegar námi Haraldar lauk fluttu þau til Fáskrúðsfjarðar þar sem hann tók við embætti héraðslæknis.
„Þótt amma hafði ekki fengið almennt læknaleyfi á Íslandi fyrr en and 1942 og enga stöðu reyndist hún betri en enginn þegar afi var í læknisferðum um héraðið á hinum ýmsu stöðum sem hann ferðaðist til með mótorbátum því engir voru vegirnir. Amma var nefnilega mjög góður lyflæknir.
Í Læknishúsinu fæddist ég og bjó þar til ég var þriggja ára en þá fluttum við í Bröttuhlíð hús sem foreldrar mínir byggðu, en ég var viðloðandi Læknishúsið þar til pabbi og mamma fluttu suður á áttunda áratugnum. Ég dvaldi þar öll sumur í æsku og fer þangað oft enn og dvel eins lengi og ég get. Ég sé ömmu mína ljóslifandi fyrir mér klædda pilsi niður að hné. blússu, reimuðum skóm með hæl og hnút hnakkanum, þar sem hún opnaði fram í biðstofu og sagði: „Værsgo“. En biðstofa læknanna var forstofan í Læknishúsinu og stundum var það mikið að gera að fólk sat í stiganum og beið eftir að komast að.“
Kynnti ris a la mande fyrir Íslendingum
Jólasiðir Litu voru Íslendingum líka framandi en segja má að hún hafi verið áhrifavaldur því margar konur lærðu af henni að búa til ýmislegt gómsætt, meðal annars ris a la mande.
„Matarmenning ömmu var einstök á þessum tíma og hún gerði mat sem fáir höfðu bragðað áður. Þegar hún var með lambalæri gerði hún „labskovs“ daginn eftir úr afgangnum. Þá brytjaði hún kjötið í pott, bætti út í hráum kartöflum, lárviðarlauf, sósulit, kryddi og vanti og lét malla við vægan hita í einn og hálfan tíma og bar fram með íslensku smjöri. Uppáhaldsmaturinn minn var þegar hún velti steinbít upp úr hveiti og pönnusteikti með brúnni lauksósu en þannig matreiddi hún hann.
Hún bjó alltaf til allt konfekt sjálf. Á jólunum bjó hún til marsipanlengju með skrautsykri, pakkaði inn í sellófan og batt slaufur á endana. Þetta var möndlugjöfin. Hún lét ala gæs inni á Gestsstöðum og fór reglulega til að pota í hana og kom með tilmæli um hvað ætti að gefa henni. Þannig að ég ólst upp við aligæs á jólum, fyllta með eplum. Það þekktu ekki margir í þá daga. Amma bjó til lifrarpaté, karrýsíld, marineraða síld og þetta ásamt heimabökuðu brauði bar hún á borð um kvöldmatarleytið ásamt afgöngum frá því í hádeginu. Ris a la mande var óþekkt hér og sósuna sem var borin fram með bjó hún til úr rifsberjum úr garðinum. Amma bakaði líka oft köku sem hét, Tante Anne, og ég held aað margir Fáskrúðsfirðingar hafi fengið uppskriftina hjá henni.
Amma var mjög reglusöm. Það átti enginn að brjóta reglur og heldur ekki hún. Hún reykti tvær tyrkneskar sígarettur yfir daginn, hvorki meira né minna. Seinni sígarettu dagsins reykti hún eftir kvöldmat og þá átti hún til að fá sér púrtvínsglas og það var einungis eitt glas, hvorki meira né minna. Þá sagði hún alltaf: „Det er dejligt …“
Föst í fannfergi og hafís
En hún á fleiri sérstæðar minningar frá Fáskrúðsfirði. minningu um fádæma fannfergi og kulda á Fáskrúðsfirði fyrir um það bil sextíu árum.
„Ég var send austur á Fáskrúðsfjörð um páskana til að aðstoða móðurbróður minn þegar ég var sextán ára,“ segir Birna. „Konan hans hafði veikst og verið send suður á sjúkrahús og ég kom til að hugsa um heimilið. Það snjóaði þegar ég kom austur og hélt áfram að snjóa. Skaflarnir voru svo háir að sums staðar sást ekki í húsinu. Það kviknaði í fallegasta húsi bæjarins nóttina eftir að ég kom og það brann til kaldra kola því ekki var hægt að ná slökkviliðsbílnum út úr slökkvistöðinni. Snjórinn var svo mikill að hann náði upp fyrir þá byggingu, sem reyndar var eins og rúmgóður bílskúr.
Ég dvaldi í tveggja hæða húsi sem stóð við brekku en upp hana lá gata. Við urðum að ganga út um svaladyr á risinu og beint út á götuna í brekkunni því það var ekki möguleiki að grafa sig niður að inngangnum.
Þegar að því kom að ég ætti að fara heim aftur voru allir vegir ófærir og ljóst að ég færi ekki landleiðina heim. Ég ákvað því að taka mér far með strandferðaskipinu Esju, enda þurfti ég að komast í skólann. Þá tók ekki betra við. Skipið festist í ís við Norðfjarðarósinn og var þar fast í marga daga. Ég stytti mér stundir með því að horfa á ísbjarnarbirnu með húninn sinn úti á ísnum af þilfari skipsins.“
Loks losnaði um ísinn og skipið sigldi af stað. Þegar Birna kom heim var henni strítt á því að þetta væri líklega frumlegasta aðferð við að losna við að mæta skólann sem nokkur hefði gripið til. Hún segir að nútímafólk hafi gott af að muna að sviptingar hafi verið í veðrinu hér áður fyrr ekkert síður en núna. En nú eru jólin á næsta leyti og Birna tilbúin að taka á móti þeim og borða önd fyllta með eplum að hætti ömmu Litu.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.