Af þeim 480 sem luku bótarétti sínum hjá Vinnumálastofnun um áramót þegar bótarétturinn var styttur úr 36 mánuðum í 30 voru 115, eða 24 prósent þeirra sem misstu rétt til atvinnuleysisbóta 55 ára og eldri. Þegar þessi hópur er skoðaður nánar kemur í ljós að tæpur helmingur eða 51 er með grunnskólapróf, 26 karlar og 25 konur. Næst fjölmennasti hópurinn er með háskólanám að baki eða 24 þar af eru helmingi fleiri karlar en konur. Aðrir hópar eru fámenari eins og sést á meðfylgjandi töflu.
Hvað varð um hópinn sem fór af bótum um áramót er lítið vitað þar sem engar rannsóknir haf verið gerðar á afdrifum þess fólks. Vinnumálastofnun lét hins vegar gera könnun í desember á högum þeirra sem höfðu þá þegar fullnýtt þriggja ára bótarétt sinn. Í úrtakinu voru 1572 þar af svöruðu 1021, af þeim voru 342 eldri en 55 ára eða 34 prósent svarenda.
Eldra fólkið á ellilíeyri
Þegar rýnt er í niðurstöður könnunarinnar má lesa ýmislegt um stöðu miðaldra og eldri á vinnumarkaði. Í könnuninni var hópnum sem er eldri en 55 ára skipt í tvennt. Annars vegar þá sem eru 55 til 64 ára og svo 65 ára og eldri. Fólk var meðal annars spurt hvernig framfærslu þess hefði verið háttað eftir að það hætti að fá greiðslur frá Vinnumálastofnun. Af þeim sem voru á aldrinum 55 til 64 ára sögðust 49 prósent vera með launatekjur, 21 prósent fékk fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sínu, á örorkulífeyri voru 12,5 prósent og á endurhæfingalífeyri 3,5 prósent. Í eldri aldurshópnum sögðust 66,6 prósent fá ellilífeyri, 6,3 prósent örorkulífeyri og 4,2 prósent fengu endurhæfingalífeyri. Tæp 26 prósent voru með launatekjur í hópnum.
Minna en 250 þúsund á mánuði
Spurt var um heildartekjur fyrir skatt. Í yngri aldurshópnum sögðu 80 prósent að þær væru undir 250 þúsund krónum á mánuði, tæp 14 prósent að þær væru á bilinu 250 til 349 þúsund krónur en 6,2 prósent að þær væru yfir 350 þúsund krónum.Fjórðungur þeirra sem voru á aldrinum 55 til 64 ára sögðust vera í fullu starfi, en 8,1 prósent svarenda sem voru eldri en 65 ára. Af yngri hópnum sögðust tæplega 24 prósent vera í hlutastarfi en í eldri hópnum voru það rúm 11 prósent. Af þeim sem voru orðnir 65 ára og eldri sögðust 68,5 prósent vera á örorkulífeyri eða ellilífeyri, en tæp 15 prósent í yngri hópnum sögðust vera það.
Í atvinnuleit
Þriðjungur hinna yngri segist í atvinnuleit en rúm 12 prósent þeirra eldri. Fólk var spurt hvort það teldi að atvinna þess væri tryggð. Í stuttu máli má segja að þeir sem yngri eru telja starfsöryggi sitt meira en þeir sem eldri eru. Flestir sem tóku þátt voru giftir eða í sambúð. Í yngri hópnum sögðust 65 prósent vera giftir eða í sambúð en hlutfallið var mun hærra meðal þeirra sem voru orðnir 65 ára og eldri eða 72 prósent. Fólk var spurt hvort það byggi í eigin húsnæði, tæplega 70 prósent á aldrinum 55 til 64 ára sögðu svo vera, hlutfallið var talsvert hærra í eldri aldurshópnum eða 82,5 prósent.