Dregið úr kostnaði við tannlækningar 2018

Katrín Jakobsdóttir.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi 14. desember og í kjölfarið voru umræður um hana. Lifðu núna renndi í gegnum ræðurnar og týndi út það sem kom fram um stöðu eldra fólks í samfélaginu. Forsætisráðherra sagði þetta:

Frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra verður hækkað strax á næsta ári en þetta var ein af lykilkröfum aldraðra fyrir kosningar og þá verður dregið úr kostnaði aldraðra og örorkulífeyrisþega við tannlækningar strax á næsta ári sem er mál sem lengi hefur verið beðið eftir og mikið kallað eftir í þessum sal.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Inga Sæland

Við sjáum og að talað er um að komið hafi verið til móts við kröfur eldri borgara um að hækka frítekjumark á launatekjur. Það er satt. Það var komið örlítið til móts við þá, í áttina að því að koma frítekjumarkinu næstum því þangað sem það var þegar það var höggvið niður, næstum í það sem það var þá, 100 þús. kr. núna um áramótin. Mér hefur áskotnast skýrsla sem hefur verið unnin fyrir eldri borgara, mjög vönduð og góð skýrsla. Hún er full af staðreyndum og útreikningum sem ég mun glöð leggja fyrir hér sem sýna og sanna að það sem við vorum að boða í kosningabaráttunni er einfaldlega þetta: Það er lýðheilsumál að afnema algjörlega skerðingar á launatekjur eldri borgara og öryrkja. Það er verið að tala um jöfnuð, það er verið að tala um jöfn tækifæri og hagsæld. Hvers vegna í veröldinni skyldi okkur þá ekki gert kleift að vinna ef við mögulega getum, að reyna að bjarga okkur sjálf ef við mögulega getum?

Mig langar að segja ykkur frá því, kæru landsmenn, að í gær — það er ekkert skemmtilegt að segja frá því í pontu á þessu kvöldi að ég hafi fengið tannpínu en ég sé að nú á að bæta í og efla fjármagn til tannheilsu eldri borgara og öryrkja. Í rauninni er það hálfhlægilegt vegna þess að lagalega eigum við að fá niðurgreidd 75% til tannlæknakostnaðar. Ég veit ekki hvers vegna í veröldinni ég fékk bara 16%, hefði í raun átt að fá 0% þar sem ég er öryrki á háum launum í dag. En ég hitti gömul hjón sem voru að fara í lyftuna þegar ég var að fara heim. Þau óskuðu mér til hamingju og sögðust hafa kosið okkur. Ég þakkaði þeim fyrir og benti þeim einfaldlega á að án þess stuðnings sem ég hef fengið og möguleikanna á að standa hér og nú hefði ég ekki getað farið til tannlæknis. Ég hafði ekki getað farið til hans í níu ár. Er þetta boðlegt? Er boðlegt að gamla fólkið okkar skuli leggjast áhyggjufullt á koddann á kvöldin?

Logi Einarsson

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar

Hæstvirtur forsætisráðherra segir að í augum alþjóðasamfélagsins séum við fyrirmyndarþjóðfélag að mörgu leyti og að við eigum að gleðjast yfir því þegar vel gengur. Það er hárrétt og þó að það sé vafalaust rétt að allir hafi það nokkuð gott að meðaltali birtist daglega óhuggulegur ójöfnuður, líka á Íslandi. Eldri hjón sitja fyrir framan arineld í rándýru einbýlishúsi og skrifa jólakort meðan gömul kona hírist í kjallaraholu og veltir því fyrir sér hvort hún hafi ráð á því að greiða rafmagnsreikning eða eigi að fara til læknis. Miðaldra kall sankar að sér íbúðum til að leigja á gróðavæddum skortmarkaði meðan annar heldur upp á fimmtugsafmælið sitt í húsbíl í Laugardal og vonar að nóttin verði ekki köld.

Ólafur Ísleifsson Flokki fólksins

Ólafur Ísleifsson.

Enginn velkist í vafa um hverjir það eru sem standa höllustum fæti í íslensku samfélagi. Þetta eru hópar aldraðra og öryrkja — en þessir hópar eru sem kunnugt er aldrei nefndir öðruvísi en að orðið skerðingar fylgi með — barnafjölskyldur með lágar tekjur og almennt verkafólk. Flokkur fólksins lítur á það sem hlutverk sitt á Alþingi að standa vörð um hag þeirra sem höllum fæti standa og bjóða þeim viðunandi lífskjör í stað sífelldra skerðinga og afarkosta eins og nú er uppi.

Svandís Svavarsdóttir.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

Við erum að gera við samfélagsinnviðina, virða samfélagssáttmálann, hefja aftur á loft þá sýn okkar flestra að enginn verði skilinn eftir og vinna samkvæmt því; gera við, breyta og bæta en líka byggja nýtt og byggja við í góðri samvinnu við fólkið sem best þekkir til og veit hvar þörfin er mest. Um leið erum við að leggja grunn að róttækri stefnu í loftslagsmálum og umhverfismálum. Við erum að efla opinbera heilbrigðiskerfið, hlut aldraðra og öryrkja, skólana, tungutæknina og náttúruverndina. Við ætlum okkur að styrkja stöðu barnafólks, kvennastétta og brotaþola kynferðisbrota. Þetta eru mikilvægar samfélagsumbætur.

Guðmundur Ingi Kristinsson Flokki fólksins

Guðmundur Ingi Kristinsson.

Lífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót var við upphaf staðgreiðslu árið 1988 án skatts og það var afgangur af persónuafslættinum upp í aðrar tekjur, t.d. lífeyrissjóðgreiðslur. Spáið í það að þetta var hægt 1988 og á því vel að vera hægt í dag. Tökum upp þrepaskiptan persónuafslátt þannig að ráðstöfunartekjur lífeyrisþega, þeirra tekjulægstu og millitekjufólks aukist frekar en að lækka lægra þrep tekjuskatts einstaklinga, eins og hæstv. forsætisráðherra vill. Það er ekki eðlilegt að einstaklingar á lífeyri og láglaunafólk séu með sama persónuafslátt og hátekjufólk. Fjöldi öryrkja og eldri borgara á ekki fyrir mat, lyfjum eða læknisþjónustu. Spilling og græðgi sem felur í sér að við höfnum allri samúð og hjálpsemi og skilur börn og veikt fólk eftir í algjörri fátækt er aldrei réttlætanleg.

Hægt er að lesa allar ræðurnar sem fluttar voru í heild hér

Ritstjórn desember 15, 2017 11:51