Björgvin Guðmundsson skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú áttað sig á því að, flokknum urðu á mistök, þegar hann samþykkti í síðustu ríkisstjórn að lækka frítekjumark vegna atvinnutekna úr 109 þúsund krónum á mánuði, fyrst í 0 og síðan í 25 þúsund krónur á mánuði. Það er gífurleg óánæja með þetta meðal eldri borgara enda óskynsamlegt að „banna“ eldri borgurum að vinna, ef þeir hafa heilsu til og það kostar ríkið sáralítið að hafa ríflegt tekjumark vegna atvinnutekna; ríkið fær það mikið af sköttum af atvinnutekjum aldraðra.
Í stjórnarsáttmála nýrrar stjórnar segir, að draga eigi úr skerðingum vegna atvinnutekna. Nýr félagsmálaráðherra segir, að dregið verðu úr skerðingum vegna atvinnutekna einhvern tímann á kjörtímabilinu!
Með því að ný ríkisstjórn er þeirrar skoðunar að draga eigi úr skerðingum vegna atvinnutekna aldraðra á ekki að bíða með að gera það. Það á að gera það strax. Þetta er ekki neitt kosningamál fyrir næstu kosningar. Þetta er hagsmunamál eldri borgara og þess vegna á að framkvæma það strax um leið og Alþingi kemur saman.