Sennilega eiga flestir þeirra sem komnir eru á miðjan aldur , eða eru þaðan af eldri, þá sameiginlegu reynslu að hafa farið á sveitaball en þau voru haldin um hverja helgi í félagsheimilum út um allt land eftir miðja síðustu öld og fram undir aldamót. „Sveitaböllin eru hvað sem tautar og raular arðbærasti rekstur félagsheimilanna og það eru vasapeningar ungs fólks úr sveit og úr borg sem halda uppi þessum menningarmusterum dreifbýlisins að verulegu leiti. Um það má lengi deila, hvort þessar skemmtanir eru hollar ungu fólki,“ sagði í dagblaðinu Vísi árið 1971. Stærsti hópur þeirra sem sótti sveitaböllin var á aldrinum 14 til 18 ára og það var troðið í húsin og drukkið af stút.
Þrengsli á böllunum
„Stundum eru fjórir á hvern fermeter, stundum sex, en það skiptir ekki máli, því allir hafa sömu að- stöðu. Þar eru menn ekki þuklaðir í dyrunum á vansæmandi hátt og þar er enginn að hnísast í aldur samkomugestanna. Innan dyra geta menn annaðhvort staðið þar sem þeir eru komnir (t.d. ef það eru fleiri en sex á hvern fermeter) eða þeir iðka frjálsa drykkju af stút og frjálsar ástir á einhverjum tilteknum bletti af gólfinu, sem var af höfundum hússins ætlað fyrir dans,“ sagði blaðamaður Vikunnar í byrjun níunda áratugar síðustu aldar.
Manndómsvígsla hinna ungu
Ein af þeim sem hefur skoðað menningarlegt gildi sveitaballa er Rebbka Blöndal þjóðfræðingur, lokaritgerð hennar „þar sem ægir saman alls kyns lýð í erg og gríð“ við Háskóla íslands fjallar um sveitaböll. Ritgerðina er hægt að skoða hér. Hún segir: „Sveitaböll hafa í raun tilgang og virkni, sem nokkurskonar manndómsvígsla fyrir ungt fólk á Íslandi en það má ætla, að flestir íslenskir unglingar hafi öðlast sína fyrstu reynslu af skemmtanalífinu á sveitaballi eða útihátíð, rétt eins og um einhverskonar vígsluathöfn sé að ræða. Í gamla daga, þegar bjórinn var bannaður og aðeins 16 ára aldurstakmark gilti inn á böll, hefur það sennilega þótt svakalega spennandi að stelast á sveitaball, hella sig blindfullann og upplifa sig eins og fullorðinn eða þá uppreisnarsegg, í smá tíma.“
Fyrsta upplifunin
Rebekka segir að hnignun og endalok sveitaballamenningarinnar hafi verið óumflýjanleg. „…þar sem bandarísk menningaráhrif, betri samgöngur, sólarlandaferðir, aflétting áfengisbannsins og koma pöbba- og plötusnúðamenningar höfðu mikil áhrif. Vinsældir sveitaballa og hnignun þeirra má einnig rekja til mun betra aðgengis að tónlist í gegnum veraldarvefinn og í plötuverslunum. Sveitaballið hefur þó fengið nýjan tilgang í nýstárlegum búningi úti- og bæjarhátíða Íslendinga sbr. Þjóðhátíð í Eyjum, Írska daga á Akranesi og tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður á Ísafirði, svo dæmi séu tekin. Með tilkomu rokktónlistar og þess samfélagshóps, sem varð til í kjölfarið, urðu sveitaböll einnig griðastaður unglinga, til þess að koma saman og hlusta á þá tónlist sem þeir vildu og njóta hennar í villtum dansi og drykkjuskap. Það er einmitt þess vegna, sem að ég tel að sveitaböllin hafi þjónað tilgangi, sem einhverskonar helgisiður innlimunar og umbreytinga, eða manndómsvígslna, því að flest ungt fólk hefur öðlast sína fyrstu upplifun af skemmtanalífi Íslands í gegnum sveitaböll eða útihátíðir.“