Nýtir reynsluna í þágu næstu kynslóðar

Kolbrún Halldórsdóttir hefur skipt um starfsvettvang reglulega um ævina og nýlega ákvað hún að gefa ekki aftur kost á sér sem forseti Bandalags íslenskra leikara (BÍL) eftir 8 ára setu í þeim stól.

Kolbrún útskrifaðist 1978 frá Leiklistarskóla Íslands og byrjaði strax að leika hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Hún hafði tekið Verslunarskólapróf áður og segir að það hafi strax fleytt sér ansi langt á þessum árum þegar allir voru blankir og að stofna fjölskyldu. Hún var til dæmis ráðin ritari á skrifstofu LÍ um leið og hún útskrifaðist og þar tók Kolbrún sín fyrstu skref í stjórnun í leiklistarheiminum. Hún fór líka að vinna hjá Listahátíð og kvikmyndafélögum sem voru að gera bíómyndir og þá nýttist Verslunarskólaprófið henni vel. Á þessum tíma sem liðinn er hefur Kolbrún skipt reglulega um starfsvettvang og segja má að á 8-10 ára fresti hafi hún vent sínu kvæði í kross og þar með öðlast gífurlega reynslu, mest á leiklistarsviðinu en líka nokkuð á pólitíska sviðinu.

Kolbrún í götuleikhúsinu Svörtu og sykurlausu 1983.

Hefði viljað fara leikstjórnarlínuna

“Ef ég hefði getað valið um braut eftir eitt ár í leiklistarnáminu hefði ég valið leikstjórnarlínu. Ég sá fljótlega að hæfileikar mínir myndu njóta sín betur þar en endilega sem leikkona. Þessi valkostur er enn ekki fyrir hendi á Íslandi fyrir ungt fólk.  Námið er dýrt og við svo fá að það hefur ekki verið talið raunhæft” segir Kolbrún. Nemendur verða því að fara til útlanda ef þeir vilja fara í sérhæft nám fyrir leikstjóra. Kolbrún gerði það ekki ,heldur réðist hún í að stofna leikhús með félögum sínum úr listinni fljótlega eftir útskrift. Það var götuleikhús sem Kolbrún kynntist fyrst í vinnu sinni fyrir Listahátíð 1980, þegar hingað til lands kom leikhópur sem kallaðist Els Comediants. “Við unga leikhúsfólkið féllum gersamlega flöt fyrir öllu þessu götuleikhúsdóti, stultunum og stóru brúðunum o.s.frv. Els Comediants var spænskur leikhópur sem hafði notið velgengni og hafði gífurleg áhrif á okkur sem vorum ung, full af eldmóði og til í að láta reyna svolítið á leiklistina.”

Fór snemma að vinna með ungu fólki

Kolbrún í sýningu Leikhúslistakvenna 50+ – 17. júní 2017 – Konur og krínólín.

Kolbrún fór fljótlega að taka að sér að leikstýra fyrir áhugaleikfélög og skólaleikfélög og líka hjá Leikfélagi Akureyrar. Hún var því komin með töluverða reynslu þegar hún fékk tækifæri hjá Þjóðleikhúsinu þar sem hún leikstýrði í allmörg ár. Svo var hún stödd hjá Leikfélagi Akureyrar þegar hún fékk símtal þar sem hún var spurð hvort hún væri reiðubúin að leggja stjórnmálin fyrir sig og bjóða sig fram til þings í Alþingiskosningunum 1999. Hún hafði ekki hugleitt neitt slíkt á þessum tíma, en ákvað að slá til og taka þátt í að stofna grænan stjórnmálaflokk. Hún var þá komin á kaf í náttúruverndarbaráttuna og niðurstaðan varð að hún sló til og sat á þingi í 10 ár, var m.a. umhverfisráðherra 2009 en þá voru aftur komin kaflaskil í lífi Kolbrúnar. Upp kom tækifæri hjá Bandalagi íslenskra listamanna (BÍL), sem hún hefur veitt forstöðu frá því í janúar 2010. Nú hefur hún enn söðlað um og er um þessar mundir í lausamennsku við að stýra stóru verkefni fyrir forsætisráðuneytið: Fullveldishátíð á 100 ára afmæli fullveldisins þann 1. desember næstkomandi.

Fullveldið og íslenskir háskólastúdentar 

Kolbrún við opnun Listasafnsins á Akureyri í sumar, við hliðina á heldri borgara úr persónugalleríi  Aðalheiðar S Eysteinsdóttur.

“Við vitum að þráin eftir því að Ísland yrði fullvalda ríki brann hvað sterkast meðal íslenskra menntamanna í Kaupmannahöfn. Þeir ólu með sér drauminn um sjálfstætt Ísland og töldu sig sjá möguleikann á að það gæti orðið. Svo komu þeir heim með sína menntun og þessa þrá og eldmóð í brjósti. Þeirra biðu áhrifamikil embætti heima á Íslandi sem gerði þeim kleift að keyra hugsjónina áfram og gera drauminn að veruleika. Íslenskir stúdentar hafa því alltaf haft ákveðið tilkall til fullveldisdagsins.” Eftir því sem árin líða breytist sýn okkar á fortíðina segir Kolbrún og tilfinning stúdenta fyrir fullveldisdeginum er því önnur nú en hún var. Liður í undirbúningi hátíðarhaldanna hefur því verið að endurnýja tengsl íslenskra stúdenta við fullveldið og hefur Kolbrún unnið með Landssamtökum íslenskra stúdenta að framkvæmd tiltekinna viðburða sem slá munu tóninn fyrir fullveldishátíðina 1. desember.

Frostaveturinn mikli, spænska veikin og Katla gaus

Kolbrún leggur áherslu á að sýn ungs fólks til framtíðar fullveldis verði ráðandi á fullveldisafmælinu 1. des. “Fjöldi veglegra viðburða hefur verið á dagskrá afmælisársins fram að þessu, þar sem rifjað hefur verið upp, úr hvaða jarðvegi þessi þjóð er sprottin. Það er auðvitað mjög merkilegt að á sama tíma og frostaveturinn mikli lagðist yfir landið, gaus Katla, spænska veikin geisaði og Íslendingar kröfðust sjálfstæðis. Þetta gefur okkur skýra mynd af samfélaginu sem hér var fyrir 100 árum og segir okkur auðvitað töluvert um þessa fámennu þjóð, sem við þessar kringumstæður sá drauminn um sjálfstæði verða að veruleika,” segir Kolbrún.

Unga fólkið fær sviðið

Eitt af verkefnum Kolbrúnar hefur verið að skoða hvað fólk er með á prjónunum úti um allt land fyrir fullveldisdaginn og leita uppi viðburði sem hafa tengingu við ungt fólk og ný verk. “Það verður spennandi að gefa boltann til ungu kynslóðarinnar og sjá hvað þeim liggur á hjarta af þessu tilefni. Því má búast við að á dagskránni verði verk sem sprottin eru úr hugarheimi ungra Íslendinga og lýsi þeirra framtíðarsýn. Í öllum landshlutum verður fullveldisafmælinu fagnað og í þeim öllum verða viðburðir sem hafa tengingu við ungt fólk og hafa þeirra framtíðarsýn að leiðarljósi. Þá eru líka í undirbúningi viðburðir sem tengjast því að lista- og menningarstofnanir okkar eru í auknum mæli að gera arfinn okkar aðgengilegan á vefnum. Þjóðskjalasafnið mun t.d. að opna nýjan vef sem heitir heimildir.is þar sem opnað verður fyrir rafrænan aðgang að þúsundum skjalabóka og korta ásamt fjölda skjala úr danska ríkisskjalasafninu. Það sama á við um Þjóðminjasafnið og Landsbókasafnið, þar eru í undirbúningi viðburðir sem tengjast nýstárlegri miðlun menningararfsins. Máltækniverkefnið, um líf íslenskunnar í stafrænum heimi, fær sérstaka kynningu. Þetta eru dæmi um það sem boðið verður upp á í lista- og menningarstofnunum okkar. Auk þess sem margs konar ný verk verða frumflutt um allt land, mörg eftir unga listamenn. Dagurinn verður sem sé uppfullur af spennandi viðburðum og hver viðburðurinn rekur annan allan daginn. Það er stefnt að því að gera einhverjum þeirra góð skil í Ríkisútvarpinu, meðal þeirra er viðamikil sýning af sviði Eldborgar í Hörpu um kvöldið. Svo ljúkum við leik síðla kvölds í Þjóðleikhúsinu þar sem unga fólkið, sem átt hefur heimilisfesti í Leikhúskjallaranum, fær stóra sviðið til umráða og þar getur allt gerst.

Kolbrún leiðir saman kynslóðirnar

Kolbrún er að nýta reynslu sína og aldur til að leiða saman kynslóðirnar. “Mitt hlutverk er að koma í framkvæmd hugmyndum sem urðu til á hugarflugsfundum með ungum skapandi einstaklingum, bæði háskólastúdentum en líka ungu fólki sem kom héðan og þaðan. Ég hef verið að vinna úr yfir 100 hugmyndum af þeim fundum og það hefur verið sérlega skemmtilegt því hugmyndaauðgin og sköpunargleðin hefur verið þvílík,” segir þessi kraftmikla kona sem nýtir reynslu sína eftir langa vinnuævi til hagsbóta fyrir næstu kynslóð.

Ritstjórn september 21, 2018 09:25