Linda Guðlaugsdóttir er ein af þeim sem stekkur á fjöll hvenær sem tækifæri gefst. Hún er grafískur hönnuður og vann um langt árabil sem yfirhönnuður á tímaritaútgáfunni Birtíngi en er nú sjálfstætt starfandi. Starf hennar fól í sér mikla yfirlegu, kyrrsetu og nákvæmni og einn daginn fann Linda að hún hafði þörf fyrir útiveru og aukna hreyfingu.
Hún hefur gengið mikið með gönguklúbbnum Veseni og vergangi en einnig fundið eigin leiðir. Hvað kom til að þú fórst að stunda fjallgöngur og ferðalög um óbyggðir?
„Eitt leiddi af öðru,“ segir hún. „Fyrir um tíu árum varð ég bara að standa upp frá tölvunni og fá ferskt loft. Fyrst fór ég bara ein umhverfis borgina og vissi varla um nokkurn göngustíg eða fallega staði svo ég stoppaði mest á einhverjum bílastæðum með blokk og tússpenna til að njóta fjallanna í fjarska. Það var ekki nóg svo ég fann gönguklúbb, Vesen og vergang, og þá varð ekki aftur snúið. Kvöldgöngur, dagsferðir, trússaðar ferðir og óbyggðir með allt á bakinu – þetta heillaði bara meira og meira. Maður hefur svo góðan tíma til að taka eftir landinu á göngum. Veður og birta, form og andstæður – það er endalaust hægt að skoða.“
Ljósmyndir ekki nóg
Og Linda veitir svo sannarlega athygli öllu því sem náttúran hefur upp á að bjóða. Hún tekur ljósmyndir af blómum, fossum, fólki og fjöllum á ferðum sínum en það nægir henni ekki. Linda hefur alltaf haft unun af því að teikna og naut þess að mála með vatnslitum þótt hún hafi lagt þá á hilluna um árabil. Um svipað leyti og þú tókst fram gönguskóna dustaðir þú rykið af penslum og vatnslitum og fórst að túlka upplifanir þínar af fjöllum og íslensku landslagi almennt. Varð eitthvað sérstakt til þess að þú fylltir bakpokann litum og pappír?
„Smám saman fór ég að hafa vatnsliti og skissubækur með og nota tækifærið ef gafst, til að festa eitthvað á blað. Ég hef líka farið sérstakar ferðir með skottið fullt af dóti til að leika mér með litina. Ég læt það eftir mér að fljóta með litnum og upplifa landið á þann hátt,“ segir hún.
Nú ertu að opna sýningu. Er eitthvert sérstakt þema að þessu sinni?
„Sýningin, sem opnar á föstudag, eru að mestu verk sem ég hef unnið úti en líka verk sem sýna og túlka ævintýralega ferð um Herðubreið, Öskju og Kverkfjöll. Þetta er landslag sem virkilega kyrrsetur þig. Sýningin heitir Vonarland og ég skrifaði texta sem lýsir áhrifunum sem upplifunin hafði á mig:
Ég sit milli urðarjökla innanum háa ruðninga. Kulan er við kinn hvernig sem ég sný. Jökullinn andar köldu, rakinn þéttist yfir honum og hylur stærð hans að baki mér. Ég held áfram, geng hærra, vil sjá lengra. Í svörtum sandi eru sigurjurtir. Á grófu grjóti fagnandi skófir og fléttur, dumbungur. Ein og ein druna. Ég horfi yfir átakasvæði ungs lands, kraftar, umbrot harðneskja og sorti í átt að vonarmjúkum mosaheiðum. Eldrauðir hraunhólar stráðir glitrandi grængulum lífklóm. Það virðist ógangandi ógnandi óravegur til byggða, ríki sandstorms og veðurhams. Blámi fjarlægra fjalla er blíður.“
Stundum áskorun að halda af stað
Já, það er eitthvað við íslenska náttúru sem kallar fram hið skáldlega í okkur öllum hvernig sem við svo tjáum það. En það er ekki alltaf auðvelt að klöngrast upp skriður og kletta, ekki hvað síst þegar veðurfar er með því móti sem verið hefur í sumar. Hvað heldur þér gangandi og kemur þér alltaf aftur af stað?
„Að taka pokann sinn og halda af stað sama hvernig veðrið er getur verið áskorun,“ segir Linda. „Ég er nú aldrei ein, við eigum góðan búnað og förum varlega. Í lengri göngum erum við alltaf með fararstjóra og þeir hafa nú hingað til töfrað það besta fram. Í sumar gengum við um jökuldali með viðkomu á Hornströndum. Rok og rigning, sumar og sól, allt í bland og alltaf brosað. Við óðum kílómetra yfir fjörð á leirum með allt á bakinu nema nærbuxurnar. Þessi ósnortnu svæði hafa töfra sem snerta mann stuttu eftir að komið er í land. Það er allt svo tært og orkuríkt.“
Hálendið heillar
Áttu þér uppáhaldsstað að mála?
„Ég held ég geti málað hvar sem er. Hálendið heillar mig, Hornstrandir og Kaldalón og jöklar almennt. Ég hef gengið um Lónsöræfi í dýrðlegu veðri og yfir Eyjafjallajökul og nærvera jökla er mögnuð.“
Linda er ekki ein um að hafa fallið fyrir hálendinu og flestir muna orð Höllu Jónsdóttur, konu Fjalla-Eyvindar, þegar hún í haldi sýslumanns horfði til fjalla og sagði: „Fagurt er á fjöllunum núna.“ Eyvindur og Halla áttu sér m.a. ból í Þjórsárverum og Hveralindum en í sumar gistu Linda og göngufélagar hennar nálægt legstað Fjalla-Eyvindar í Jökulfjörðum. En er einhver draumastaður á landinu sem Linda á annað hvort eftir að heimsækja eða langar að koma á aftur?
„Ég ætla aftur inn að Kverkfjöllum með skottið troðið af pappír og penslum,“ segir hún ákveðin. Sýningin Vonarlandið er í Gallerý Göng í Háteigskirkju og opnar föstudaginn 6. september klukkan 16. Opið verður á laugardögum og sunnudögum frá 13 – 17 út september en opnunartími virka daga verður auglýstur sérstaklega síðar.