Björgvin Guðmundsson skrifar
Nokkrar umræður eru nú í þjóðfélaginu um það, að æskilegt sé, að eldri borgarar geti unnið lengur. Með því er átt við, að þeir geti unnið eftir að þeir eru orðnir ellilífeyrisþegar og lengur en hefðbundið hefur verið.Opinberir starfsmenn hafa orðið að hætta störfum sjötugir.Starfsmenn á almennum vinnumarkaði hafa hins vegar í mörgum tilvikum geta fengið að vinna lengur er til 67 ára eða 70 ára aldurs. Ellilífeyrisaldur er 67 ára.
Ef eldri borgarar eiga að geta unnið lengur en verið hefur, þarf ýmislegt að breytast. Fyrst og fremst þarf afstaða atvinnulífsins, fyrirtækjanna til eldri borgara að breytast. Afstaðan til eldri borgara hefur verið frekar neikvæð. Atvinnulífið hefur haft meiri áhuga á yngra fólki enda þótt undantekningar séu á þessu. Og alltaf er eitthvað um það, að fyrirtækin vilji halda í fólk með reynslu þó það sé komið af léttasta skeiði. Ef eldri borgari missir atvinnuna t.d. um 60 ára aldur og reynir að fá atvinnu annars staðar þá gengur það mjög illa og margir eldri borgarar koma á þessum aldri að lokuðum dyrum. En það er ekki nóg að afstaða fyrirtækjanna breytist; það þarf einnig að afnema skerðingu lífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna .Það er að vísu í gildi frítekjumark vegna atvinnutekna í dag. Það er 109 þúsund krónur á mánuði en allar atvinnutekjur umfram þá fjárhæð valda skerðingu lífeyris almannatrygginga. Og ástandið í þessum efnum versnar enn, ef nýjar tillögur um almannatryggingar verða samþykktar frá 1.janúar n.k .Þá mun skerðingin aukast. Þá verður skerðing af öllum atvinnurtekjum 45%, sem þýðir að ef eldri borgari vinnur fyrir 100 þúsund krónum á mánuði þá valda þær tekjur því, að skerðing á lífeyri TR verður 45 þúsund krónur á mánuði eftir skatt.Vinni eldri borgarinn fyrir 200 þúsund krónum á mánuð eftir skatt verður skerðing lífeyris í nýju kerfi 90 þúsund krónur á mánuði.Meðan slík skerðing er í gildi hafa eldri borgarar ekki mikinn áhuga á því að auka atvinnuþátttöku sína.Það verður að afnema skerðingarnar.Og það verður að gera það strax.