Tengdar greinar

Eignalífeyrir – nýting fasteignar til kjarabótar á efri árum

Sigurður R. Helgason

Sigurður R. Helgason rekstrarhagfræðingur skrifar

Lág eftirlaun eru eldra fólki ósjaldan fjötur um fót. Oft býr þó þetta fólk í skuldlausum eða skuldlitlum íbúðum. Það gæti því verið búbót fyrir marga að breyta hluta fasteignarinnar í lífeyri væri sá kostur fyrir hendi.

Þessi möguleiki er þó alls ekki óþekktur hér á landi.   Búnaðarbanki Íslands gerði t.a.m. fólki þetta kleift árið 1999 og fram að því að bankinn hvarf af markaði árið 2003.  Bankinn var að líkindum með þeim fyrstu í heiminum  til að bjóða eftirlaunaþegum slíka þjónustu. Einn forystumanna eldri borgara, Ásgeir Jóhannesson, aðstoðaði bankann við undirbúning og kynningu hinnar nýju þjónustu sem hlaut nafnið „Eignalífeyrir“. Þessi nýjung Búnaðarbankans hvarf af markaði þrátt fyrir talsverðar vinsældir.

Víða erlendis bjóða lífeyrissjóðir og /eða fjármálafyrirtæki upp á eignalífeyri í þessa veru.  Útfærslan eða framkvæmdin geta verið fjölbreytilegar en gætu í stórum dráttum verið þannig að íbúðareigendur fái greiddan ákveðinn t.d. mánaðarlegan lífeyrir í 10 eða 15 ár.  Á móti fær viðkomandi fjármálastofnun veðrétt í fasteign eignalífeyrisþegans, t.d. allt að 50% af vermæti íbúðarinnar, og tæki veðrétturinn til uppsafnaðaðrar lánveitingar, vaxta og vaxtavaxta til enda umsamins eignalífeyristímabils.

Á tímabilinu býr eignalífeyrisþeginn síðan áfram í eigin íbúð eða leigir hana út. Á þennan hátt geta lífeyrisþegar sjálfir notið arðins af lífsstarfinu, fasteign sinni, á þeim lífeyrisárum sem þeir hafa heilsu og færni til að njóta lífsins. Við lok eignalífeyristímabilsins er íbúðin seld og uppsafnað lán með vöxtum greitt upp með söluandvirði íbúðarinnar, – en eignalífeyrisþeginn eða erfingjar fá afanginn.

Nú er tími til kominn að eldri borgarar krefji lífeyrissjóði og fjármálastofnanir um að endurvekja eignalífeyrisfyrirkomulagið. Áhætta lánveitanda t.d. miðað við 50% veðhlutfall eins og var í tilviki Búnaðarbankans, ætti að teljast vel viðunandi fyrir lánveitanda og þjónustan eftirsóknarverð fyrir marga eftirlaunaþega.

Ekki á það síst við þá sem enga erfingja eiga. Segja má að í því tilviki væru viðkomandi að erfa eigin íbúð. Því ber að hvetja eftirlaunamenn sem gagn hefðu af slíkri þjónustu að leita til lífeyrissjóða og fjármálastofana og krefja þau um að bjóða uppá þann möguleika sem eignalífeyrisfyrirkomulagið veitir. Þörfin er svo sannarlega fyrir hendi.

 

 

Ritstjórn maí 5, 2020 08:21