Stjórnendur á eftirlaunum bjóða fram aðstoð við endurreisn atvinnulífsins

Þráinn Þorvaldsson

Reynslubanki Íslands verður stofnaður á morgun, sumardaginn fyrsta. Þessi nýi banki mun ekki sýsla með peninga, heldur miðla reynslu og þekkingu stjórnenda úr atvinnulífinu, sem nú hafa dregið sig í hlé vegna aldurs. Nánari upplýsingar um starfsemi bankans má finna á vefnum www.rbi.is.  Stjórnendur bankans  hafa áhuga á að leggja hönd á plóg við endurreisn atvinnulífsins og mynda bakvarðarsveit því til aðstoðar.

Allir þurfa að leggjast á eitt

„Ástandið í þjóðfélaginu er óvenjulegt og miklir erfiðleikar framundan í atvinnulífinu“, segir í fréttatilkynningu frá þeim. Þeir segja að endurskipuleggja þurfi mörg fyrirtæki og finna tækifæri til nýsköpunar. Nú þurfi allir að leggjast á eitt um að efla atvinnulífið, undirstöðu velferðar þjóðarinnar.  Þar segir einnig að það sé gott að gefa greiðslufresti og leggja fram fjármagn, en það sé ekki  nóg. Endurskipulagning fyrirtækja og nýsköpun sé erfitt verk og tímafrekt. Hægt sé að stytta ferlið og jafnvel koma í veg fyrir miðstök með liðsveislu reyndra stjórnenda utan fyrirtækisins. Þeir hafi margir þurft að stýra í gegnum brimskafla og oft tekist að snúa við erfiðri stöðu í rekstri. Markmiðið með RBÍ sé að miðla úr þessum reynslubrunni til þeirra stjórnenda sem nú standi frammi fyrir áskorunum. Grunn hugmyndin sé að brúa reynslubil milli kynslóða.

Mótaði hugmyndina um Reynslubankann

Þráinn Þorvaldsson rekstrarhagfræðingur er einn þriggja aðstandenda Reynslubankans. Hann tók þátt í stofnun og endurskipulagningu fyrirtækja á sínum starfsferli. Síðasta verkefni hans áður en fór á eftirlaun  var ásamt fleirum stofnun SagaMedica og var Þráinn framkvæmdastjóri. Hann segist hafa farið að velta fyrir sér stofnun Reynslubankans þegar hann var sjálfur kominn á eftirlaun. „Margir sem eru hættir störfum vilja gjarnan taka þátt í verkefnum og þegar ég hugsaði tilbaka gerði ég ýmis mistök þegar ég var að byrja. Ég gerði mér grein fyrir því seinna hvað ég hefði átt að gera öðruvísi. Ég skrifaði grein um þetta fyrir Lifðu núna fyrir fimm árum og þar var þessi hugmynd um Reynslubankann mótuð. Síðan hefur hún legið í láginni. Ég er hins vegar með þessa hugmynd. Annars vegar sé ég þörfina fyrir reynslu og þekkingu þeirra sem eldri eru og hins vegar framboð af reyndum stjórnendum.  Þegar ég svo kynntist Guðmundi G. Haukssyni sem er frábær í að setja þetta fram, varð hugmyndin að veruleika“.

Leiðbeinendur en ekki rekstrarráðgjafar

Það er ekki ætlunin að Reynslubankinn bjóði uppá rekstrarráðgjöf, heldur leiðbeinendur. Þannig leiði hann saman reynda stjórnendur úr ákveðnum greinum og stjórnendur fyrirtækja í sömu grein sem eiga í erfiðleikum. „Líkja má samstarfi leiðbeinenda RBÍ og stjórnenda við að ökumaður bíls (stjórnandi) bjóði leiðbeinanda í ökuferð. Ökumaðurinn kynnir leiðbeinanda allt um farartækið og hvert verið sé að stefna. Leiðbeinandi gefur síðan ökumanni ráðleggingar um stystu ökuleiðina samkvæmt eigin reynslu, til að forðast hindranir og blindgötur á leiðinni“, segir í fréttatilkynningu um aðstoðina sem reyndir stjórnendur geta veitt.

Margir hafa tiltrú á verkefninu

Reynslubanki Íslands er tilraunaverkefni. Miðað er við að þjónusta leiðbeinenda og milliganga Reynslubankans verði ókeypis til að byrja með og ætlunin er að safna fjármagni í samfélaginu til að greiða laun starfsmanns og skrifstofuhald. Þráinn segir að hugmyndin hafi verið send út til hóps einstaklinga sem allir hafi lýst tiltrú á verkefninu. Þrír hafi þegar skráð sig inní bankann. Þeir sem vilja notfæra sér þjónustu hans, fara og skrá sig inná vefsíðunni www.rbi.is  Þráinn segir að þetta sé ekki eingöngu spurning um rekstrarleiðbeiningar. „Fyrir þá sem eru í erfiðleikum er þetta líka spurning um andlegan stuðning og að hafa einhvern til að ræða við. Það er gott að það sé einhver utanaðkomandi. Að lenda í svona erfiðleikum er áfall, rétt eins og það að greinast með alvarlegan sjúkdóm“, segir hann.  Með Þráni í Reynslubankanum eru Guðmundur G. Hauksson sem situr í framkvæmdanefnd og Margrét Sigríður Jónsdóttir sem verður starfsmaður. Þau eru stofnendur Frumkvöðlaskólans.

Ritstjórn apríl 22, 2020 08:04