Einmana makar alzheimerssjúklinga

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gmail.com

Fyrir skömmu var sýndur í Ríkissjónvarpinu þáttur um rannsóknir á Alzheimer og lyfjum sem hugsanlega geta gagnast í glímu við þennan illvíga sjúkdóm sem lætur æ meira að sér kveða. Hann birtist í ýmsum myndum í upphafi en helst þó í vaxandi minnisleysi. Sá sem býr með manneskju sem er að þróa með sér þennan sjúkdóm verður smám saman var við að einstaklingurinn er að breytast. Það dregur úr færni hans og oft reynir viðkomandi að fela vanmátt sinn í lengstu lög. Loks kemur að því að það er ekki unnt og þá er leitað læknis til að fá úr því skorið hvort um er að ræða sjúkdóminn Alzheimer. Verði greiningin sú grípur um sig ákveðið vonleysi sem er afskaplega skiljanlegt. Sá sjúki þarf að takast á við að missa meira og meira af getu sinni andlega og líkamlega, sá sem býr með hinum sjúka þarf að takast á við að sambýlingurinn er að breytast. Hvort tveggja er mjög sársaukafullt og átakanlegt. Ekki batnar heldur neitt við afneitun. Það gerir illt verra, þá er síður hægt að beita þeim læknisaðferðum sem þó eru tiltækar um þessar mundir. Í þættinum kom fram að verið væri að þróa lyf sem vonandi geta heft sjúkdóminn og jafnvel stoppaði hann alveg.

Eins og nú er umhorfs í möguleikum þeirra sem greinast með þennan sjúkdóm þá liggur leiðin niður á við, mishratt að vísu. Biðin er mörgum þungbær samkvæmt því sem sagt var í þessum sjónvarpsþætti. Oftast endar ferlið með að hinn sjúki verður að fá vist á lokaðri deild þar sem hann er orðinn ófær um að sjá um sig sjálfur að mestu leyti og þekkir stundum ekki sína nánustu.

Erfið staða maka alzheimerssjúklings

Hvað gerir maki alzheimersjúklings við slíkar aðstæður? Það er vafalaust eins misjafnt og mennirnir eru margir. Ekki standa margir kostir til boða. Annað hvort að taka þessum örlögum, heimsækja makann og styðja sig við ættingja og vini. Hinn kosturinn er að horfast í augu við að makinn sem viðkomandi gekk að eiga á sínum tíma er orðinn harla ólíkur því sem hann var. Segja má að þegar fólk er komið með langt genginn Alzheimer séu forsendur fyrir hjónabandi brostnar. Sambúð er lokið og jafnvel þekkir sá sjúki ekki maka sinn lengur.

Sé sá sem eftir er heima enn við góða heilsu er þetta erfið staða. Stundum er fólk jafnvel ekki orðið mjög aldrað og langar til að lifa og vera til. Það á ekki sök á ástandinu fremur en hinn sjúki. Í sumum tilvikum kynnist sá sem heima situr nýjum félaga og verður jafnvel ástfanginn. Þá er staðan orðin harla flókin. Fæstir vilja slíta hjónaböndum vegna sjúkleika maka en þeir vilja heldur ekki fara á mis við allt það sem lífið hefur enn að bjóða. Þessi staða er dálítið „tabúmál“ virðist mér vera. Það er jafnvel talað um það í hálfum hljóðum að hún eða hann hafi fundið sér nýjan eða nýja, svo er kannski hrist höfuðið eða sagt; hvað á viðkomandi eiginlega að gera? Hinn sjúki er áfram heimsóttur og veitt öll sú hlýja sem hægt er en hinn fríski heldur áfram á nýjum vegum að öðru leyti.

Vanhelgun tekur völdin

Börn hjóna eða sambýlisfólks eiga stundum erfitt með að sætta sig við nýtt fólk sem kemur á þennan hátt inn í fjölskylduna. Vanhelgunin leggst yfir samskiptin við hið fríska foreldri. Þetta er sárt fyrir alla. Sennilega er þó sá sem orðinn er hugstola af alzheimersjúkdómi ekki eins illa staddur og hinir vegna ástandsins. Hann hefur einfaldlega ekki lengur andlega getu til að setja sig inn í það sem orðið er.

Aðstæður af þessu tagi eru að verða hlutskipti æ fleiri hjóna eða sambýlisfólks. Þeim fer jafnt og þétt fjölgandi sem glíma við þennan erfiða sjúkdóm sem sviptir fólk minningum, þekkingu og líkamlegri getu. Þessum pistli er ekki ætlað að dæma eða predika, aðeins vekja athygli á erfiðum aðstæðum þeirra sem standa í þessum sporum. Þeir eiga nógu erfitt þótt þeir sem eru þeim nánastir breyti ekki um viðhorf gagnvart þeim heldur sýni skilning og kærleika. Líklega er það eina sem hægt er að gera til þess að bæta líðan þeirra sem fyrir þessar hörðu lífsreynslu verða að hlúa að hinum sjúka og dæma ekki þann sem frískur situr eftir með sinn sársaukafulla missi og einmanaleika. Hver og einn í þeim sporum ætti að fá í friði að gera það besta úr kringumstæðunum.

 

 

 

Guðrún Guðlaugsdóttir apríl 15, 2019 08:01