Eitthvað um skýin

Ólöf Ingólfsdóttir er afar fjölhæf listakona en hún er lærður dansari, myndlistarkona og söngkona. Dansinn hefur fylgt henni lengst en hún sameinar hann söngnum og stígur á svið á Tjarnabíói á Reykjavík Dans Festival 17. nóvember. Ólöf setti dansskóna á hilluna um miðjan aldur en næstum 10 árum seinna byrjaði hún aftur og hefur ekki stoppað síðan. Hún var tilnefnd til Grímuverðlauna í fyrra fyrir Sjö verk úr óskrifaðri ljóðabók og hefur verið á dansferðalagi um Evrópu með verk Lovísu Óskar When the Bleeding stops þar sem breytingaskeið kvenna er útgangspunkturinn og kemur til landsins rétt í tæka tíð til að sýna Eitthvað um skýin.

Segðu mér að eins frá sýningunni Eitthvað um skýin og hvernig hún kom til? „Það má segja að verkið hennar Lovísu Óskar When the Bleeding stops eigi óbeinan þátt í að ég geri þetta verk núna – ég var eiginlega hætt að dansa um fimmtugt. Ég meiddist í hnjám sem gerði útslagið og þá var þetta ekkert skemmtilegt lengur og svo er líka erfitt að vera í þessum freelance bransa. Lovísa hafði þá samband, ég fór aftur á svið með henni, það var svo skemmtilegt og þó að ég gæti ekki gert allar hreyfingar sem ég gat gert áður þá fannst mér enn gaman að vera á sviði. Þannig að það varð til þess að fyrir ári gerði ég verk sem heitir Sjö verk úr óskrifaðri ljóðabók, sem var 20 mín. langt og sýnt á Reykjavík Dansfestival en fyrir það verk fékk ég tilnefningu til Grímunnar, bæði sem dansari og danshöfundur ársins sem var náttúrlega mjög skemmtilegt.“

 Í söngnám á miðjum aldri

Ólöf hafði farið í söngnám um svipað leyti og hún hætti að dansa og útskrifaðist með burtfararpróf tíu árum eftir að hún hóf nám. „Ég fór til Möggu Pálma og skráði mig í skóla hjá henni. Eitt leiddi af öðru og 10 árum síðar, eða 2021, útskrifaðist ég með burtfararpróf frá Söngskóla Sigurðar Demetz, þá 59 ára. Maður hefur svolítið frjálsar hendur listrænt á svona tónleikum og ég tók þá ákvörðun, af því ég hef unnið svo lengi sem dansari og danshöfundur í leikhúsi, að tengja saman konsertformið og leikhúsið á burtfarartónleikunum. Ég var með tónleikana í Tjarnarbíói og var með smá sviðsetningu, lýsingu og umgjörð. Þegar ég gerði sólóverkið í fyrra þá söng ég eina barrokkaríu í verkinu. Þannig að þegar ég síðan samdi Eitthvað í skýin þá var rannsóknaruppleggið að dansa og syngja á sama tíma en það er mjög erfitt og mikil áskorun og ég ákvað að einbeita mér að því núna.“

Þemað er tilfinningar og hvernig við tökum þeim

Ólöf segir að viðfangsefni verksins sé tilfinningar. Barrokktónlistin tali þannig inn í nútímann en hún snýst öll um tilfinningar og allan tilfinningaskalann. „Mig langaði að sjá hvernig barrokktónlistin mætir nútímadansi og hvernig þessi tónlist talar inn í okkar tíma, af hverju við flytjum þessa gömlu tónlist og hvað það er sem hún gefur okkur. Það sem talar til mín í þessari tónlist og það sem aríurnar eiga sameiginlegt er að þær tala til tilfinninganna, bæði tónlistin og textarnir, þó að maður syngi á ítölsku. Það má segja að tónlistin sjálf keyri á tilfinningarnar og fagni þeim, maður fær að vera í þeim. Annað sem ég upplifi oft í barrokktónlistinni er fegurðin. Maður dvelur í hvorutveggja og mér finnst að þessi atriði séu nokkuð sem við þurfum að hlúa að í okkar lífi í dag. Ég held að allir þurfi einhvers konar fegurð í líf sitt, að það sé ein af okkar grunnþörfum. Hún getur verið í listinni eða t.d.  samskiptum eða daglegum hlutum og umhverfi. Mér finnst gaman að leyfa þessu að vera einhvers konar drifkraftur í verkinu.“

Slæmar tilfinningar eru áttaviti

Ólöf segir að tilfinningar séu merkilegt fyrirbæri en að fólk í nútímanum sé oft hrætt við þær, sérstaklega þær erfiðu. „Tilfinningarnar eru svo merkilegar og ekki alltaf auðveldar, hvorki góðar né slæmar en við viljum bara finna góðar tilfinningar, ekki þær vondu og þegar við lendum inni í vondum tilfinningum þá lítum við næstum því á þær eins og sjúkdóm. Slæmar tilfinningar eru nauðsynlegur hluti af því hvernig við fúnkerum og þær eru svo mikill áttaviti, til að skilja hvernig okkur líður þá skiljum við það sem við upplifum og hvernig það mætir okkar gildum. Ef við t.d. upplifum reiði, þá verður hún til líklega af því við upplifum óréttlæti, af því það gerist eitthvað sem okkur finnst ekki rétt samkvæmt  okkar grunngildum, svo ég nefni dæmi. Það er mjög mikilvægt að við þorum að lifa með tilfinningunum og leyfum þeim að vinna með okkur.“

Finnst þér þetta tala inn í samfélagið í dag? „Já, mér finnst það. Mér finnst við oft ekki hafa þolinmæði fyrir tilfinningum. Vond tilfinning er ekki endilega vandamál sem þarf að leysa, heldur skilaboð frá sálinni um að nú sé eitthvað ákveðið að gerast og hvað ætlum við að gera í því. Tilfinningarnar eru alltaf að segja okkur eitthvað en við gefum okkur ekki alltaf tíma til að hlusta nema þær séu ánægjulegar. Ég spyr mig jafnvel hvort við höfum nokkurn tíma fyrir góðu tilfinningarnar? Í barrokkinu hefur maður nógan tíma, ein ópera tekur nokkrar klukkustundir og aría tekur kannski 10 mínútur. Þó að textinn sé kannski þrjár línur þá er farið með mismunandi tilfinningum í gegnum hann, aftur og aftur. Þarna er önnur tilfinning fyrir tíma en er í dag. Í verkinu Eitthvað í skýin eru fimm barrokkaríur, eftir Vivaldi, Vincy, Caldara og Handel, misþekktar en þær sýna mismunandi tilfinningar og kveikja mismunandi senur.“

Samhæfingin erfiðust á söng, orðum og dansi

Ólöf dansar á meðan hún syngur og segir það ekki auðvelt. „Ég ber mjög mikla virðingu fyrir t.d. söngleikjalistafólki sem dansar á fullu meðan það syngur.“

Það er augljóst að fólk þarf að vera í góðu formi til að geta dansað og sungið heila sýningu? „Já, maður þarf að vera í góðu formi og það sem mér fannst svo magnað er að um leið og það komu orð þá hætti ég að hreyfa mig. Að láta orðin ekki trufla hreyfinguna var mjög erfitt. Mér fannst stundum ég þurfa að vera með tvo heila sem gerðu sitthvorn hlutinn,“ segir Ólöf og hlær. „Tilfinningarnar eru eins og skýin, þær koma og fara svo, þær líða hjá, engin tilfinning er eilíf og ég vinn með ský líka í leikmynd og þetta er ákveðið tilfinningaferðalag sem maður fer í gegnum en það er opið hvernig hver og einn skilur það. Eru skýin tilfinningarnar eða eru þau verkefni lífsins  sem mæta okkur í dagsins önn og hvernig tökum við þeim og hvaða áhrif hafa þær á okkur. Ég er ein á sviðinu en ég er með sjö ský með mér,“ segir Ólöf og hlær við. „Verkið er 40 mín. langt. Það verður sýning aftur 11. desember og svo í janúar í Tjarnarbíói.“

Tjarnarbíó einstakur staður með sál

Tjarnarbíó er merkilegur staður, að sögn Ólafar, það er eini sýningarstaður sjálfstæðu sýningarhópanna og aðsóknin mjög mikil bæði meðal hópa sem sýna þar og fólks sem sækir sýningar en samt er staðurinn í kröggum. „Það þyrfti að bæta aðeins í til að Tjarnarbíó geti blómstrað. Það er eilíf barátta að halda svona stöðum á lífi. Staðurinn er persónulegur og ákveðin nálægð við áhorfendur.“

Ólöf segir aðspurð að hún hafi farið óhefðbundna leið í dansinum. „Ég var í djassballett  sem unglingur og fór svo í myndlist sem var mín fyrsta listmenntun og lærði að mála. Síðan fór ég í dansnám í Arnheim í Hollandi en langflestir kennarar komu frá Bandaríkjunum og höfðu lært á milli 1960 og 1970  þegar það var að  losna um dansinn og póstmódernisminn varð til. Það var mikill spuni, sköpun og skynjun, sem voru sterk element, í náminu. Mér finnst það lýsa skólanum vel að það voru fimm dansstúdíó en einungis tveir speglar á stærð við A4, annar var á baðherberginu en hinn þar sem við fórum í sturtu, það voru engir speglar í æfingasölunum. Markmiðið var að finna dansinn innan frá en ekki horfa utan frá á hann og vinna þaðan, það var nálgunin.“ Ólöf útskrifaðist 1993 frá skólanum og starfaði næstu 20 árin við leiklist og dans, kenndi verðandi leikurum í Listaháskólanum og vann með ýmsum hópum en hún hefur líka gert sín eigin verkefni meðfram og komið víða við.

Menningarstarfsemi þrífst ekki án opinbers stuðnings 

Aðspurð um stöðu dansins á Íslandi segir hún margt mjög spennandi vera að gerast en að umhverfið sé erfitt. „Akkúrat núna lítur út fyrir að það verði niðurskurður hjá Sviðslistasjóði sem styrkir sjálfstæð verkefni, leiklist, dans, óperu og sirkus og það er mjög alvarlegt. Á sama tíma er svo margt skemmtilegt og áhugavert í gangi, Það er kominn einhver nýr kraftur og margt ungt fólk sem er að koma fram á sjónarsviðið sem er óhrætt við að gera nýja hluti – búa til sýningar og viðburði í mismunandi aðstæðum. Þannig að núna ætti að tvöfalda Sviðslistasjóð miðað við kraftinn í senunni eða finna nýjar leiðir. Menningarstarfsemi þrífst ekki nema að fá opinberan stuðning, það er vitað og Sviðlistasjóður er þar mjög mikilvægur en hins vegar mætti athuga hvort það séu fleiri leiðir til að  styðja við listafólk með t.d. vinustofudvöl eða þróunarstyrkjum og að fleiri aðilar gætu úthlutað mismunandi styrkjum. Það mætti hafa meiri samframleiðslu, að fleiri aðilar legðu í eitt og sama verkefnið. Dansverkstæðið á Hjarðarhaga er frábær staður en þar gerist allt áður en verk fara á svið, aðstaða fyrir æfingar og þróun, tengslanet verða til o.fl. Ef allir þessir aðilar sem nú eru starfandi í danssenunni gætu lagt saman í verkefni, í stað eins aðila, þá myndu opnast aðrar leiðir til að búa til verk. En mér finnst listin vera á frábærum stað í dag og mikil gróska og sköpunarkraftur og margt ungt fólk sem verður mjög spennandi að fylgjast með. fólk verður hins vegar að fá stuðning með einum eða öðrum hætti til að listin lifi.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn nóvember 13, 2024 07:00