Ekkert að slíta sambandinu við Wagner á næstunni

Bayreuthferð 2019.

 

Á Íslandi er starfandi Wagnerfélag en 127 sambærileg félög eru starfrækt í heiminum í dag undir hatti Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga. Félagið er öllum opið og kærkomið þeim sem hafa látið heillast af tónlist snillingsins Richard Wagner. Selma Guðmundsdóttir píanóleikari er einn af stofnendum félagsins, sem stofnað var 12. desember 1995 og hefur verið formaður þess frá upphafi. Auk þessa situr hún nú í stjórn Alþjóðasamtakanna. Hvernig stendur á tilvist þessa félags hér uppi á Íslandi?

Var ekki neinn Wagneristi

,,Upphafið má kannski rekja til þess að ég sat í stjórn Listahátíðar 1990 – 1994. Árið 1992 fór ég á Wagnerhátíðina í Bayreuth og áður en ég fór bað stjórnarformaður Listahátíðar, Valgarður Egilsson, mig að kanna hvort ég gæti ekki fengið eina Wagneróperu eða svo með mér heim sem mætti setja upp á Listahátíð árið 1994. Ég komst í kjölfarið í samvinnu við hátíðina í Bayreuth og stjórnanda hennar, Wolfgang Wagner, sem stakk upp á að Niflungahringurinn yrði settur upp hér á landi en þó í styttri útgáfu þar sem það var ekki gerlegt að setja upp allar fjórar óperunar hér á landi. Forsenda uppástungunnar voru náin tengsl íslenskra fornbókmennta og Niflungahringsins. Wolfgang bauðst til að verða listrænn ráðgjafi. Við tókum hugmyndinni fagnandi og biðum spennt eftir að fá styttu útgáfuna senda frá Bayreuth. Þegar

Heima á Dragavegi.

dráttur varð á því og þeir virtust hika ákvað ég að leggja mitt af mörkum og lagðist yfir nótnabækurnar af Hringnum ásamt  DVD útgáfu MetOperunnar og gerði á 10 dögum tillögu að styttingu verksins úr 16 tímum í tæpa fjóra tíma og sendi þetta út. Hugmyndin var að þessi vinna yrði höfð til hliðsjónar sérfræðinganna úti í Þýskalandi en það

endaði þó þannig að þessi útfærsla þótti hafa tekist svo vel til að hún var notuð nánast óbreytt.  Uppsetning Hringsins hérna vakti hrifningu langt út fyrir landsteinana. Hér var uppfærslan sýnd fimm sinnum fyrir fullu húsi.

Þó að ég hafi verið mikill óperuunnandi var ég sannarlega ekki neinn sérstakur Wagneristi á þessum tíma en í kjölfar sýningarinnar kom í ljós að hér á landi var stór hópur áhugamanna um Wagner og það varð úr að stofna félag þar sem ég hef gegnt formennsku frá byrjun.“

Árni hafði gríðarleg áhrif á mig

Selma er píanóleikari að mennt og hefur starfað sem slíkur allar götur síðan. Hún byrjaði að læra á píanó sex ára gömul á Ísafirði og þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur, þegar hún var ellefu ára gömul, hélt hún náminu áfram þar.

Selma hefur ferðast mikið á ferli sínum sem píanóleikari og formaður Wagner félagsins.

,,Ég var svo lánsöm að komast í tíma hjá Árna Kristjánssyni, píanókennara. Ég segi stundum að tímarnir hjá honum hafi verið eins og að ganga inn í töfrahöll – maður gleymdi hversdagslegum grámanum fyrir utan og steig inn í aðra veröld. Árni hafði gríðarleg áhrif á mig og enginn annar hefur haft meiri áhrif á þroska minn – bæði sem einstaklingur og tónlistarmaður.“

Selma útskrifaðist sem stúdent árið 1970 og tveimur árum síðar eða árið 1972 með einleikarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík.

,,Þarna var ég gift tveggja barna móðir en langaði auðvitað að komast í framhaldsnám eins og gefur að skilja. Það var ekki auðvelt miðað við mínar aðstæður þar sem það var erfitt að samræma fjölskyldulíf og framhaldsnám á þessum árum. Ég var þó afar lánsöm því í lok árs 1973 kom hingað til lands Hans Leygraf, sem þá var einn virtasti og eftirsóttasti píanókennari Evrópu, og mér stóð til boða að komast á námskeið hjá honum. Hann bauð mér í framhaldinu að stunda nám hjá sér auk þess sem hann hjálpaði mér að sækja um þýskan námsstyrk (DAAD styrkinn) sem er afar veglegur en hann dugði til að framfleyta allri fjölskyldunni. Ég stundaði nám hjá Leygraf í tvö og hálft ár, fyrst í Salzburg og síðar í Hannover.“

Quo vadis? Hvert liggur leið þín?

Í kjölfarið hafði Selma mikið að gera og varð einn eftirsóttasti píanóleikari landsins og hefur verið í samstarfi við stóran hóp listamanna en auk þess kenndi hún og miðlaði tónlist hérlendis og erlendis. Hún hefur komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og leikið mikið með Kammersveit Reykjavíkur, Sigrúnu Eðvaldsdóttur, fiðluleikara og Gunnari Kvaran, sellóleikara og ferðast um allan heim og komið fram á tónleikum víða. Hefur þú jafn mikið að gera núna og þegar þú varst yngri?

,,Já og nei. Þegar ég var yngri voru fleiri aðilar hérlendis sem stóðu fyrir tónleikahaldi og buðu manni tónleika. Ég hafði yfirleitt mikið að gera. Nú er minna af tækifærum og byggir meira á frumkvæði tónlistarmanna að skapa sér þau. Ég er ekki viss um að það tengist aldrinum heldur breyttum tímum sem við lifum á. Aftur á móti hef ég verið lánsöm og haft mikið að gera áfram. Ég var frá árinu 2005 í 13 ár meðleikari í Listaháskóla Íslands og á síðustu tíu árum hef ég farið í sex tónleikaferðir til Kína auk tónleika í öðrum löndum og hér heima. Ég lenti í smá óhappi með öxlina fyrir tveimur árum en ég er byrjuð að vinna aftur. Ég var svo lánsöm að geta notað tímann til að gefa út geisladiskasafnið mitt Quo vadis? eða Hvert liggur leið þín? sem er samansafn upptaka með mér. Það eru til mjög margar upptökur með mér á RÚV frá árunum 1972 – 2005 og það varð  úr að ég ákvað að huga að útgáfu sem myndi gefa sýnishorn af tónlistarferli mínum. Quo vadis? varð að veruleika og þetta safn kom út á afmælisdeginum mínum 26. október 2018. Nafnið á geisladiskasafninu varð til eftir að dvaldi sumarlangt í Róm en ég er glöð og ánægð að hafa farið út þetta ævintýri því eins og afi minn, sem var organisti, sagði: ,,Tónlistin á erindi til allra. Allir eiga að geta notið hennar. Hún getur breytt heiminum.“ Þetta er mitt framlag til þess.“

Með Þorlefi Erni Arnarssyni Klaus Ager Bjarna Frímanni Bjarnasyni og Maríu Sólrúnu Sigurðardóttur í Bayreuth.

Kostar vinnu og kallar á kjark

Hefur þú aldrei séð eftir því að hafa valið tónlistina að ævistarfi?

,,Nei, í raun ekki. Þetta er krefjandi starf en um leið ótrúlega gefandi. Þrotlausar æfingar liggja að baki því að geta miðlað tónlist svo vel sé og kostar í raun mikla vinnu og kallar á mikinn kjark. Mikill tími fer í æfingar, maður er alltaf einn með sjálfum sér, afkoman er ótrygg og maður er sjaldnast á föstum launum nema í þau fáu skipti sem listamaðurinn fær listamannalaun. Mitt starf og mitt lífshlaup hefur falist í því að miðla tónlistinni áfram til sem flestra og það eru í raun forréttindi að fá að starfa við það þrátt fyrir augljósa fyrrnefnda annmarka. Tónlistin er síðan það athvarf sem, bæði við tónlistarmenn og aðrir tónlistarunnendur, getum alltaf leitað í hvort sem er í gleði eða sorg. Það er mikils virði.“

Sjö ára bið eftir miðum

Hefur það tekið mikinn tíma og vinnu að vera formaður í félagi eins og Wagnerfélaginu?

,,Ef maður vill skila góðri vinnu þá er með þetta eins og með allt annað að það tekur bæði tíma og orku en um leið má ekki gleyma því að svona vinna er afar gefandi og ég sé ekki eftir einni mínútu sem fer í félagið. Í Wagnerfélaginu er bæði skemmtilegt og gott fólk sem nýtur þess að hittast og fræðast um Wagner og tónlistina hans.“

Tilgangur félagsins?

,,Hlutverk félagsins er að halda uppi öflugu kynningarstarfi á verkum Wagners með myndbandssýningum, fyrirlestrum og tónleikum. Félagið hefur auk þessa stuðlað að óperuferðum til Bayreuth og við erum svo lánsöm að vera í aðstöðu til að útvega félagsmönnum miða á hátíðina en almennt er sjö ára bið eftir miðum. Þeir sem ekki eru í félaginu þurfa að sækja um ár eftir ár í Þýskalandi og oftast er biðin eftir miðum á almennum markaði um það bil sjö ár. Vegna þess hversu sjaldan Wagner er fluttur hér förum við líka mikið í óperuferðir til annarra borga erlendis.

Wagnerfélagið hefur auk þessa beitt sér fyrir rannsóknum á mikilvægi íslenskra fornbókmennta fyrir Richard Wagner með fyrirlestrum og kynningum víða um heim. Félagið stóð að útgáfu bókarinnar Wagner og Völsungar efri dr. Árna Björnsson sem hefur síðan verið gefin út á þremur tungumálum.

Auk þessa styrkir félagið árlega ungan söngvara eða sviðslistamann í samvinnu við Styrkþegastofnunina í Bayreuth.“

Wagner og Hitler

Í dag eru 240 meðlimir í Wagnerfélaginu en við stofnun voru þeir um 100. Nú hafa margir haft horn í síðu tónskáldsins Richard Wagner vegna aðdáunar Hitlers á verk hans. Hefur þú orðið vör við fordóma vegna þessa?

Með Sigrúnu Eðvaldsdóttur í Kína.

,,Ég hef öðru hverju verið spurð um tengsl Wagners við Hitler og gyðingafordóma. Því má ekki gleyma að Wagner var dáinn löngu áður en Hitler fæddist og ekki getur hann gert að því að Hitler og nasistar almennt hafi hrifist af tónlist hans. Það var mikil Gyðingaandúð ríkjandi víða í Evrópu á tímum Wagners og hennar gætir stundum í skrifum hans. En það er ekkert í verkum hans sem bendir til andúðar hans á Gyðingum. Hann er aldrei pólitískur í sínum verkum. Ég bendi líka á að nánustu vinir hans og samstarfsmenn voru Gyðingar. Ég veit ekki betur en að enn þann dag í dag sé nánast bannað að setja upp og flytja verk Wagners í Ísrael. Mér finnst það mjög öfgakennt.“

Hverjir eiga erindi í Wagnerfélagið?

,,Félagið er öllum opið og við tökum nýjum meðlimum fagnandi. Það er alger misskilningur að félagið henti bara þeim sem eru tónlistarmenn. Hér er að finna afar fjölbreyttan hóp fólks á öllum aldri með ólíka menntun og reynslu. Þetta er skemmtilegur og gefandi félagsskapur. Það eina sem sameinar okkur er áhugi á tónlist Richard Wagners.“

Wagnerdagar í Reykjavík

Hvað er svo framundan hjá félaginu? ,,Segja má að það verði hálfgerðir Wagnerdagar í Reykjavík 27. – 31. maí nk. Óperan Valkyrjan verður sett upp í Hörpu tvisvar sinnum í lok maí en þetta er samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar og Listahátíðar í Reykjavík. Rússnesk-ísraelski píanósnillingurinn Albert Mamriev mun leika verk eftir Beethoven og Wagner þann 28. maí í Hörpu. Haldið verður málþing í Veröld, Húsi Vigdísar, undir yfirskriftinni Wagner og Ísland – Norrænu uppspretturnar og áhrif þeirra á Richard Wagner. Von er á annað hundrað manns erlendis frá undir hatti Alþjóðlega samtaka Wagnerfélaga.

Á vegum félagsins fer síðan hópur til Bayeruth í ágúst og annar eins hópur mun fara til Parísar í nóvember til að sjá allan Niflungahringinn, þ.e. allar fjórar óperurnar.

Eins og sjá má þá er nóg fram undan og til mikils að hlakka til.“

Ætlar þú að halda áfram formennskunni í Wagnerfélaginu?

,,Tja, góð spurning! Á meðan fólk vill hafa mig þá er ég tilbúin til að vera hér lengur og ég hef afskaplega mikla ánægju af því að vinna fyrir félagið. Ég var á dögunum aftur kosin í stjórn Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga til fimm ára. Eigum við ekki að segja að ég sé ekkert á leiðinni að slíta sambandinu við Wagner á næstunni,“ sagði Selma brosandi.

 

Ritstjórn mars 20, 2020 09:10