Það eru tvær Steinunnar Sigurðardætur skráðar til heimilis í Hveragerði, ef marka má símaskrána. Þegar blaðamaður Lifðu núna brunar yfir Hellisheiðina, á hann erindi við Steinunni S. Sigurðardóttur sem er titluð fyrrv.læknafulltrúi á já.is. Steinunn fæddist á prestssetrinu Grenjaðarstað í Aðaldal og ólst þar upp hjá foreldrum sínum, þeim séra Sigurði Guðmundssyni síðar vígslubiskupi og konu hans Aðalbjörgu Halldórsdóttur, frá Öngulstöðum í Eyjafirði. Þau hjónin Steinunn og Ingólfur S. Ingólfsson taka á móti blaðamanni Lifðu núna, þegar hann hringir dyrabjöllunni hjá þeim í Hveragerði. Steinunn er að elda plokkfisk. „Ég var með fisk í gær og bý til plokkfisk úr honum í dag, þetta er uppáhaldið hans Ingólfs“, segir hún á meðan hún lýkur matseldinni og blaðamaður kemur sér fyrir við borðstofuborðið hjá henni, í raðhúsinu þar sem þau búa. Það er einkar rúmgott, hátt til lofts og vítt til veggja.
Hitti þennan strák fyrir 60 árum
Þau Steinunn byrjuðu að búa saman 17 ára gömul, en þau kynntust 1958 á fermingarári beggja. Steinunn var þá 1.60 á hæð, en Ingólfur 1.48. „Pabbi var mjög ósáttur yfir því að við byrjuðum að búa saman ógift“, rifjar Steinunn upp. „Hann var náttúrulega prestur“. Hún lætur hugann reika tilbaka og brosir í kampinn. „Ég hitti þennan strák í fyrsta skipti fyrir 60 árum. Okkur finnst svo fyndið, hvað tíminn hefur liðið og manni finnst maður ekkert gamall!!“. Steinunn segir að pabbi hennar hafi „pínt“ þau til að giftast þegar þau voru 19 ára. „Það er viss áhætta þegar börn taka saman svona snemma, en hefur gengið upp hjá okkur. Hann Ingólfur er svo gömul sál“. En hver er galdurinn á bak við það að halda saman í sex áratugi? „Það er stór spurning, ég á engin svör við því“, segir Ingólfur sem blandar sér í samræðurnar. En Steinunn telur að þetta snúist um djúpa vináttu og traust. „Við höfum alltaf talað saman eins og bestu vinir, alveg frá því við kynntumst. Við getum alltaf rætt allt. Þið skuluð alltaf ræða hlutina ef þið eruð ósátt og verið hreinskilin, ráðlagði mamma okkur fyrir margt löngu. Hún var vön því úr Öngulsstaða-ættinni að það væri talað um málin. Pabbi var miklu lokaðri“, segir hún.
Fluttu í Hveragerði fyrir fjórum árum
„Við höfum sama matarsmekk og ólum hvort annað upp að því leyti. Við vorum svo ung og vön því að borða bara það sem lagt var á borð. Við kunnum ekkert að elda þegar við fórum að búa, en höfum bæði gaman af að elda. Eins og plokkfiskinn, sem mér fannst ekkert sérstakur þegar ég var krakki“, segir Steinunn. Þau Ingólfur bjuggu á Akureyri í 50 ár, þar til þau söðluðu um og fluttu til Hveragerðis fyrir rúmum fjórum árum. „Við fluttum til Akureyrar 17 ára og fórum þaðan sjötug“, segir Steinunn, sem ætlaði sér aldrei að búa á Akureyri, kunni ekki við stéttaskiptinguna sem þar var á þeim tíma, en seinna fannst henni gott að búa í bænum. Hún fór aftur í skóla, í Menntaskólann á Akureyri, Ingólfur fór í Iðnskólann og Tækniskólann og börnin þeirra gengu í MA og eru ekta Akureyringar. Þau eiga þrjú börn, Benedikt sem er klassiskur baritonsöngvari, Sigurð, doktor í frönskum bókmenntum, sem orti textann við fullveldiskantötuna eftir Michael Clarke, sem flutt var í Hofi fyrsta desember síðast liðinn, en hann er í guðfræðinámi í Háskóla Íslands. Svo er ein dóttir Rut, sem er grafískur hönnuður og kennari. Þau búa öll á höfuðborgarsvæðinu, ýmist í Reykjavík eða Garðabæ. Barnabörnin eru sjö, að meðtöldum stjúpbarnabörnum.
Ættum kannski bara að flytja suður?
En hvernig stóð á því að þau Norðlendingarnir ákváðu að flytja til Hveragerðis. „Ég get alveg sagt þér þá sögu“, segir Steinunn. „ Við vorum mikið í sundi og dag einn vorum við rétt komin heim úr sundinu,eftir að hafa spjallað saman í pottinum. Við komum heim í eldhús og fórum að taka til hádegismat. „Við ættum kannski bara að flytja suður?“ segi ég þá við Ingólf, en við vorum búin að fara mikið suður til að passa börnin hennar Rutar, til dæmis þegar þau hjónin fóru til útlanda. Við vorum svo oft búin að fara þetta fram og tilbaka. „Af hverju ekki?“ segir hann. Þá spurði ég, Borgarnes? Nei frekar Hveragerði, sagði Igólfur og ég sagði bara já. Þetta var nú ekki flóknara en það. Svo fórum við í Hveragerði og skoðuðum og skoðuðum íbúðir og hús en vorum aldrei ánægð, fyrr en við sáum þetta raðhús og ákváðum að kaupa það. Við fórum norður og seldum húsið okkar á um það bil einum og hálfum mánuði. „Ég var orðin stressuð og hélt að við myndum ekki selja húsið. Við komum hingað 1. október 2014. Þá vorum við búin að vera í einbýlishúsi í 40 ár. En hér í raðhúsinu og í næstu raðhúsum eigum við frábæra nágranna“, segir Steinunn. Hún segir þau aðallega hafa kynnst fólkinu í sínu nánasta umhverfi, þau séu ekkert óskaplega mannblendin. „Það er margt fólk sem hefur flutt hingað úr Reykjavík og svo eru líka Hvergerðingar sem hafa verið að minnka við sig og flutt hingað í hverfið“, segir hún.“Okkur finnst fólk hér í bænum notalega sveitalegt, en við erum sjálf úr sveit. Hér er ekkert stress og ekkert snobb og það er rólegt hérna. Það er heilmikil menning í þessu litla þorpi, hér búa til dæmis rithöfundarnir Pétur Hafstein Lárusson og Guðrún Eva Mínervudóttir. Hér búa líka margir myndlistarmenn og hafa margir þeirra vinnustofur í húsi sem heitir Egilsstaðir. Hér er mjög glæsilegt listasafn, Listasafn Árnesinga. Forstöðumaður þess er Inga Jónsdóttir og þar eru haldnar metnaðarfullar sýningar. Hér er mjög gott bókasafn og þar er ég í lesklúbbi sem María Anna Maríudóttir bókmenntafræðingur stjórnar. Í bókasafninu eru oft haldnar myndlistarsýningar.
Ekki gaman að keyra milli Akureyrar og Reykjavíkur
Steinunn jánkar því að þau hafi flutt suður á eftir börnunum, eins og margt fólk úti á landsbyggðinni gerir, þegar börnin eru sest að á höfuðborgarsvæðinu. „Mér finnst ekkert gaman að keyra milli Akureyrar og Reykjavíkur. Umferðin er orðin svo hættuleg og glannaleg“, segir hún og bætir við að þau fari mikið til Reykjavíkur á sýningar og tónleika. Ingólfur bætir við að það hafi aldrei komið til greina hjá honum að flytja til Reykjavíkur. „Mér finnst umferðin þar ömurleg“, segir hann og þau voru sammála um að rólegheitin í Hveragerði hentuðu þeim betur en stressið í Reykjavík.
Hafa sérherbergi hjá dóttur sinni
Nú er styttra fyrir börnin að koma í matarboð hjá Steinunni og Ingólfi í Hveragerði. „Þau koma hingað og það er alltaf það sama sem þau vilja“, segir Steinunn. „Það er ýmist læri sem afi gerir eða fiskibollur sem amma býr til. Við eldum líka einstaka sinnum hjá þeim í bænum og svo bjóða þau okkur í mat“. Ingólfur og Steinunn eru meira að segja með herbergi í kjallaranum hjá dóttur sinni sem hefur mest húspláss barnanna. „Við gistum þar stundum eina nótt eða tvær og erum alltaf velkomin“, segir hún og Ingólfur bætir við „Það er ekki alltaf hægt að fara yfir heiðina og þá er notalegt að geta gist“. Barnabörnin, koma stundum að gista hjá afa og ömmu, en þau eru hins vegar ýmist fullorðin eða að verða fullorðin. Þau eru á aldrinum frá 15 til 28 ára. Sá elsti, Steinar Bragi er í mastersnámi í tölvunarfræði í Hollandi.
Engin misklíð
Steinunn ólst upp í fimm systkina hópi, en ein systirin Þorgerður myndlistarkona, lést ung og þau er núna fjögur. Steinunn segir þau mjög samheldin. „Sambandið er gott og náið og aldrei nein misklíð. Ég er ekkert að ýkja þetta, manni finnst þetta sjálfgefið. Þegar við fluttum að norðan hjálpuðu Ragnheiður systir mín og Bragi maðurinn hennar okkur að pakka og systir Ingólfs, Anna Steinlaug, þreif allt húsið fyrir okkur. Í Hveragerði voru svo bræður mínir, Halldór og Guðmundur, mættir með aðstoðarmenn til að bera inn búslóðina. Við þurftum ekki einu sinni að biðja um hjálp, þau buðu þetta fram sjálf systkinin“. Ingólfur og hans systkini, börn Ingólfs Benediktssonar, málarameistara og Hólmfríðar Björnsdóttur, hafa líka mikið samband sín á milli, en þau eru tíu, ættuð úr Höfðahverfi, frá Dal í Grýtubakkahreppi, skammt frá Grenivík.
Þekktu ekkert til í Hveragerði
Þau höfðu engin tengsl við Hveragerði áður en þau fluttu þangað. „Í gamla daga þegar við vorum ung og vorum að þvælast með strákana okkar, bauð Þorgerður systir, sem bjó í Reykjavík, okkur í bílferð til Eden í Hveragerði til að skoða apana. Þeim þótti það mikið ævintýri. Við fórum aldrei í Hveragerði, eftir að við hættum að fara þangað með börnin og þekktum ekkert til hér“, segir Steinunn. Skömmu eftir að þau fluttu fóru þau hins vegar á tónleika í kirkjunni og hittu þar hjónin Jón Helga Hálfdánarson sem var meðhjálpari í kirkjunni og konuna hans Jónu Einarsdóttur.“Þau komu okkur inn í félagslífið. Við þekktum þau ekki neitt en þau tóku okkur svo vel þegar við hittum þau á tónleikunum að það er einstakt“, segir Steinunn. Jóna syngur í kór aldraðra og Ingólfur gekk í hann. Stuttu síðar gekk Ingólfur í kirkjukór Hveragerðis – og Kotstrandarsókna og er því í tveimur kórum“ segir hún. Steinunn fór á línudansnámskeið í tvo vetur, var dugleg að æfa heima og vildi læra fleiri dansa. Núna lærir hún dansana á YouTube og dansar í stofunni flesta daga. Mjög góð leikfimi og gerir lundina léttari, segir hún.
Eftirlaunin til skammar
Steinunn og Ingólfur Steinar eru ekki ánægð með kjör eldri borgara í landinu. „Eftirlaunin eru til skammar“, segir Steinunn. Hún segir að þau hafi verið sparsöm alla ævi. „Ég held að það bjargi okkur núna að við kunnum að spara. En það verða að vera tveir til að halda heimili. Ég þekki tvö dæmi um fólk hér í Hveragerði sem var orðið eitt, en fór að búa saman til að geta haldið heimili áfram. Það væri erfitt að halda heimili einn“ segir Steinunn. „Núna veitum við okkur tvær utanlandsferðir á ári, við spörum og kaupum aldrei neitt í skuld. Við eigum fyrir því sem við kaupum.
Flottasta sundlaugin á landinu
Steinunn vann lengst af sem læknafulltrúi á sjúkrahúsinu á Akureyri, en Ingólfur var í 40 ár hjá Rafveitu Akureyrar, síðar Norðurorku, en hann er rafvélavirki. Þau eru hætt formlegum störfum, en Steinunn er enn að vinna svolítið við prófarkarlestur. Eftir stúdentspróf tók hún kennarapróf í esperanto í Frakklandi, en það eru líklega ekki margir Íslendingar sem hafa gert það. Hún fór reyndar til Akureyrar til að læra á orgel hjá Jakobi Tryggvasyni og var við það nám í 5 ár og vann í prentverki. Þau eru dugleg að ganga og hjóla, enda hentar Hveragerði einkar vel til hjólreiða. Og að sjálfsögðu fara þau í sund í Laugaskarði. „Mér finnst þetta flottasta sundlaugin á landinu. Hún er 50 metra löng“, segir Steinunn. Þau hafa komið sér vel fyrir í Hveagerði, en þurftu að losa sig við ýmislegt þegar þau fluttu suður. Steinunn segir að þau hafi til dæmis losað sig við húsgögn. „En það er langerfiðast að láta frá sér bækurnar“, segir hún enda á hún gamlar Biblíur sem hún erfði eftir föður sinn og segir að sér finnist ágætt, ætli hún til dæmis til læknis að geta flett upp í Læknatalinu og njósnað smávegis um hann. „Ég veit að það er hægt að gúggla þetta allt í dag, en það er viss nautn í því að vera með bókina í höndunum“, segir hún og það eru örugglega ýmsir sem eru komnir yfir miðjan aldur, sammála henni um það. Eftir að hafa fengið kökur og kaffi hjá þeim hjónum í Hveragerði, fer blaðamaður Lifðu núna að tína saman pjönkur sínar, enda farið að snjóa og hann vill gjarnan komast yfir heiðina í björtu.