Enn verið að segja upp eldri konum

Friðbert Traustason

Samkvæmt nýsamþykktum lögum er bannað að mismuna fólki á vinnumarkaði á grundvelli aldurs. Friðbert Traustason framkvæmdastjóri Starfsmanna fjármálafyrirtækja telur þó að lögin breyti litlu.

„Ég tel að jafnréttislögin frá 2008 hefðu átt að taka á þessu en þau hafa nú ekki virkað neitt sérlega vel, sérstaklega ekki fyrir þá sem vinna í þjónustugeiranum. Í bankageiranum er enn verið að segja upp fólki sem er komið á efri ár, sérstaklega konum sem eru sitthvoru megin við sextugt.“

Friðbert segir að lögin um snemmtökulífeyri sem tóku gildi um áramót hafi haft slæm áhrif en samkvæmt þeim geta þeir sem eru orðnir 65 ára og eldri tekið hálfan ellilífeyri hjá Tryggingastofnun á móti hálfum lífeyri frá lífeyrissjóðunum. Það þarf  að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá breytinguna í gegn. Ein er sú að allir lífeyrissjóðir, innlendir og erlendir, sem viðkomandi á rétt í verða að samþykkja töku á hálfum lífeyri. Að samanlögð réttindi frá öllum lífeyrissjóðum og TR séu að lágmarki jöfn fullum ellilífeyrir hjá Tryggingastofnun og að greiðslur frá TR og lífeyrissjóðunum hefjist samtímis. „Þessi breyting hefur ekki haft góð áhrif fyrir eldra fólk. Það er meiri tilhneiging eftir að þessi lög tóku gildi að segja fólki upp eða gera starfslokasamning við það. Nú er algengt að það sé farið að ýta við fólki þegar það nálgast 65 ára aldurinn. Það eru ekki jafn margar uppsagnir eins og fyrstu árin eftir hrun þær eru samt sem áður ansi margar. Það er fyrst og fremst verið að fækka í eldri hópnum. Algengar skýringar hjá stjórnendum fjármálafyrirtækjanna eru að það vanti fólk með annarskonar þekkingu inn í bankageirann en þá þekkingu sem eldra fólkið hafi.“

Friðbert segir að það séu ákveðnir aldursfordómar ríkjandi á vinnumarkaðnum og það hafi lítið breyst síðustu misserin.

Ritstjórn júní 28, 2018 07:04