Ekki misskilja mig vitlaust!

Árið 2018 kom út bókin „Ekki misskilja mig vitlaust!“ eftir Guðjón Inga Eiríksson og inniheldur hún mismæli af ýmsum toga og ambögur. Þar koma margir við sögu og má þar nefna Guðbjart Jónsson, lengi veitingamann í Vagninum á Flateyri, fjölmarga frétta- og dagskrárgerðarmenn af ljósvakamiðlunum, stjórnmálamenn, Eyþór í Lindu á Akureyri og drottningu mismælanna, sjálfa Vigdísi Hauksdóttur.

Hér á eftir verður gripið niður í örstutta kafla í bókinni:

Eyþór í Lindu:

Eyþór Tómasson, kenndur við sælgætisgerðina Lindu sem hann stofnaði á Akureyri árið 1949, er nánast goðsögn á Akureyri þegar kemur að hinu spaugilega í tilverunni og þá eru mismæli ekki undanskilin. Nokkur slík fylgja hér á eftir:

Eyþór hafði skroppið í laxveiði austur í Fnjóská. Kvöld eitt var mikil gleði í veiðihúsinu þar og um morguninn voru margir ansi framlágir. Eyþór hélt samt ótrauður til veiða ásamt nokkrum öðrum. Ekki tókst þó betur til en svo að hann féll fyrir björg og fótbrotnaði. Félagar hans brugðu skjótt við og þegar þeir höfðu dröslað Eyþóri upp á árbakkann leit hann á þá kvalarfullum augum og sagði:

„Ekki eru allir peningar til fjár.“

Eitt sinn var Eyþór í Lindu á ársfundi Félags íslenskra iðnrekenda sem þá var haldinn í Leikhúskjallaranum við Hverfisgötu í Reykjavík. Hann sté þar í pontu og fór að býsnast yfir því hversu frídagar á Íslandi væru margir. Og auðvitað kom hann með dæmi:

„Það eru 15 frídagar í apríl ef 1. maí er talinn með.“

Eyþór kom inn í Akureyrarapótek til að endurnýja birgðir af hjartatöflunum sínum sem hann var búinn með. Ekki mundi hann hvað þær hétu og þegar afgreiðslustúlkan brá sér á bak við til að ráðfæra sig við lyfjafræðing kallaði hann á eftir henni svo allir í búðinni heyrðu:

„Æ, þú veist, þessar bleiku tussur sem stoppa hjartað þegar það byrjar að slá!“

Lási kokkur: 

Eitt sinn, þegar Lási vann í eldhúsinu á Hótel Heklu, var hann sendur með stóra og fagurlega skreytta rjómatertu til Zimsen. Hann hélt á tertunni með báðum höndum og gekk frá hótelinu, sem var við Lækjartorg, áleiðis að Zimsen-húsinu við Hafnarstræti. Þegar hann átti stuttan spöl ófarinn rak hann tærnar í og datt kylliflatur fram fyrir sig – með andlitið ofan í tertuna.

Þessu óhappi lýsti Lási svo:

„Ég rak gangstéttina í tærnar og missti andlitið í tertuna.“

Lási keypti eitt sinn mikið af sígarettum áður en hann hélt til sjós og var spurður að því hvað hann ætlaði eiginlega að gera við öll þessi ósköp af tóbaki.

„Það er ekki víst að við komum í höfn bráðlega,“ svaraði Lási, „svo mér þótti vissara að hafa vaðið fyrir ofan mig.“

*Einu sinni kom afgreiðslumaður frá olíufélagi um borð í Sæbjörgu og þáði kaffi aftur í borðsal með vélstjóranum og nokkrum öðrum. Allt í einu kemur Lási þangað inn og segir um leið og hann kemur auga á afgreiðslumanninn:

„Þú hefur breyst svo mikið síðan ég sá þig síðast að ég þekki þig ekki fyrir annan mann.“

Guðbjartur Jónsson, lengi veitingamaður á Flateyri:

„Sá vægir sem veit ekki meira.“

„Þegar neyðin er stærst, þá verður hún ekki mikið stærri.“

„Margt smátt gerir eitt lítið.“

„Það er bara einn sem hefur einkarétt á þessu.“

„Ekki misskilja mig vitlaust!“

„Hann er fasisti á vín og tóbak.“

Vigdís Hauksdóttir 

„Við skulum bara sjá til en ég er á engan hátt að stinga höfðinu í steininn.“

„Frú forseti. Það mega sumir kasta grjóti úr steinhúsi.“

„Það er eitthvað mikið á ferðinni fyrst hægt er að tala með þessum hætti í sitthvora áttina, með nokkurra mánaða fyrirvara.“

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 11, 2020 08:27