Eldra fólk hefur lægri ráðstöfunartekjur en aðrir

Fundur um fátækt aldraðra var haldinn í ráðhúsi Reykjavíkur í gær, fyrir tilstuðlan Öldungaráðs Reykjavíkur. Yfirskrift fundarins var Aldraðir – fátækir. Hvað á þetta að þýða? Kolbeinn H. Stefánsson sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands flutti á fundinum erindi um fátækt eldri borgara og Ellý Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri velferðarsviðs Reykjavíkur sagði frá þjónustu við tekjulitla eldri borgara. Þá fluttu fulltrúar allra flokka í borgarsstjórn stutt ávörp um sína sýn á málefnið.

Skuldlaus eða ekki

Kolbeinn greindi meðal annars frá því að  fólk sem er 67 ára og eldra, væri með lægri ráðstöfunartekjur en fólk almennt í landinu. Þegar reynt er að meta skort á efnislegum gæðum, kemur hins vegar í ljós að hann er meiri meðal þeirra yngri, en eldri kynslóðarinnar. Yngri hóparnir eiga líka erfiðara með að ná endum saman en þeir sem eldri eru, þó þeir hafi hærri ráðstöfunartekjur. En hér skiptir miklu, hvort eldra fólk býr í eigin skuldlausu húsnæði og hvort það býr eitt eða með öðrum. Um 19% þeirra sem býr í eigin húsnæði segjast eiga erfitt með að ná endum saman, en 50% þeirra sem leigja. Næstum 32% þeirra sem búa einir, eiga erfitt með að láta launin endast út mánuðinn.

Eldri borgarar flestir í Laugardal og Háaleitishverfi

„Fjárhagslegar skuldbindingar skipta mestu þegar farið er inní eftri árin“, segir Kolbeinn. Að búa í eigin húsnæði og vera skuldlaus gerir útslagið. Ellý Þorsteinsdóttir fór yfir stöðu eldri borgara í Reykjavík, en hlutfallslega búa flestir eldri borgarar í Laugardal og Háaleitishverfi. Þeir sem eiga rétt á fjárhagsaðstoð frá borginni eru einstaklingar með undir 180.000 krónur á mánuði og sambúðarfólk með undir 270 þúsund krónum. Á síðasta ári fengu 57 manns, 67 ára og eldri, fjárhagsaðstoð sér til framfærslu hjá borginni. „Þetta eru ekki háar tölur, en erfið staða fyrir fólk að vera í“, sagði Ellý. Hún segir vísbendingar um að fólki í þessum hópi fari fjölgandi, en árið 2007 fengu 20 manns 67 ára og eldri fjárhagsaðstoð.

Erlendum réttlausum eldri borgurum fjölgar

Rúmlega 80% þess fólks sem fékk aðstoð til framfærslu í fyrra eru útlendingar, sem eiga ekki lífeyrisréttindi á Íslandi. Sumir hafa komið hingað sem flóttamenn, aðrir vegna fjölskylduaðstæðna. Ellý segir ástæðu til að skoða lög Tryggingastofnunar með tilliti til þessa hóps. Þá býður borgin tekjulitlum einstaklingum til dæmis uppá heimsendan mat, akstursþjónustu og húsaleigubætur. Þeir sem hafa lægstu eftirlaunin geta fengið gjald fyrir matinn fellt niður. Sé öll aðstoð borgarinnar við þennan hóp tekin saman, fengu rúmlega 100 manns einhverja aðstoð á síðasta ári, þar af um helmingurinn Íslendingar. Meðal annars til að geta farið til tannlæknis.

Vilja sveigjanleg starfslok

Ilmur Kristjánsdóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkur benti á að þeir sem væru fátækir aldraðir, hefðu líka verið fátækir fertugir og þrítugir. Málið snerist um tekjuskiptingu og jöfn tækifæri fyrir alla. Jóna Björg Sætran frá Framsókn og flugvallarvinum, taldi ekki rétt að setja samasemmerki milli aldraðra og fátækra. Aðstæður eldra fólks væru mismunandi. Margir byggju við góð kjör í eigin húsnæði á meðan aðrir ættu erfitt og liðu skort. Hún og Heiða Björg Hilmisdóttir frá Samfylkingu vildu að komið yrði á sveigjanlegum starfslokum og Halldór Halldórsson frá Sjálfstæðisflokki tók undir það.

Sjáum ekki neyð annarra

Heiða Björg lagði áherslu á jöfnuð og að eldra fólki yrðu tryggð 300.000 króna lágmarkslaun. Þá sagðist hún telja að í fjölgun eldra fólks fælust mikil tækifæri. Halldór Halldórsson vildi lægri fasteignaskatta fyrir eldra fólk og taldi að endurskoða þyrfti allt tryggingakerfið og draga úr krossskerðingu vegna lífeyrisgreiðslna. Pítratinn í hópnum, Kristín Elfa Guðnadóttir vildi tryggja eldra fólki aðgang að internetinu. Hún vildi að tryggingakerfið yrði einfaldað og taldi að breyta þyrfti menningu okkar í átt til samhjálpar og sjálfboðaliðastarfa.  „Við erum alltof mikið efnishyggjufólk og sjáum ekki neyð annarra og heldur ekki neyð okkar sjálfra“, sagði hún.

Lúxusíbúð á 290 þúsund á mánuði

Elín Oddný Sigurðardóttir frá Vinstri grænum sagði að það myndi létta undir með eldri borgurum, ef þeim byðust leiguíbúðir á viðráðanlegu verði.  Það væri mikið framboð lúxusíbúða fyrir sextuga og eldri og hún sagðist hafa séð auglýsta til leigu 85 fermetra „granít“ íbúð fyrir eldri borgara á tæpar 290.000 krónur á mánuði.  Hún taldi að stuðla þyrfti að uppbyggingu leiguhúsnæðis fyrir eldra fólk.

 

 

 

Ritstjórn apríl 14, 2016 14:10