Þarf eftirlit með öllum sem eru orðnir sjötugir?

Frétt á Vísi um aldur dagforeldra hefur vakið athygli og viðbrögð á vefnum, en í fréttinni er því lýst að Barnavist, félag dagforeldra hafi áhyggjur af því að í hópi þeirra séu einstaklingar sem séu komnir yfir sjötugt. Kallað er eftir ákvæðum í lög eða reglugerðir um hámarksaldur dagforeldra. Talsmaður Barnavistar segir að það sé gerð krafa um lágmarksaldur dagforeldra og ekki óeðlilegt að einnig sé kveðið á um hámarksaldur þeirra. Sjá fréttina hér.

Sjötugir óöruggari en fimmtugir?

Nokkur hópur fólks hefur skrifað komment við fréttina á Vísisvefnum. Reynir Vilhjálmsson spyr þar hvort það þurfi að hafa eftirlit með öllum sem eru komnir yfir sjötugt. „Hefur manneskjan nokkurt vit á því sem hún er að segja? Hefur hún eitthvað rannsakað málið? Eru dagforeldrar sem komnir eru yfir sjötugt eitthvað óöruggari en þeir sem komnir eru yfir fimmtugt?“ segir hann. Kristinn Sigurjónsson bendir á að það hafi verið rætt um að hækka ellilífeyrisaldurinn þannig að fólk hafi möguleika á að vinna lengur. Hann segir að fólk sé almennt starfsamt þótt það sé orðið fullorðið og segist geta trúað því að margir eldri en sjötugir standi sig betur en ungt fólk.

Heilsufar fremur en aldur ráði

„Ömmur eru bestu dagforeldrar“, segir Guðjón Jónsson. Hann telur að margar ungar dagmæður taki út alla veikindadaga án þess að vera veikar. En Vala Smáradóttir segir hins vegar að það sé heilmikil líkamleg vinna að hlaupa á eftir ungbörnum. „Ég myndi halda að manneskja um 20 væri almennt í betra líkamlegu formi en manneskja yfir 70. Svo er spurning hvor er hæfari til að tjá sig um málið þeir sem þekkja ekkert til eða þeir sem hafa starfað við ummönun barna í fjölda ára“ segir hún.  En Margrét Karlsdóttir segir einfaldlega. „Væri ekki nær að fylgjast með heilsufari dagforeldra almennt, en aldri?

Ritstjórn júlí 30, 2015 14:38