„Ég var að hugsa um það bæði í gamni og alvöru að auglýsa eftir svartri vinnu. Það þarf að skapa umræðu um skattpíningu eldra fólks,“ segir hinn landsfrægi matreiðslumaður Hilmar B. Jónsson. Hilmar var í viðtali á Bylgjunni fyrir rúmri viku þar sem hann reifaði þessi mál. „Ég fékk mikil viðbrögð við viðtalinu. Það hafa á þriðja tug manna og kvenna þakkað mér persónulega og svo hef ég fengðið talsvert af tölvupósti þar sem fólk þakkar mér fyrir að skapa umræðu.“
„Það er alveg útúr öllu korti að eftirlaunaþegar sem vilja og geta unnið eigi að borga 70 til 80 prósent skatt af tekjum sínum til ríkisins. Þá sit ég nú frekar heima og horfi á sjónvarpið en sæta slíku. Eftirlaunaþegar sem eru að vinna, gera það svart ef þeir fá vinnu. Annars eru þeir heima. Alþingismenn ættu að sjá það í hendi sér að það margborgar sig fyrir ríkið að skattleggja tekjur eldra fólks á sanngjarnan hátt. Með því móti fá þeir skatttekjur af þeim sem eru að vinna svart núna og fleira fólk myndi sjá sér akk í því að fara út á vinnumarkaðinn. Í gegnum tíðina hefur maður séð hraust fólk sem er látið hætta að vinna sökum aldurs veslast upp þegar það hefur ekkert fyrir stafni lengur. Fólk myndi endast miklu lengur og hafa betri heilsu ef það fengi að vera á vinnumarkaði eins lengi og það kærði sig um.“
Hilmar vann í Bandaríkjunum í 22 ár og bjó þar í 12 ár. „Ég bjó svo lengi úti að ég er með tvöfaldan ríkisborgararétt. Ég gæti því flogið út á morgun og farið að vinna daginn eftir. Ég er búinn að senda um 40 tölvupósta til vina minna í Bandaríkjunum og biðja þá um að athuga hvort eitthvað sé á lausu fyrir mig að gera þar. Ég hef unnið við matreiðslu og markaðs- og sölustörf í gegnum tíðina. Það eru til dæmis fáir í heiminum sem vita meira um fisk en ég. Ég myndi gjarnan vilja kenna í matreiðsluskóla eða eitthvað slíkt. Þó ég sé orðinn 74 ára er ég við góða heilsu og treysti mér vel til að vinna nokkra daga í viku eða hálfan daginn. Ég þoli ekki að gera ekki neitt,“ segir Hilmar og bætir við að árið sem hann hætti í fullu starfi hafi verið versta ár lífs hans.
Í Bandaríkjunum er eftirlaunaaldurinn 66 ár. Þar má fólk hins vegar vinna eins lengi og það vill og hefur heilsu til. Þegar fólk er komið á eftirlaunaaldur greiðir það 20 prósent af atvinnutekjum sínum í skatta sama hvað það hefur í laun, auk þess sem atvinnutekjur skerða ekki eftirlaun þess.
Hilmar segir að þessi mál séu mikið til umræðu hjá eldra fólki. „Ég er í þremur grúppum sem hittast reglulega. Þar eru þessi mál mikið rædd. Það er verið að hegna fólki fyrir að verða gamalt og því er hengt enn meira ef það vill vinna. Það er niðurlægjandi fyrir fólk sem getur unnið að þurfa að sitja heima hjá sér af því það svarar ekki kostnaði að fara út á vinnumarkaðinn. Alþingismenn verða að sjá að sér og færa þessi mál til betri vegar og það strax. Þó ellilífeyrsþegar hafi ekki verkfallsrétt hafa þeir þó ýmsa möguleika til að láta í sér heyra ef stjórnvöld standa ekki við það sem þau hafa lofað eldri borgurum.“