Þrír berjast um formennskuna í Félagi eldri borgara í Reykjavík

Mikill áhugi er á að komast í forystusveit Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, en Ellert B. Schram lætur af formennsku í félaginu á næsta aðalfundi FEB sem verður haldinn 12.mars. Þrír bjóða sig nú  fram til formennsku, þau Borgþór Kjærnested, Haukur Arnþórsson og Ingibjörg H. Sverrisdóttir. Kosning fer fram á aðalfundinum þann 12., sem hefst klukkan 14.  Á undanförnum árum hafa formenn félagsins yfirleitt verið sjálfkjörnir og því heyrir formannskjör, þar sem kosið er milli frambjóðenda, til undantekninga í félaginu.  Þá hafa 16 manns boðið sig fram í stjórn félagsins og hafa frambjóðendur til stjórnar ekki áður verið fleiri, eftir því sem Lifðu núna kemst næst.  Hér fyrir neðan koma kynningar á frambjóðendum í stafrófsröð.

Borgþór S. Kjærnested.

Bogþór S. Kjærnested

Ég heiti Borgþór Vestfjörð og er Svavarsson Kjærnested, fæddur í Sandgerði 3. september 1943. Foreldrar, Svavar F. Kjærnested garðyrkjumeistari og Hjálmfríður Ólöf Þorsteinsdóttir, garðyrkjumaður, forstöðumaður o.fl.  Verði ég kjörinn formaður félagsins vil ég leggja áherslu á afnám skerðinga, stutt og laggott.

Ég er alinn upp í Ásum í Stafholtstungum, Mýrarsýslu til 1958, en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Sótti nám í grundvigskum lýðháskóla í Borgå/Porvoo í Finnlandi 1961-62.

Bjó og starfaði í Finnlandi og Svíþjóð árin 1963 til 1975 og lauk þar námi í dagskrárgerð og túlkun.

Vann við finnska útvarpið og sótti námskeið í blaðamennsku 1973 til 1975.

Flutti til Íslands 1975 og starfaði sem fréttaritari finnska útvarpsins 1975 til 1984, norrænu fréttastöðvanna með Ritzau Bureau sem dreifingarmiðstöð 1977 til 1981.       Rak eigin fréttaþjónustu og útvarpsdagskrárgerð fyrir finnska YLE, sænska SR og íslenska RÚV og miðlun sjónvarpsfrétta til Finnlands og Svíþjóðar 1975 til 1984. Ráðstefnutúlkur, fararstjóri og leiðsögumaður erlendra ferðamanna á Íslandi og erlendis 1978 til 1985.

Framkvæmdastjóri Sambands norrænu félaganna, með aðsetur í Helsingfors, 1. október 1984 til 1. júlí 1988.

Rak eigin fréttaþjónustu, þýðingamiðstöð, túlkun og ferðaþjónustu í Reykjavík 1988 til 1990.

Framkvæmdastjóri Norræna flutningamannasambandsins, NTF 1. október 1990 með aðsetur í Stokkhólmi til 1. október 1996.

Starfsmaður Sjómannafélags Reykjavíkur sem eftirlitsfulltrúi Alþjóða flutningamannasambandsins ITF frá 1. október 1996 til 1. október 2003.

Framkvæmdastjóri Landssambands eldri borgara 1. október 2005 til 1. janúar 2009.

Sambýliskona frá 2005 Hrafnhildur Schram.

ÚTGEFIÐ EFNI:

Þýðingar: Árið 2005 Ísland, land frosts og funa. Ferðasaga jarðfræðingsins dr., Iivari Leiviskä um Ísland árin 1925 og 1926.

2011 Bók Hermans Lindqvist um NAPOLEÓN á íslensku.

2018 Dagbækur Kristjáns X um samskipti við Íslendinga og íslenskar aðstæður 1908 – 1932.

 

Haukur Arnþórsson.

Haukur Arnþórsson

Ég býð fram krafta mína til formannsembættis FEB.

Helstu stefnumál mín eru að lífskjarasamningarnir nái til aldraðra, að skerðingum verði hætt og að eldri borgarar (ásamt öðrum utan vinnumarkaðar) fái aðgang að þeim félagsmálakerfum sem fólk á vinnumarkaði hefur. Þá á ég m.a. við orlofssjóði, sjúkrasjóði, endurhæfingarsjóði (námskeiðssjóði) og aðgang að Virk. Best væri að þetta gerðist í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, þannig að hver og einn tengist því stéttarfélagi sem hann var í við starfslok. Þetta er í rauninni stórmál sem verður sífellt brýnna eftir því sem aldraðir utan vinnumarkaðar eru heilsuhraustari og lifa í auknum mæli innihaldsríku lífi.

Áhugi minn á þessum málum vaknaði fyrir tveimur árum þegar ég gerði skýrslu fyrir FEB um kjör eldri borgara. Hana kynnti ég víða og m.a. hjá FEB og LEB, verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðunum. Í framhaldi af því hef ég fylgst með kjörum eldri borgara og mætt á nokkra fundi með forystu þeirra hjá yfirvöldum og birt um málefnið nokkrar greinar í Morgunblaðinu og á vefnum Lifðu núna.

Ég tel að FEB þurfi að vera virkara í hagsmunabaráttunni en verið hefur og styðja við allt grasrótarstarf sem styður hagsmuni eldri borgara. Þá tel ég að félagið eigi að láta reyna á ýmis mál lagalega, bæði fyrir úrskurðarnefndum, hjá Umboðsmanni Alþingis og hjá dómstólum. Ég á við mál eins og að hækkanir ellilífeyris fylgja ekki launaþróun, að tvísköttun virðist eiga sér stað með skerðingunum og fleira – og ég tel að mál Gráa hersins sé aðeins fyrsta skrefið á þessari leið. Það er gott fordæmi.

En dómstólaleiðin gefur ekkert nema alþingismennirnir vilji verja árangurinn og breyti lögum. Því tel ég að eldri borgarar þurfi að hafa sterkari rödd í umræðunni en áður. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem hafa hæstar þjóðartekjur á mann og eldri borgarar eiga hiklaust að gera kröfu um að geta lifað lífinu sem fullgildir þátttakendur í samfélaginu.

Þá þarf að skoða faglega uppbyggingu félagsins, ekki síst með tilliti til kostnaðarsamra húsbygginga, félagsstarfs og annarrar starfsemi sem skiptir máli og ef með þarf að skipta starfsemi félagsins upp í sjálfstæðar einingar.

Ég er 66 ára fjölskyldumaður og starfa við fræðastörf hjá ReykjavíkurAkademíunni.

Ég hef skrifað nánar um mína sýn á málefni FEB í Lifðu núna og er tengill í þá grein hér.

 

Ingibjörg H. Sverrisdóttir

Ingibjörg H. Sverrisdóttir, ferðaráðgjafi

Ingibjörg H. Sverrisdóttir, ferðaráðgjafi

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formanns í félaginu á aðalfundi þess þann 12. mars nk.

Fædd í Reykjavík 24. mars 1947. Ólst upp í Reykjavík og Vestmannaeyjum.

Ég lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Stundaði tungumálanám í Þýskalandi og Spáni á yngri árum og á fullorðinsárum við Menntaskólann í Hamrahlíð og síðar við Háskóla Íslands í ferðamálafræðum. Hef setið ótal ráðstefnur og endurmenntunarnámskeið í ýmsum greinum í tengslum við störf mín hverju sinni.

Grái herinn og kjör eldri borgara eiga hug minn þessa stundina því ég hef verið með í undirbúningi og sit í stjórn Málsóknarsjóðs Gráa hersins sem mun kosta málaferli við ríkið vegna skerðinga á greiðslum til lífeyrisþega. Af mörgu öðru er að taka er varðar kjör eldri borgara sem þarfnast endurskoðunar. Innra starf félagsins þarf að efla frekar því hópur eldri borgara hefur stækkað ört undanfarin ár og mun fjölga talsvert á næstu árum. Fjölgunin mun kalla á meiri fjölbreytni í þjónustu, afþreyingu og þörf fyrir frekari fræðslu á flóknu umhverfi eldri borgara.

Ég tel mig hafa margt fram að færa til að bæta kjör okkar eldri borgaranna og brenn í skinninu að takast á við áskoranir sem bæði bæta kjör okkar og lífga upp á félagsskapinn með virku félagslífi og sterkum skoðunum á málefnum sem hafa áhrif á líf eldri borgara.

Starfsferill minn hefur alfarið verið í ferðageiranum hjá flugfélögum og ferðaskrifstofum bæði innanlands og utan. Ég bjó og starfaði í Danmörku í rúm þrjú ár, í Þýskalandi samtals fjögur ár og að auki dvalið víða til lengri tíma erlendis.  Á þessum tíma hef ég fengist við margvísleg störf eins og flugumsjón, farþegaþjónustu, sölu, framleiðslu- og sölustjórnun, innkaup og samninga á þjónustuþáttum, arðsemisútreikninga, bæklingagerð, markaðs- og tekjustýringu, skipulagt ráðstefnur og sinnt fararstjórn svo eitthvað sé nefnt. Í ferðmálaskólum kenndi ég í tíu ár verðandi ferðaráðgjöfum.

Ég hef ferðast víða um heiminn vegna starfa minna sem og á eigin vegum.  Ferðalögin hafa aukið víðsýni mína og skilning á mismunandi stöðu fólks milli landa. Þátttaka í verkalýðsbaráttu á yngri árum var þónokkur og  um tíma var ég formaður deildar innan VR og í nokkrum samninganefndum um kaup og kjör. Með þátttöku í tveimur kvenfélögum næ ég að sinna góðgerðamálum;  í öðru þeirra er ég í nefndarstarfi og hinu í stjórn. Auk þess er ég meðlimur og varamaður í nokkrum áhugafélögum. Áhugamálin eru mörg, en þau almennu eru útivera, afþreying og menning af ýmsum toga.

 

Ritstjórn febrúar 28, 2020 13:58