Magnús Pétursson hætti sem ríkissáttasemjari um mánaðamótin og gekk út í frjálsræðið sem fylgir því að sinna ekki lengur launuðu starfi. Það var Bryndís Hlöðversdóttir sem tók við af honum. Magnús á að baki langan og farsælan feril. Áður en hann tók við starfi ríkissáttasemjara var hann meðal annars forstjóri Landsspítalans og ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.
Var staddur í Stjörnublikki
Þegar blaðamaður Lifðu núna náði tali af Magnúsi í dag sagðist hann vera að brasa í að koma sér upp útisturtu í sumarbústaðnum og vera staddur í Stjörnublikki í Kópavogi. „Það eru allir hér að spyrja mig um samningana, hvernig gangi og hverjir séu að fara í verkfall“ segir hann. Hann segir að ýmis verkefni hafi setið á hakanum á meðan hann var í fullu starfi og nú sé hann að sinna þeim.
Á hestbak eftir hádegi
Magnús sagðist svo ætla að fara á hestbak í góða veðrinu, eftir hádegið. Hann er með nokkra hesta í Víðidal. Þegar hann var spurður hvort ekki væri gaman að vera kominn á eftirlaun og geta brugðið sér á hestbak í stað þess að karpa við menn við samningaborðið, sagði hann að þetta væri bara annar dagurinn sinn á eftirlaunum. „Þannig að það er ekki mikil reynsla komin á hvernig það er“. Hann sagðist telja að það væri mikilvægt að hafa næg verkefni til að fást við og næsta mál á dagskrá væri að fara í sumarbústaðinn norður í Skagafirði.