Er bara einn öldungur á Íslandi?!

Viðar Eggertsson leikstjóri og öldungur skrifar.

 

Að ljúka störfum á vinnumarkaði kallar á ýmsar vangaveltur um framtíðina.

Hvað ætla ég að gera við allan þennan frítíma sem ég mun eiga? Hvað langar mig til að verða þegar ég hætti formlega störfum? Og ekki síst: Hvað á ég að kalla mig þegar ég er ekki lengur starfið mitt?

Flest okkar höfum menntað okkur til ákveðinna starfa. Sú menntun hverfur ekki þó við hættum á vinnumarkaði. Við hættum ekki að vera smiður, kennari, líffræðingur, ljósmóðir, ef það eru t.d. störfin sem við menntuðum okkur til. Við erum bara ekki lengur að vinna við það baki brotnu. Við nefnilega ráðum okkur sjálf og getum fengist við það sem okkur langar, þó yfirleitt fáumst við áfram við eitthvað sem tengist menntun okkar og sérþekkingu.

Við ráðum líka sjálf hvernig við skilgreinum okkur og það er alveg óþarfi að hætta að skilgreina okkur samkvæmt því starfi eða iðn sem við menntuðum okkur til. Kunnáttan og þess vegna ástríðan hverfur ekkert endilega þó við hættum að puða við starfið daginn út og inn.

Vissulega er það breyting að hætta á vinnumarkaði og fara jafnvel í fullt starf sem…? Sem hvað?, spyrja sig margir.

Ég stóð á þessum tímamótum fyrir rúmu ári. Því ég ákvað að hætta þá í föstu starfi þegar ég varð sjötugur. Síðan hef ég velt fyrir mér hver ég er, hver ég er orðinn og ekki síst: Hvað vil ég kalla mig í samfélagi sem starfsgrein er mikilvæg skilgreining á hvað hver og einn er.

Vissulega hafa ýmsir merkimiðar verið settir á fólk sem er komið á eftirlaun. Vinsælast hefur verið starfsheitið „eldri borgari“. Fjölmörg félög sem kennd eru við „eldri borgara“ spruttu eins og gorkúlur vítt og breitt um allt land síðustu áratugina. Þau eru víst orðin 56 félög eldri borgara um allt land með yfir 36.000 félagsmönnum og flest heita þau „Félag eldri borgara…“

Í seinni tíð hefur fólk farið að efast um þennan titil á einstaklingum: „Eldri borgari“. Enda óþjálft og ekkert sérstaklega aðlaðandi. Eldra fólk hefur sjálft haft frumkvæði að því að þessi hópur þjóðfélagsþegna sé kallaður, þegar þarf að nefna hann sérstaklega, „Eldra fólk“. Stjórnmálafólk og aðrir í opinberri stjórnsýslu eru líka farnir að kalla þennan þjóðfélagshóp „Eldra fólk“!

Það er bara ágætt… fyrir þau. En ekki get ég kallað sjálfan mig, einan og sér, „Eldra fólk“!

„Þarna er efinn“, sagði Hamlet forðum þegar hann velti fyrir sér tilvist sinni á heimspekilegum nótum. Ég fór að taka undir með Hamlet þegar ég hætti föstu starfi á vinnumarkaði. „Hver er ég“?, spurði ég sjálfan mig aftur og aftur og aftur. Já, þið munið að ég var hættur á vinnumarkaði og var kominn í svona „tilvistarkrísu“ eins og hendir oft unglinga – og Hamlet og eldra fólk!

Eftir rúmt ár komst ég loks að niðurstöðu. Ekki seinna vænna fyrir mann sem situr í öldungaráði Reykjavíkurborgar fyrir hönd U3A-Reykjavík sem skilgreinir sig sem Háskóla 3ja æviskeiðsins. Sit þar sem „öldungur“ ásamt tveimur öðrum „öldungum“. Okkur er treyst til að hafa innsýn og þekkingu á málefnum og hagsmunum eldri borgara, eldra fólks, allra öldunga í borginni.

Þarna kom það! Ég er ÖLDUNGUR. Fallegt orð sem tengist aldri og visku í gegnum aldirnar. Vissulega hef ég aldurinn þó viskan sé nú svona og svona.

Fyrst niðurstaða var komin og ég nokkuð ánægður með hana þá dreif ég mig í að fara á ja.is til að breyta starfsheiti mínu. Það er nefnilega hægt að breyta skráningu sinni á vefnum ja.is. Ég skráði mig: „leikstjóri og öldungur“.

Kerfið hikstaði aðeins og lét vita að þetta myndi ekki ganga, það væri eitthvað óvenjulegt við þessa skráningu og það þyrfti lifandi manneskja að yfirfara þessa skráningu til að hún hlyti samþykki.

Það er svosem alveg skiljanlegt að ja.is myndi hiksta ef einhver útí bæ myndi skrá sig t.d. sem „hóra“ eða „forsætisráðherra“! En er „öldungur“ vikilega annað hvort dónalegt eða óviðeigandi?

En ég þurfti ekki að bíða lengur en til næsta virka dags til að sjá að nýja skráningin mín hafði verið samþykkt! Ég fór að skoða vefinn ja.is og prófaði að seja inn orðið „öldungur“.

Þá kom í ljós að ég var eini öldungurinn á Íslandi! Ótrúlegt en satt, miðað við símaskrána ja.is.

Þið þarna ca 54.000 öldungar þarna úti, skráið ykkur strax svo það sé ekki bara einn öldungur á Íslandi.