Er enn að skapa ný ævintýri

Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur, fyrirlesari og aðstoðarfararstjóri hjá Skotgöngu á að baki fjölbreyttan starfsferil og hefur aldrei hikað við að gera breytingar, jafnvel róttækar breytingar, á lífi sínu þegar henni hefur fundist þörf fyrir það. Í hennar augum er lífið röð ævintýra þar sem eitthvað nýtt tekur við af því gamla og í stað þess að horfa aftur með eftirsjá er hún þakklát fyrir allt sem henni hefur hlotnast og bjartsýn á það sem koma skal.

Líf þitt hefur sannarlega verið fjölbreytt og þú gengt margvíslegum og við fyrstu sýn mjög ólíkum störfum. Það mætti næstum segja að þú hafir lifað mörgum lífum.

„Já,“ segir Kristín Linda og hlær. „Uppáhaldsbókin mín þegar ég var barn var langa og mjóa bókin, Ævintýri barnanna. Í henni eru sko mörg ævintýri, ekki bara eitt. Líf mitt er að þróast einmitt þannig, það eru mörg ævintýri en ekki bara eitt. Ég fædd og uppalin á sveitabæ, Hjarðarholti í Fnjóskadal í Þingeyjarsýslu. Það var yndislegt og ég er þakklát fyrir æskuárin mín og góða fjölskyldu. Ég er samt einn af þessum sveitakrökkum sem var í heimavistarskóla. Frá átta til átján ára var ég í heimavist á vetrum og naut því ekki eðlilegs fjölskyldulífs eða hlýju heimilisins. Þetta var almenna staðan á þeim tíma til sveita. Sem sálfræðingur veit ég að þetta hefur haft mótandi áhrif á okkur öll börnin, misalvarleg og mismikil en veruleg. Þessi mótunarár barnsins, grunnskólaárin, fjarri foreldrum, systkinum og heimili, þetta eru örlög sem fæstir sættu sig við í dag. Ég vil taka fram að ég átti ótal góðar stundir á heimavistinni og þoldi þessar óeðlilegu aðstæður bærilega miðað við ýmsa aðra en samt eru áhrifin mótandi.

Ég settist að á Akureyri eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri og tók saman við fyrri manninn minn, Árna, við fundum hvort annað í hesthúsahverfinu. Við bjuggum á Akureyri þar til ég var þrjátíu og fimm ára. Ég vann í banka og sem blaðamaður á Degi. Síðan látum við drauminn rætast um að búa í sveit. Keyptum kúabú í fullum rekstri, Miðhvamm í Aðaldal í Þingeyjarsýslu af alveg óskyldum aðilum. Það var heilmikið verkefni. Við tókum við fimmtíu kúm 1. júlí 1995. Bóndinn var búinn að hengja bláa baggaspotta um hálsinn á þeim og skrifa á plötu nöfn þeirra og númer því hann hafði engan tíma til að kenna okkur allt um fimmtíu kýr, þeirra heilsufar og sérþarfir. Svo stóðu þarna fimm dráttarvélar í röð og við áttum allt í einu einhver tún sem þurfti að fara að slá. Ég kom beint af skrifstofunni á Akureyri og í þetta.“

Kristín Linda hefur flutt ótal fyrirlestra og kennt námskeið bæði fyrir hópa og fyrirtæki.

Skyndilegt dauðsfall kveikti löngun til að læra sálfræði

Mörgum hefði hrosið hugur við að taka að sér svo viðamikið verkefni og stökkva svona beint út í djúpu laugina en Kristín Linda synti strax af stað.

„En ég er alin upp í sveit svo ég hafði ákveðinn grunn. Við eignuðumst frábæra nágranna og þó það sér afar krefjandi að vera bóndi fannst mér ég algjör drottning í ríki mínu, þetta var magnað ævintýri. Við bjuggum í Miðhvammi í fimmtán ár. Það er mjög fjölbreytt starf að vera bóndi í nútímasamfélagi. Bændur starfa sjálfstætt og reka eigið fyrirtæki. Þeir þurfa að vera ótrúlega fjölhæfir og góðir í bókhaldi, samningagerð, alls konar skýrslugerð og dýrahjúkrun, flinkir í að meta þroska túngrasa, meta þurrkstig á heyi og kunna að hugsa ekki bara um dýr heldur líka vélar og tæk, geta fundið út hvað er að dráttarvélinni ef hún bilar, hvort Skjalda sé að beiða og hvaða hrút á að velja á hverja kind.

Lífið kastar svo stundum í fangið á okkur verkefnum sem við óskum alls ekki eftir en koma og breyta okkur. Skyndilegt dauðsfall, bílslys þar sem einstaklingur í fjölskyldu minni lést fyrirvaralaust, varð til þess að ég fór að hugsa stíft um að klára nám í sálfræði og fara að vinna sem sálfræðingur við að hjálpa fólki. Fyrst eftir  slysið  hugsaði ég ekki beint á þeim nótum en svo kom næsti vetur og þá sótti þetta á mig. Ég fékk einhverskonar köllun, ég vildi nýta ævidagana mína til að hjálpa fólki að bæta líðan sína, lífsgæði, heilsu og hamingju og geta gert það á faglegan og vandaðan hátt. Það var komið sálfræðinám í Háskólanum á Akureyri og ég fór að keyra á milli og taka kúrsa. Þetta og ýmsar fleiri breytingar á lífsins vegi leiddu smám saman til þess að við hjónin, seldum Miðhvamm og skildum í kjölfarið eftir þrjátíu ár og þrjá syni. Ég er bara mjög þakklát fyrir allt það tímabil. Við vorum á kafi í hestum og gerðum margt skemmtilegt saman og eigum þessa frábæru stráka sem í dag eru fullorðnir menn sem gaman er að fylgjast með. Ég hélt suður til Reykjavíkur og hóf að vinna sem sálfræðingur. Nú er ég komin yfir sextugt og búin að reka mína sálfræðistofu í tæp fimmtán ár, einstakingsviðtöl og meðferðir, fyrirlestrar, fundir, fræðslur og námskeið og er afar þakklát lífinu fyrir þann farveg.“

Hér er Kristín Linda fyrir utan Jane Austen safnið í Bath í Englandi en þangað fara hún og Inga Geirsdóttir hjá Skotgöngu í magnaðar ferðir í fótspor Jane Austen.

Uppbyggjandi kvennaferðir

Sálfræðistofan heitir Huglind og starfar í dag bæði í Reykjavík og á Selfossi. Kristín Linda segist njóta þess að hitta fólk í einkaviðtölum en ekki síður að halda fyrirlestra og námskeið og þar á meðal erlendis. Þar vísar hún bæði til starfsmannaferða og kvennaferða með ferðaskrifstofunni Skotgöngu sem hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár.

„Það er eitt ævintýrið sem bankaði á dyrnar hjá mér. Ég hitti fyrir tilviljun Ingu Geirsdóttur. Hún er að austan en býr í Skotlandi og er fararstjóri og ferðaskipuleggjandi hjá Skotgöngu. Við vorum sammála um að þó mikið væri i boði af ferðum erlendis fyrir fólk til að byggja sig upp með allskonar hreyfingu vantaði ferðir til endurskoða lífsgæðin, gildi sín og stefnuskrá og byggja upp eigin heilsu sálrænt og félagslega.“ Okkur talaðist til um það væri spennandi að bjóða upp á ferðir sem væru blanda af útivist og hreyfingu sem Inga sér um og alvöru sálfræðilegri fræðslu um líðan, lífsgæði, heilsu og hamingju. Núna hafa hundruð kvenna farið í slíkar vikuferðir með okkur og sumar komið aftur og aftur sem eru bestu meðmælin. Eins hafa vinnustaðir leitað til okkar, við vorum til dæmis með fræðsluferð til Albír á Spáni fyrir yfir hundrað manns úr skólum á Norðurlandi í júní. Við höfum verið bæði á Albir og Tenerife, næsta ferð er kvennaferð til norður Tenerife í nóvember. Konurnar í kvennaferðirnar skrá sig sem einstaklinga eða vinkonur, þær koma alls staðar að af landinu. Njóta þess að vera á fyrirlestrum hjá mér á morgnana og í útivist með Ingu eftir hádegið. Nýjasta ævintýri okkar í þessu er að við fórum með fyrsta hópinn okkar til Bretlands í maí í fótspor Jane Austin, hins klassíska þekkta rithöfundar. Vá, hvað það var magnað ævintýri, ótrúlega heillandi og skemmtilegt, nú þegar er fjöldi kvenna búinn að skrá sig í Jane Austen ferðina okkar á næsta ári.“

Kristín Linda segir mikilvægt fyrir alla að eiga skapandi og skemmtilegt áhugamál. Fyrir nokkrum árum fór hún á námskeið í olíumálun hjá Þuríði Sigurðardóttur og hefur síðan tekið þátt í þremur myndlistarsýningum. Hér er hún við opnum einkasýningar á Bláu könnunni á Akureyri.

Fyrsta konan til að leiða félag kúabænda

Auk þess að kenna í þessum ferðum hefur Kristín Linda flutt fjölda fyrirlestra og haldið námskeið fyrir fyrirtæki og hópa. Eitt af lífsævintýrum Kristínar Lindu var að ritstýra tímariti Kvenfélagasambands Íslands, Húsfeyjunni, sem hún gerði í tæp tuttugu ár. Undir hennar stjórn naut það mikilla vinsælda og hún hafði ákaflega gaman af því starfi. En er það misminni eða var hún einhvern tíma í pólitík?

„Þegar ég var bóndi kom það mér mjög á óvart þegar ég mætti í fyrsta sinn á búnaðarfélagsfund í sveitinni, við mættum að sjálfsögðu bæði, ég og minn maður enda bæði í fullri vinnu sem bændur við búið, það hafði ekki gerst áður þarna árið 1995 að tveir jafngildir mættu frá sama búi. Fram að því hafði bara einn komið, oftast karlinn frá hverjum bæ. Konur komu ef þær stóðu einar fyrir búum sínum eða ef karlinn vann við annað og þær því aðalrekstraraðilinn. Það var ein önnur kona á fundinum. Það þurfti að breyta lögum félagsins til þess að við hefðum bæði atkvæðisrétt og það var bara gert í hvelli. Þeir tóku mér mjög vel, karlarnir, en eigi að síður voru það á þessum árum karlar sem leiddu í hagsmunagæslu og félagsmál bænda. Mér fannst skrýtið að það þótti nýlunda að konur sem störfuðu sem bændur væru að taka þátt í málefnum bænda. Ég var alin upp við og vön að vera virk og taka þátt og eitt leiddi af öðru. Ég var fyrst kvenna til að vera formaður kúabændafélags þegar ég varð formaður Kúabændafélags Þingeyinga og var svo kjörin í stjórn Landssambands kúabænda. Var þar eina konan í sjö manna stjórn í nokkur ár og sat á Búnaðarþingi en þar voru konur þá í miklum minnihluta. Núna er þetta breytt og konur axla ábyrgð í stjórnunarstörfum í landbúnaði ekkert síður en karlar.

Þetta varð til þess að ég fór að beita mér á fleiri sviðum. Ég vildi berjast fyrir sveitir landsins, málefni bænda og matvælaöryggi landsmanna. Mér fannst líka mikilvægt að menn áttuðu sig á að bændur eru bestu gæslumenn landsins. Því tók ég þátt í pólitísku starfi þegar það bauðst og var tvisvar á lista í framboði til Alþingis. Það var áhugavert en ég áttaði mig á því hversu ótrúlega erfitt það er að starfa í pólitík og valdi frekar þá leið að starfa sem sálfræðingur og hjálpa fólki þannig.“

Á góðum degi með sonum sínum þremur, f.v. Jón Fjalar, Ástþór Örn og Halldór Logi, myndin er tekin í Bótinni í Grindavík.

Bjó í Grindavík þegar ósköpin hófust

Kristín Linda var tiltölulega ný flutt til Grindavíkur og búin að koma sér þar fyrir þegar ósköpin dundu þar yfir. Hvernig kom það til?

„Eftir að ég skildi og flutti til Reykjavíkur var ég alveg makalaus,“ segir hún og skellihlær. „Eða ég hafði  sem sagt verið án maka í nokkur ár. Svo hugsaði ég með mér; þetta er nú ekki skynsamlegt. Það er gaman að gefa sjálfum sér kost á því að eignast annan maka fyrir seinni hálfleik lífsins. Svo ég opnaði á það og kynntist í framhaldinu seinni manni mínum, Jens Sigurðsyni yfirvélstjóra á Sighvati GK 57 frá Grindavík sem er Grindvíkingur í húð og hár. Þegar við Jens vorum búin að ganga hlið við hlið í svona þrjú ár ákváðum við að það væri skynsamlegt og gott fyrir okkur að deila saman heimili. Við keyptum okkur hús í Grindavík og ég var búin að búa þar í rúm tvö ár þegar ósköpin dundu yfir 10. nóvember og allir urðu að flýja Grindavík.“

Þið, eins og aðrir í sömu stöðu, hafið þá staðið frammi fyrir því að finna ykkur nýjan samastað. Hvar settust þið að og hvers vegna varð sá staður fyrir valinu?

„Við keyptum á Selfossi, það var útlokunaraðferðin sem notuð var til að komast að þeirri niðurstöðu. Það var eiginlega Jens, Grindvíkingurinn, sem kvað upp úr með það að fyrst hann gæti ekki verið í Grindavík fyndist honum engin sérstök ástæða til að setjast að á Reykjanesi. Bæði út af því að við vorum búin að ganga í gegnum alveg nóg af jarðskjálftum og þessi vá væri þá áfram svo nærri. Við vorum sammála um að við vildum vera utan við höfuðborgarsvæðið og horfðum á Akranes, Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfoss. Svo frétti ég að það vantaði sálfræðing á Selfossi, enda er það ört vaxandi bæjarfélag sem þjónustar sveitirnar í kring. Mér fannst líka allt grænt og hlýlegt á Selfossi og sveitastelpan í mér hugsaði bara, já. Það er mikill léttir að vera búin að taka ákvörðun og að virkilega leyfa sér að byggja upp líf sitt þar.“

Kristín Linda er sveitastelpa sem elskar útivist og finnst endurnærandi að grípa hjólið í lok dags, myndin er tekin á Hópsnesinu í Grindavík.

Leyfum okkur að stíga inn í nýjan kafla

„Sem sálfræðingur vona ég að sem flestir Grindvíkingar nái að virkilega leyfa sér að koma sér fyrir í nýjum samfélögum, bæjarfélögum og stöðum,“ heldur hún áfram. „Leyfi sér að stíga inn í nýjan kafla í lífinu. Það er átak, og því átakanlegt, en líka svo miklvægt og farsælt þegar fólk þarf að fara nauðugt að gefa sér virkilega af heilum hug leyfi til að byggja upp nýja tilveru og öðlast sátt, þrátt fyrir allt. Að taka upp ný kynni og ganga inn í samfélagið á nýja staðnum í stað þess að alltaf sé stutt í þá hugsun að maður sé einhvern veginn tímabundinn gestur, aðkomumaður, neyðist til að vera hérna og hafi hrakist á þennan stað. Ég vona af öllu hjarta að sem flestir Grindvíkingar nái að jafna sig á og hefja sig yfir tapið, erfiðleikana, átökin og áfallið, þó það sé svo stórt! Að þeir nái að tala sjálfa sig til og nái sem fyrst sátt með sjálfum sér því lífið er svo dýrmætt, hver dagur er svo dýrmætur og tímalína ævinnar líður.

Núna eru Grindvíkingar víðsvegar að fara inn í vetur á nýjum stað. Ég vil þess vegna hvetja fólk þar sem Grindvíkingar eru að koma sér fyrir, vegmóðir eftir atburði síðustu mánaða, að rétta þeim vinarhönd. Virkilega opna dyrnar, styðja þá og hvetja í að ná nýrri fótfestu og njóta sín í nýju samfélagi. Það var til dæmis ótrúlega dýrmætt fyrir mig þegar ég, þrjátíu og fimm ára, flutti í Aðaldal að fá upphringingu um haustið. Í símanum var Matthildur í Presthvammi. Hún sagði: „Sæl og blessuð Kristín Linda, ég frétti að þú værir nýflutt í sveitina. Ég ætla að segja þér að það er kvenfélagsfundur í næstu viku, ég tek þig með.“ Kvenfélagið í sveitinni var mjög öflugt og skemmtilegt að vera í því.“

Höfum val um viðhorf

Nú skilur þar á milli ævintýranna í bókinni þinni þegar þú varst barn að þar var alltaf endir, köttur úti í mýri setti upp á sig stýri, en fólk upplifir ekki alltaf jafn skýr endalok í lífinu. Það er þess vegna misauðvelt að sleppa, sálfræðingar eru gjarnan í því hlutverki að hjálpa fólki að sleppa, ekki satt?

„Jú, það er alveg rétt,“ segir hún. „Síðast í dag kom til mín einstaklingur vegna þess að hann hafði eftir ýmsa neikvæða atburði ákveðið að yfirgefa vinnustað sem hann hafði verið ánægður á. Hann er að ganga inn á nýjan vinnustað og þarf að finna leið til að sleppa og njóta sín á nýja staðnum. Þetta er eitthvað sem fólk gerir misoft í lífinu. Þegar við þurfum að fara frá einhverju og sleppa því þá er dýrmætt að átta sig á að það er erfitt vegna þess að það var gott, að það var mikil gjöf. Það er erfitt fyrir þá sem bjuggu í Grindavík að fara þaðan því það var mikið lán og gæfa í lífinu að búa þar. Það er dýrmætt að gleðjast yfir því og sjálfsagt að hafa skemmtilegar myndir upp á vegg úr Grindavík ef það er til að gleðjast yfir þeim en ekki ef tilgangurinn er að halda í missinn og gráta yfir því að maður sé þar ekki lengur. Það er uppbygging að lyfta því á stall hvað þessi kafli í lífinu var góður og finna til þakklætis en afar miklvægt að forðast að varpa skugga á það góða sem var með því að baða það til lengri tíma upp úr missi, reiði og eftirsjá. Þarna munar um viðhorfið. Ævintýri lífsins eru allskonar, sum höldum við út í sjálfviljug en öðrum er kastað yfir okkur allt í einu einn föstudaginn og við viljum þau alls ekki! Lífsdansinn er sannarlega krefjandi en líka mjög heillandi. Ég vil endilega nýta tækifæri hér að lokum til að hvetja alla til að leita sér hjálpar fagfólks, sálfræðinga eða annarra sérfræðinga ef dagarnir eru of erfiðir og gráir,“ segir hún.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 29, 2024 08:37