„Gráum“ skilnuðum fer fjölgandi

Um leið og skilnuðum fólks sem farið er að grána fjölgar í Bandaríkjunum, fjölgar að sama skapi rannsóknum sem skoða hvaða áhrif skilnaðir hafa á uppkomin börn hjóna. Í Bandaríkjunum hefur verið búið til sérstakt hugtak og skammstöfun yfir þessi uppkomnu skilnaðarbörn, adult children of divorve eða ACOD. Ný Hollyvoodkvikmynd ber þessa sömu skammstöfun. Þetta er grínmynd en tekur samt á málinu. Um þetta mál er fjallað á bandaríska vefnum aarp.com. Lifðu núna endursagði greinina og stytti örlítið.

Börnin kenna sér um skilnaðinn

Galena Rhoades, prófessor við háskólann Í Denver hefur gert úttekt á niðurstöðum rannsókna margra félagsvísindamanna sem benda til þess að „grár skilnaður“ geti komið uppkomnum börnum verulega á óvart, ekki síst ef skilnaðurinn er átakalaus. „Oft snúast skilnaðir eldra fólks ekkert um átök heldur um sambandsleysi,“ segir Galena og bætir við að parið eigi þá ekkert sameiginlegt lengur. Uppkomin börn sem flutt eru að heiman kenna  sjálfum sér oft um skilnað foreldranna og trúa því að foreldrarnir hafi eingöngu hangið saman fyrir þau. Brotthvarf þeirra af heimilinu hafi svo valdið skilnaðinum. Foreldrar ættu að fullvissa börnin um að svo sé ekki ráðleggur prófessorinn. Þegar átök valda skilnaði verða foreldar að reyna að forðast það að uppkomið barn verði það sem Galena kallar „foreldravætt barn.“  Þá á hún við uppkomið barn sem gengur inn í hlutverk einhvers konar aðstoðarmanns hins fráskilda foreldris. Galena hefur komist að því að börn hvetja oft foreldrana til leita stuðnings hjá sér, jafnvel tilfinningalega, sem hún segir vera algjörlega óviðeigandi hlutverk fyrir þau.

Reyna að ná hylli barnanna

Þá er það vel þekkt að foreldrar reyna að ná hylli barnanna og reyna að snúa þeim gegn hinu foreldrinu. „Börn sem vilja ekki láta setja sig í þá stöðu hætta oft að eiga samskipti við foreldra sína“, segir Galena. „Þau hætta að hringja, senda skilaboð eða póst til beggja foreldra. Þau hreinlega hætta að segja frá því sem er að gerast í  lífi þeirra.“ Að mati prófessorsins er það slæmt. Algengt er að eldra fólk skilji eimmitt á sama tíma og uppkomin börn þeirra eru að mynda sín eigin sambönd segir sálfræðingurinn, Elizabet Thayer en hún hefur skrifað fjölmargar bækur um hjónaskilnaði. „Reynslan af skilnaði foreldranna getur skert getu þessa unga fólks til að taka ákvarðanir um það samband sem þau eru að hefja“ segir hún og bætir við að þau gætu lent í samböndum sem þau eyðileggja ómeðvitað. Hvað geta svo foreldrar gert til að draga úr skaða sem skilnaður þeirra getur valdið? „Það mikilvægasta“, segir Thayer „er að muna að þó hjónabandið sé fyrir bí er fjölskyldan enn til staðar. Foreldrar verða að viðhalda sambandi við börn sín, og vera kurteis hvort við annað, alveg óháð aldri barnanna“.

Skilnaður í bróðerni

„Í lífi uppkominna barna eru giftingar, útskriftir, fæðingar barna og aðrir stórir viðburðir og þá þurfa börnin á því að halda að foreldrar þeirra séu í lagi,“ bætir hún við. „Þessir viðburðir eiga ekki að snúast um foreldrana og þeirra skilnað heldur um fagnaðarefni barna þeirra“. Thayer hjálpar oft fólki sem er skilja í bróðerni. Hún segir að jafnvel þó skilnaður fari fram í mestu vinsemd sé skilnaður ávallt tilfinningalega erfiður. Hún mælir með því að fólk komi sér upp stuðningsneti svo það þurfi ekki að leita til barna sinna til að uppfylla tilfinnagalegar þarfir sínar. „Foreldrar ættu að vinna saman að því að búa til nýjar hefðir sem snúa að fríum og ferðalögum á sama tíma og þau stofna ný heimili og reyna þannig að koma í veg fyrir að börnin upplifi togstreitu“, segir hún. Markmiðið er að viðhalda fjölskyldueiningunni og að hjálpa börnunum að komast eins auðveldlega í gengum þennan tíma og hægt er.

Ritstjórn mars 11, 2016 15:37