Er hægt að þyngjast af sódavatni?

Flestir vita að sykraðir gosdrykkir eru ekki heilsusamlegir, margir drekka því þess í stað kolsýrt vatn í þeirri góðu trú að það sé hollari kostur. Ýmsar vísbendingar eru þó að koma í ljós þess efnis að kolsýrða vatnið sé ekki sú hollustuvara sem talið var. Ástæðan er sú að það er talið auka hungurtilfinningu sem leiðir til þess að fólk borðar meira og þyngist í kjölfarið. Á vefnum aarp.org er sagt frá nýlegum rannsóknum á rottum sem gerðar voru við háskólann í Birzeit. Þar var kannað hvort að neysla á kolsýrðu vatni leiddi til þyngdaraukningar. Rannsóknin var of lítil til að hægt sé að alhæfa útfrá henni en í ljós kom að rotturnar sem látnar voru drekka kolsýrt vatn voru með hærra hlutfall ghrelin hormóna en rottur sem drukku kranavatn. Ghrelin hormónið er eitt þeirra hormóna sem stjórnar hungurtilfinningu. Rotturnar sem fengu kolsýrða vatnið  átu mun meira en hinar og þyngdust hratt.

Þetta eru einungis vísbendingar en eitt vita menn þó og það er að kolsýrt vatn hefur mjög slæm áhrif á tannheilsu. Þar sem það mýkir og eyðir glerungi tannanna. Ein og ein flaska af kolsýrðu vatni er þó ekki talin skaðleg það er hins vegar hættulegt tannheilsunni ef fólk þambar kolsýrt vatn allan daginn. Þá eru tennurnar í stöðugu sýrubaði. Mark Wolff prófessor við New York University‘s College of Dentistry segir að fólk eigi að bursta í sér tennurnar eftir að hafa drukkuð kolsýrt vatn. „Það á samt ekki að bursta um leið og síðasta sopanum hefur verið kyngt heldur á að leifa glerungnum á tönnunum að jafna sig í svolitla stund áður en burstað er. Annars er lang best og heilsusamlegast að drekka blávatn ef fólki finnst það vont getur það bragðbætt það sem ávöxtum eða grænmeti,“ segir Wolff.

Ritstjórn ágúst 31, 2017 13:15