„Er útlagi í öðru landi og kemst ekki heim“

Enn er víða pottur brotinn í húsnæðismálum aldraðra. Íslensk kona sem flutti til Danmerkur fyrir sex árum til að vera nálægt afkomendum sínum skrifaði Lifðu núna og rakti eftirfarandi hrakfallasögu sína af tilraunum til að komast aftur inn á húsnæðismarkaðinn á Íslandi.

„Ég er 73 ára á íslenskum eftirlaunum og flutti til Danmerkur í janúar 2016. Mín ástæða var að njóta samveru með dóttur minni og barnabörnum sem hafa menntað sig og búið í Danmörku í 20 ár. Bý hér í leiguhúsnæði. Nú hef ég síðan í september 2021 reynt að komast heim aftur en mér er það gjörsamlega ómögulegt þar sem leiguverð á Íslandi er ofar skýjum. Ég ætla ekki í nein smáatriði hér en er ykkur kunnugt um að Íslendingar sem búa í útlöndum geta ekki sótt um félagslegt húsnæði á Īslandi nema að hafa/ eiga lögheimili á Íslandi í svo og svo langan tíma áður en réttur verður til?“

Konan segist hafa búið og starfað alla sína ævi á Íslandi fyrir utan þessi sex síðastliðin ár. Hún segist borga skatta og skyldur bæði á Íslandi og í Danmörku og útsvar hennar gangi til þess sveitarfélags á Íslandi sem hún bjó í fyrir flutninginn til Danmerkur. Hún hafi aldrei áður sótt um félagslegt húsnæði, en aðstæður hennar nú valdi því að hún sjái ekki annan kost. Það séu því mikil vonbrigði að vera sagt að hún sé útilokuð frá því að geta nýtt sér hann.

„Réttur þinn er enginn“

Konan sótti semsagt um að fá úthlutað félagslegri íbúð í bænum þar sem hún hafði borgað sitt útsvar í áraraðir áður en hún flutti út. „Ég lagði mikla vinnu í [umsóknina] með aðstoð fagfólks en svarið var: Nei! Þú átt ekki lögheimili á Íslandi og þess vegna er réttur þinn enginn. Sem sagt: Ég er útlagi í öðru landi og kemst ekki heim,“ skrifar konan og bætir við að hún sé ábyggilega ekki ein um að hafa lent í einhverju svipuðu. Eins og kunnugt er flyst lögheimili manns sjálfkrafa með þegar flutt er milli landa innan Norðurlandanna, og óheimilt er að hafa skráð lögheimili í fleiri en einu landi í einu.

Hún segir megintilganginn með því að segja þessa sögu sína vera þann að vekja athygli á óréttlátu kerfi og sýna fram á „hvernig kerfið á Íslandi er gagnvart þeim sem hafa leyft sér að flytja frá landinu góða í nokkur ár.“ Hún eigi „margar blaðsíður af samskiptum við umrætt bæjarfélag, sem tóku mikið á.“ Hún vonist til að það hreyfi kannski við einhverju að vekja athygli á þessu sem hún upplifir sem mikið óréttlæti.

Var vísað á úrskurðarnefnd en gafst upp

Hún segir að mál hennar hafi verið tekið fyrir hjá a.m.k. tveimur mismunandi nefndum hjá bæjarfélaginu, annarri skipaðri starfsfólki félagsþjónustu og hin var skipuð pólitískt kjörnum fulltrúum. „Ég fékk á tilfinninguna að ekki hafi nú verið lesið vel í gegnum skjölin frá mér því aldrei kom rökstuðningur frá nefndinni, heldur aðeins vitnað í lög og reglugerðir,“ segir hún. Sér hafi svo verið vísað áfram til Úrskurðarnefndar velferðarmála til að láta reyna á málið þar. En þá hafi hún gefist upp fyrir vindmyllum Kerfisins.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn febrúar 9, 2022 08:03