Þráinn Þorvaldsson skrifar
Nýyrðin eru mörg sem við þurfum að læra og tileinka okkur í þjóðfélagi sem er í hraðri þróun ekki síst tæknilega. Fyrir skömmu lærði ég nýtt orð og hugtak, áhrifavaldur. Hvað er áhrifavaldur? Í hádegisútvarpi RUV 18. júní 2021 fjallaði Atli Fannar Bjarnason um lagalegu hlið áhrifavalda og spyr hvort við séum ekki öll áhrifavaldar skv. lögum. Hann sagði fyrstu heimildir um notkun orðsins „áhrifavaldur“ í íslenskum fjölmiðlum vera frá 1930 í tímaritinu Iðunni. Þá hafi verið talað um áhrifavalda í lífi fólks en ekki að viðkomandi áhrifavaldur hafi reynt að selja öðrum vörur og þjónustu í krafti vinsælda sinna.
Nú er áhrifavaldur skilgreindur sem einstaklingur með mikið fylgi á samfélagsmiðlum sem auglýsir vörur og þjónustu fyrirtækja á eigin miðlum gegn greiðslu eða öðrum sérkjörum. Sjálfur hef ég persónulega reynslu af áhrifavöldum í eldri skilningi orðsins sem höfðu varanleg áhrif á líf mitt en þeir reyndu ekki að selja mér vöru eða þjónustu.
Ég er með master próf markaðsfræðum frá háskólanum í Lancaster Bretlandi árið 1974. Eðlilega voru þessir nútíma kynningarmöguleikar áhrifavalda í markaðssetningu ekki hluti af námi mínu. Við komust ekki lengra í tölvufræðum en að fá sýnikennslu í gerð IBM gataspjalda. Hins vegar komu áhrifavaldar til sögu í sálfræðinni sem er mikilvægur hluti markaðsfræðinnar. Ég minnist einnar frásagnar af áhugaverðri rannsókn sem var gerð við bandarískan háskóla um hvernig má hafa áhrif á skoðun á öðru fólki bæði til hins betra og til hins verra. Ég vona að ég munu frásögnina rétt eftir nærri 50 ár en boðskapinn man ég.
Háskólastúdentum var skipt upp í nokkra hópa. Fenginn var ræðumaður til þess að flytja ávarp í öllum hópunum hverjum fyrir sig. Lögð var áhersla á að ávarpið væri eins flutt í öllum hópunum. Fyrir ávarpið var ræðumaður kynntur. Í helmingi hópanna var ræðumaðurinn kynntur sem fyrirmyndarræðumaður og honum hælt í hvert reipi. Í hinum hópunum var ræðumaður kynntur sem lélegur ræðumaður og lítið gefið fyrir mannkosti. Síðan voru stúdentar beðnir um að gefa ræðumanni einkunn fyrir frammistöðuna. Mikill munur var á niðurstöðum. Í hópunum þar sem ræðumaður hafi fengið góða umsögn fékk hann mun betri einkunnir en í þeim hópum sem umsögnin hafi verið slæm.
Ég tel að við séum öll áhrifavaldar í lífinu hvort sem um er að vera menn eða málefni. Ég hef umgengist fólk sem aldrei hallmælir nokkrum manni og dregur aðeins fram það jákvæða í fari annarra og málefna. Ég hef einnig umgengist fólk sem dregur alltaf fram það neikvæða í umsögnum um aðra eða í umræðum um málefni. Slíkt fólk hef ég reynt að forðast. Ég hef staðið sjálfan mig að því að láta þessar neikvæðu skoðanir hafa áhrif á viðhorf mitt til manna og málefna sérstaklega þar sem ég þekki ekki til af eigin raun. Nú á tímum er mun erfiðara að verjast þessum neikvæðu skoðunum en áður var. Fólk á auðveldara með að setja skoðanir sínar fram á mönnum og málefnum fyrir augliti fjöldans. Þeir sem sem birta slík ummæli hafa því mikla ábyrgð. Áður var það meira maður á mann og orðrómur.
Við virðumst líka oft hafa meiri tilhneigingu til þess að draga fram og hafa meiri skemmtan af því að heyra hið neikvæða en því jákvæða. Fyrr á árum var ég stundum beðinn um að vera veislustjóri hjá fjölskyldufólki, vinum, félögum og fyrirtækjum þar sem ég starfaði. Þar sem oft var sama fólkið á þessum samkomum varð ég að koma með ný gamanmál. Ég kom mér upp safni bóka með gamansögum og skráði hjá mér skemmtisögur sem ég heyrði og aðlagaði svo að viðkomandi aðstæðum. Þegar internetið kom til sögunnar varð leitin mun auðveldari. Ég leitaði frekar að jákvæðum gamansögum. Í þessari leit minni komst ég að því að mun fleiri gamansögur snúast um að skemmta á kostnað einhverra. Ég ályktaði án vísindalegrar skoðunar að minnst 60 til 70% af gamansögum væru neikvæðar. Því hafði ég töluvert fyrir því að finna nýjar jákvæðar gamansögur til notkunar í veislustjórn. Mér til ánægju uppskar ég samt jafnan góðan hlátur sem er jú m.a. tilgangur með veislustjórn.
En þar eru fleiri hliðar á áhrifum áhrifavalda sem ég hef velt fyrir mér. Áhrifavaldar geta sært tilfinningar annarra. Fyrir 6 árum í október 2016 skrifaði ég pistil í Lifðu núna undir titlinum Rispum ekki rúðurnar https://lifdununa.is/grein/rispum-ekki-rudurnar/.
Niðurstaða mín er því að við erum öll áhrifavaldar í lífinu. Hvort sem um er að ræða talað mál eða ritað fylgir mikil ábyrgð sem getur haft mótandi áhrif á viðhorf annarra til manna og málefna.
Þessi pistill hefur verið heldur í alvarlegri kantinum svo ekki er úr vegi að enda hann á tveimur gamansögum annarri sem er neikvæð og hinni sem er jákvæð.
Neikvæð (frá Írlandi en írsk kímni er oft kaldhæðin): Aldraður eiginmaður lá á dánarbeði. Fjölskyldan samanstóð af hjónum og fimm sonum. Fjórir synirnir voru fríðir sýnum og mannvænlegir bæði til huga og handa. Yngsti sonurinn var hvorki mikið fyrir augað eða andann. „Eitt hefur mig lengi langað til þess að fá staðfest,“ sagði eiginmaðurinn á dánarbeðinu. „Er yngsti sonur okkar í raun sonur minn.“ „Jú, svo sannarlega,“ sagði eiginkonan. Maðurinn gaf upp öndina með bros á vor.“ Þá varð konunni að orði: “Mikið er ég feginn að hann spurði ekki um hvort hann væri faðir hinna fjögurra sonanna.“
Jákvæð: Prestur einn átti fund með biskupi. Prestinum dvaldist í kirkjunni og lagði seint af stað. Svo illa vildi til að á leiðinni varð bifreið hans bensínlaus. Hann var svo heppinn að þar sem bifreiðin stöðvaðist var ekki langt í bensínstöð. Hann hraðaði sér á bensínstöðina og bað um bensínbrúsa að láni til þess að flytja bensín. Afgreiðslumennirnir sögu að því miður hefðu þeir engan brúsa. Þeir væru með tvo brúsa til ráðstöfunar í svona tilvikum og báðir væru í notkun. Hann yrði því að bíða um stund. Nú voru góð ráð dýr en presturinn vildi ekki koma of seint á biskupsfund. Þá mundi hann eftir því að hafa verið að taka til í geymslunni kvöldið áður og hefði ekki losað bílinn við ýmislegt dót í Sorpu m.a. frá æsku barnanna. Hann mundi eftir því að í bílnum var næturgagn (koppur). Hann hljóp því að bílnum, náði í koppinn, fyllti hann af bensíni og fékk lánaða trekt. Síðan hraðaði hann sér aftur að bílnum og helti bensíni úr koppnum á bílinn. Tveir ungir menn úr sókn prestsins óku fram hjá, stöðvuðu bílinn og biðu átekta. Þá varð öðrum ungu manninum að orði: „Að mér heilum og lifandi, ef bíll prestsins fer í gang, skal ég sannarlega sækja messur hjá honum.“