Að vera þekktur af öðrum

Þráinn Þorvaldsson.

Þráinn Þorvaldsson skrifar

„Heitir þú Sæmundur?“ spurði eldri kona mig þar sem ég stóð nýlega í biðröð. „Nei, ég er ekki Sæmi Rokk, ef þú heldur það,“ svaraði ég. „Ertu þá bróðir hans?“ var þá spurt. „Nei, ég er það ekki heldur,“ var svar mitt. Á æfi minni hefur mér oft verið ruglað saman við nokkra aðra einstaklinga. Þessi ruglingur hefur mér þótt skemmtilegur og mér ekki til ama. Merkilegt er hve sumir greina að fólk sé líkt í útliti meðan aðrir sjá engin tengsl.

Þessi vegferð mín hófst í London þegar ég var rúmlega tvítugur. Ég var þá staddur á veitingahúsi þegar tvær stúlkur komu að borðinu mínu og spurðu: „Ert þú skyldur leikaranum Peter Sellers?“ „Af hverju haldið þið það?“ spurði ég. Stúlkurnar sögðu mig vera svo líkan honum. Ég stóðst freistinguna að segja ósatt og lýsa yfir skyldleika við Peter Sellers til þess að njóta frændsemi hans.

Fyrsta starf mitt eftir útskrift úr viðskiptadeild HÍ var í hagdeild Seðlabanka Íslands sem þá var staðsett innan veggja Landsbankans í Austurstræti. Ég starfaði þar stutt og eftir hafa flutt mig tvisvar milli starfa m.a. á Sauðarkrók fór ég í háskólanám í markaðs- og sölufræðum í Bretlandi. Haustið 1974 kom ég heim að loknu námi og hóf störf hjá útflutningsfyrirtæki sem hafði skrifstofu í miðbænum. Þekkt rakarastofa var í Eimskipafélagshúsinu þar sem ég lét klippa mig. Þorsteinn Pálsson var ritstjóri Vísis 1975 til 1979 en órói var á dagblaðamarkaði á þessum tíma. Þegar ég í nokkur skipti á rakarastofunni hafði verið spurður um gang mála á dagblaðamarkaðinum og ég þurft að lýsa því yfir að vera ekki Þorsteinn Pálsson, skipti ég um rakarastofu.

Á ritstjórnarárum Þorsteins Pálssonar á Vísi var ég eitt sinn í eftirmiðdagsboði og átti þá samtal við starfsmannastjóra Seðlabankans sem ég hafði áður átt góð samskipti við. Við ræddum um landsins gagn og nauðsynjar. Eftir að hafa rætt saman góða stund snéri starfsmannastjórinn sér að mér og sagði: „Þorsteinn, ég hef oft velt því fyrir mér hvað það tekur þig langan tíma að skrifa þína ágætu leiðara?“

Ég tók að mér að koma Útflutningsráði Íslands á fót og hóf þar störf árið 1985. Einn af nýjum starfsmönnum var Hafsteinn Vilhelmsson. Sumum fannst við vera líkir. Eitt sinn kom maður á skrifstofuna. Við mættumst og þá segir maðurinn: ,,Hvað, ert þú hér? Ég mætti þér niðri í anddyrinu fyrir nokkrum mínútum.“

Þorsteinn var forsætisráðherra árin 1987 til 1988. Hann og fjölskylda hans bjuggu í næstu götu við fjölskyldu mína í Fossvoginum. Ég var skokkari í mörg ár og leið mín lá jafnan eftir þáverandi malarstígum Fossvogsins. Eitt sinn sá ég fram undan mér hóp ungra manna á stignum. Þegar ég nálgaðist hópinn heyrði ég einn ungu mannanna segja: „Strákar, hleypið forsætisráðherranum fram hjá.“ Ungu mennirnir stóðu síðan heiðursvörð sitt hvorum megin við stiginn meðan „forsætisráðherrann“ hljóp á milli þeirra.

Mér hefur alltaf verið hlýtt til Þorsteins Pálssonar, bæði sem persónu og stjórnmálamanns. Ég er frekar mannglöggur og þegar mér var heilsað í fjarlægð af fólki sem ég þekkti ekki deili á, endurgalt ég alltaf kveðjuna til þess að halda uppi tengslum Þorsteins við kjósendur.

Síðan leið tíminn og ég gerðist grásprengdur í vöngum og við Þorsteinn urðum sundurleitir. Þá kom nýtt tímabil þar sem ég var stundum spurður hvort ég kenndi við Háskóla Íslands. Ég neitaði því. Eftir því sem ég komst næst var mér þá ruglað saman við núverandi prófessor við Viðskiptadeild Háskóla Íslands, Snjólf Ólafsson, en við vorum báðir á þeim tíma grásprengdir í vöngum.

Síðan gerðist ég alveg gráhærður og þá hófst síðasta tímabilið þessa ruglingsins sem stendur enn: „Heitir þú Sæmundur? Nei. Ertu bróðir hans?“

Ég hef ekki spurt þessa heiðursmenn hvort þeir fengju spurningu um hvort þeir hétu Þráinn Þorvaldsson. Mér finnst slík spurning vera oflátungsháttur óþekkts manns. Þegar ég hitti fólk sem ég þekki ekki fyrir, er oft sagt við mig um leið og ég er litinn rannsakandi augum: „Ég þekki þig einhvers staðar frá en man ekki hvaðan.“ Þá er spurningin hvort átt er við Peter Sellers, Þorstein Pálsson, Hafstein Vilhelmsson, Snjólf Ólafsson eða Sæma Rokk Pálsson eins og hann heitir nú. Mér er mikill heiður að vera ruglað saman við þessa öðlings menn. Fjölskyldu minni finnst ég ekki vera líkur þessum einstaklingum. Ég hef í lífshlaupi mínu reynt að haga mér sæmilega í daglegri umgengni við annað fólk svo að ég tel mig ekki hafa komið óorði á þessa heiðursmenn. Þessi ruglingur hefur verið mér skemmtilegt krydd í tilveruna.

Þráinn Þorvaldsson september 27, 2021 07:00