Forstjórinn jafn gamall dóttur minni

Aldurinn skiptir ekki máli, ef þú kannt að vinna með öðrum“. Þetta er haft eftir starfsmanni sem hefur yfirmann sem er mun yngri en hann, á vefsíðu Samtaka bandarískra eftirlaunamanna www.aarp.org. Það færist í vöxt, að fólk frestar töku lífeyris eða vinnur hlutastörf þegar það eldist og þetta hefur í för með sér að margir vinna með yfirmönnum sem eru miklu yngri en þeir. „Forstjórinn er jafngamall dóttur minni“, sagði kona sem rætt var við í könnun á högum eldra fólks á vinnumarkaðinum.

Á aarp síðunni er fjallað um hvernig það er að vinna fyrir yngra fólk og sagt frá 63ja ára gamalli konu sem tók við starfi þróunarstjóra hjá Sinfóníuhljómsveit vestra. Hún hafði engar áhyggjur af því þó yfirmaður hennar væri 10 árum yngri. Hún var orðin vön þessu og í fyrra starfi hafði hún haft yfirmann sem var 20 árum yngri en hún. Hún var beðin um að lýsa því hvernig hún fengi þetta til að ganga upp. „Þetta er spurning um viðhorf“, sagði hún. Aldur skiptir ekki máli ef þú kannt að vinna með öðrum. Þegar menn eldast, þurfa þeir ekki lengur að sanna fyrir umhverfinu að þeir viti allt best og eru farnir að skilja að allir hafa eitthvað fram að færa“.

Ekki jafn erfitt og virðist

Samskipti kynslóðanna skipta meira máli á vinnustöðum í dag, en þau hafa nokkru sinni gert, einkum vegna þess að margir slá því á frest að fara á eftirlaun. Það getur verið erfitt fyrir marga að kyngja því að taka við fyrirskipunum á vinnustað frá fólki sem er á aldur við börnin þeirra. Sumir eldri starfsmenn eru fýldir yfir því að yfirmennirnir ungu, telji sig vita meira en þá sjálfa, sem hafa þekkinguna og reynsluna. En með því að að tileinka sér það viðhorf að þeir geti unnið með yngri yfirmanni og með því að fylgja nokkrum grunnreglum, komast menn oft að raun um að þetta er ekki jafn erfitt og þeir gera sér í hugarlund. Og hér fylgja nokkur ráð og þó þau séu bundin við aðra heimsálfu, má kannski eitthvað af þeim læra.

Breyttu um viðhorf

Menn eiga að vara sig á því að verða þekktir á vinnustaðnum sem íhaldskurfar. Þeir eiga að hlusta á það sem yfirmaðurinn segir og bera virðingu fyrir sérþekkingu hans. „Sýndu að þú sért reiðubúinn að tileinka þér nýjungar“ segir markþjálfi sem rætt er við í greininni. Á meðan þú ert að æsa þig yfir því að yfirmaðurinn meti ekki reynslu þína, getur verið að honum gremjist að þú skulir koma fram við hann – eins og krakka. Það langar engan að vinna með einhverjum sem vísar á bug tillögum og verkefnum.

Temdu þér jákvæðni

Mundu eftir því að það er margt sem þú getur lært af þér yngri yfirmanni. Vertu opinn fyrir því. Spurðu spurninga, vertu forvitin/n, haltu áfram að læra nýja hluti. Áhugi þinn við að tileinka þér nýjar leiðir til að gera hlutina, verður metinn að verðleikum.  Árekstrar sem rekja má til kynslóðamunar geta komið upp í öllum samskiptum. Aðalmálið er að gera sér grein fyrir að menn eru að byggja upp samband þar sem báðir geta náð árangri í vinnunni, er haft eftir öðrum markþjálfa. „Njóttu góðs af orkunni og áhuganum sem fylgja yngri yfirmanni“, segir hann.

Taktu þátt í viðburðum utan vinnunnar

Það er mikilvægt að taka þátt í því sem er að gerast á vinnustaðnum, svo sem sjálfboðaliðastarfi, ferðalögum og skemmtunum með yngri vinnufélögum, þar með talið yfirmanninum. Ef það er í samræmi við stöðu þína í fyrirtækinu, vertu á samfélagsmiðlum sem yfirmaðurinn þinn notar, til dæmis LinkedIn, eða öðrum samskiptahópum sem tengjast atvinnugreininni þar sem þú starfar. Vertu duglegur að deila áhugaverðu efni. Það getur til dæmis verið viðeigandi að senda yfirmanni þínum nýja grein um málefni sem skiptir ykkur í fyrirtækinu miklu.

Breyttu samskiptamátanum

Það er ekki ósennilegt að yngri yfirmaður vilji hafa samskipti við þig í gegnum tölvuskilaboð ýmiss konar og tölvupóst, í stað þess að nota samtöl augliti til auglitis eða síma. Ekki skilja eftir töluð skilaboð í síma, ef þú vilt fá svar strax. Þá er líklegt að fundir sem eru haldnir, séu símafundir eða fundir í gegnum myndvarpa, eða Skype. Kynntu þér þær leiðir sem menn nota til að funda á vefnum, svo sem GoToMeeting og fleiri slík kerfi.

Slepptu aldurstengdum athugasemdum

Forðastu að nefna að eitthvað sem ungi yfirmaðurinn gerir, sé svipað og börnin þín eru vön að gera, eða að nefna hvað þú varst að gera þegar þú varst á sama aldri og hann er núna. „Og ekki nefna hluti eins og að barnabörnin eigi afmæli“, segir í greininni á vef aarp.org. Það er nefnilega það, þetta passar í henni Ameríku!

Ritstjórn apríl 24, 2015 11:30