Tál er síðasta bók Arnaldar Indriðasonar um lögreglumanninn fyrrverandi Konráð Seppason og sú allra besta. Lesendur Arnaldar þekkja Konráð orðið mætavel, bæði bresti . Að þessu sinni njóta sín fyllilega hans bestu eiginleikar, umburðarlyndi, skilningur og samúð með þeim sem minna mega sín.
Þegar kona finnst látin í Austurbæ Reykjavíkur fellur fljótlega grunur á dómara við héraðsdóm. Konan hafði kynlífsþjónustu að atvinnu og maðurinn sást fara inn á heimili hennar kvöldið sem hún lést. Eftir að dómarinn hengir sig í fangaklefa leitar eiginkona hans ásjár Konráðs og biður hann að rannasaka málið.
Arnaldur skapar átakanlega en eftir því sem best verður séð raunsanna mynd af kjörum þeirra sem glíma við fíkn og heimilisleysi. Honum tekst að fjalla um kynbundið ofbeldi án þess að falla í þá gryfju að gera karlmennina sem beita því að algjörum skrímslum, engu að síður er erfitt að skilja slíka menn eða finna til samúðar með þeim. Algjört skilningaleysi þeirra á líðan og aðstæðum þeirra sem þeir níðast á er skerandi. Þeir svífast í raun einskis en eru einmana og ófærir um að mynda heilbrigð tengsl eða skilja raunverulega nánd. Það er stundum hreinlega stundum óþægilegt að lesa sumar lýsingarnar í þessari bók en líklega stafar það fyrst og fremst af því hversu sannfærandi þær eru.
Tál er fádæma vel skrifuð bók. Heldur athygli lesandans vel með spennandi fléttu. Arnaldur skrifar hér af mikilli næmni og skilningi um fólk í viðkvæmri stöðu og leit þess að réttlæti innan kerfis sem margoft hefur brugðist því. Honum tekst einnig draga upp trúverðuga mynd af hvernig tengsl geta skapast milli manna á einhverjum óskiljanlegum grunni. Þetta einstaklega grípandi saga og sérlega áhugaverð.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







