Stöðugt fleiri eru að átta sig á þeim möguleika að skipta á íbúðinni sinni og bílnum, við fólk í öðrum löndum og geta þannig búið ókeypis erlendis og ferðast um án þess að þurfa að leigja rándýra bílaleigubíla. Þessi skipti eiga sér stað í gegnum vefsíður, þar sem menn skrá íbúðirnar sínar eða húsin, ásamt upplýsingum um borgina sína, hverfi sitt og það sem er skemmtilegt að skoða á svæðinu eða í landinu. Sesselja Traustadóttir umboðsmaður vefsíðunnar Intervac á Íslandi segir að árið 2009 hafi um 50 manns hér á landi skipt á heimilum við útlendinga í gegnum síðuna, en á þessu ári séu 250 manns sem geri það. Fjöldinn hefur fimmfaldast á fimm árum og hún telur að það eigi líka við um aðrar síður af sömu gerð.
Vefsíður þar sem hægt er að skipta á heimilum
Tvær stórar vefsíður sinna heimilaskiptunum en það eru Home Exchange og Intervac og einnig aðrar minni síður. Intervac hefur verið starfandi í 60 ár, en það voru kennarar sem stofnuðu samtökin upphaflega, fólk sem hafði ekki mjög háar tekjur en mikinn áhuga á að ferðast. Á Intervac segir meðal annars:
„Heimilaskipti þýða einfaldlega að tvær fjölskyldur koma sér saman um að skiptast á heimilum, þ.e. búa á heimilum hvorrar annarrar yfir umsamið tímabil sem er langt eða stutt – allt eftir ykkar samkomulagi. Áttu bara frí yfir helgi? Undirbúðu helgarskipti. Engir peningar skipta um hendur en fólk getur valið um skipti á heimilum um víða veröld og verið í fríu húsnæði“.
Þannig er hugmyndin að baki skiptunum og á Home Exchange er hún sú sama. Þar er hægt að velja um 58 þúsund heimili í 160 löndum. Vilja menn eyða 1-2 vikum í París, London, New York, Stokkhólmi, Marocco, Mexíkó eða Istanbúl? Fyrsta skrefið er að skrá eignina sína á vefinn og lýsa henni vel. Birtar eru myndir af heimilunum, líkt og settar eru á fasteignavefina hér á landi. Þegar menn eru búnir að skrá sig inná síðuna er hægt að leita að heimilum sem standa til boða á þeim stöðum sem fólk hefur áhuga á að heimsækja. Bæði Intervac og Home Exchange bjóða uppá ókeypis skráningu í tvær vikur til að prófa, en vilji menn vera fullgildir þátttakendur þurfa þeir að greiða félagsgjald sem er rúmlega 5 evrur á mánuði hjá Intervac en 14 evrur hjá Home Exchange.
Aldrei heyrt um þjófnað eða ámóta vandræði
Fyrstu viðbrögð fólks þegar rætt er um heimilaskipti, er ákveðin hræðsla við að bjóða ókunnugu fólki að búa á heimilinu sínu, jafnvel þótt það komi á móti að þeir búa ókeypis á heimilum erlendra hús- eða íbúðareigenda á meðan. Er þetta óhætt, á að taka verðmætt dót í burtu á meðan aðrir dvelja á heimilinu? Hvað svo með bílinn?
Sesselja Traustadóttir umboðsmaður Intervac hér á landi segir að fyrir marga Íslendinga sé það menningarsjokk að upplifa að ókunnugt fólki opni fyrir þeim heimili sín, bjóði þá velkomna og útvegi jafnvel aðstoð hjá vinum og ættingum ef eitthvað kemur uppá. Það sé meira að segja matur í ísskápnum. Þessu trúi menn varla en þetta hvetji þá til að sýna sama viðmót þegar þeir skipti á sínu húsnæði. Þannig byggist upp gagnkvæmt traust.
Sesselja segist aldrei hafa heyrt talað um þjófnað eða skemmdir á húsnæðinu í heimilaskiptum. Hún segir að það sé helst í bílaskiptunum að ákveðið flækjustig geti orðið og einnig reyni stundum á tiltektarstuðulinn hjá Íslendingum, sem geri miklar kröfur í þeim efnum. Sjálf hefur hún reynslu af heimilaskiptum í vestrænum löndum og segir þá reynslu mjög jákvæða. Intervac býður uppá umboðsmannakerfi um allan heim. Sesselja vekur athygli á að það er sjálfsagt að hafa samband við hana vilji menn kynna sér málin frekar.