
Viðar Eggertsson leikari og leikstjóri skrifar.
Mér finnst skoðanakannanir skemmtilegar og afar fróðlegar, en ekki endilega hverjar niðustöður þær sýna, heldur oftar hvernig fólk svarar. Fólk svarar á alls konar forsendum, stundum eru þær nærtækar og stundum er erfitt að sjá tengsl fólks við viðfangsefnið. Þegar þær eru „brotnar niður“ eins og sagt er þá kemur stundum eitt og annað skondið í ljós. Við slík niðurbrot hef ég stundum séð ótrúlega ákveðin og einörð viðhorf til mála sem fólk hefur jafnvel enga reynslu af og hefur ekki upplifað neitt sem réttlætur svo ákveðna skoðun.
Ekki er sama hvernig könnun er framkvæmd
Stundum eru þessar kannanir framkvæmdar á vísindalegan hátt af viðurkenndum fagaðilum sem fylgja þröngum skilgreiningum um hvernig eigi að framkvæma skoðanakannanir svo þær gefi sem réttasta mynd af afstöðu hópsins sem svarar þeim. Slíkar kannanir eru mjög mikilvægar til að mæla púlsinn á tilteknum hópi eða sjálfri þjóðinni. Síðan eru hinsvegar ýmsar skoðanakannanir, oftast óvísindalegar, sem framkvæmdar eru án vísindalegra viðmiðana og fólk tekur af tilviljun þátt í þeim og er þá ekki endilega þverskurður af þjóðinni – nema síður sé.
Skemmst er að minnast ýmissa skoðanakannana sem t.d. Útvarp Saga hefur framkvæmt á heimasíðu sinni. Þar er vægast sagt ýmislegt á skjön. Man t.d. að samkvæmt einni slíkri hefði Guðmundur Franklín átt að hafa náð kjöri sem forseti á sínum tíma af þeim rúmlega 90% sem tóku þátt. Viðurkenndu skoðanafyrirtækin (Gallup, Maskína, Prósent og Zenter) mældu Guðmund Franklín með 6,5% – 9,7% á sama tíma. Man nokkur eftir að hann hafi náð kjöri? Ekki ég, enda hlaut maðurinn aðeins 7,8% atkvæða, svo viðurkenndu skoðanakönnunarfyrirtækin voru á nokkuð betra róli heldur en t.d. Útvarp Saga.
Gæludýr
Á dögunum var framkvæmd skoðanakönnun á nýjum lögum varðandi gæludýrahald í fjölbýli. Þar voru niðurstöðurnar einkar fróðlegar þegar þær voru brotnar niður. Þá kemur nú ýmislegt áhugavert (og jafnvel grátbroslegt) í ljós.
Megin niðurstaða könnunarinnar var þessi: „Helmingur landsmanna er ánægður með breyttar reglur um gærudýrahald í fjölbýlishúsum en þriðjungur óánægður. Mikill munur er á afstöðu fólks eftir kyni, aldri og því hvort það eigi gæludýr eða ekki.“
Í stuttu máli ganga nýju lögin um gæludýrahald, sem samþykkt voru frá Alþingi 12. desember sl., út á að leyfa hunda- og kattahald í fjölbýli óháð því hvort aðrir íbúar samþykki það eða ekki. Í lögunum er síðan sleginn varnagli um að ef eitthvað fer verulega úrskeiðis hjá þeim sem heldur gæludýrið í fjölbýlinu varðandi velferð dýrsins eða annarra íbúa vegna þess, þá geti íbúarnir (skiljanlega ekki vesalings dýrið sjálft) gripið inn í málin og gert hvorutveggja að úthýsa dýrinu eða eigandanum með dýrið.
Bestu vinir hundsins
Sjálfur fagna ég þessum lögum því ég á smáhund, minn annan á 20 árum og get hreinlega viðurkennt það hér að fáu hef ég séð eftir í lífinu nema þá helst að hafa ekki fengið mér hund fyrr. Hvílíkan félagsskap hafa þeir báðir veitt mér. Eftir að ég varð öldungur hefur hundurinn minn séð til þess að ég fái góða hreyfingu á hverjum degi. Hann er hreinlega lífsbjörg mín. Fyrir það er ég honum óendanlega þakklátur. Enda hef ég snúið við orðatiltækinu kunna og sagt að ég sé besti vinur hundsins. Held nefnilega að honum finnist það.
Ég hef stundum komið í heimsókn á ýmiskonar fjölbýli með hundinn með mér þar sem öldungar búa eða hafast við. Ég kemst alltaf við þegar ég sé dofin andlitin lifna í gleði þegar þau sjá hann og síðan væntumþykjuna þegar þau fá að halda á honum og strjúka blíðlega. Enda gerir Rauði krossinn út vinahunda til að heimsækja gamalt og lasburða fólk í einmanaleik sínum og fáskiptni.
Eins gleymi ég ekki vinkonu minni sem býr í fjölbýli fyrir aldraða og sögu sem hún sagði mér. Þegar hún var að fara með lyftunni einn daginn kemur einsetukona, sem býr í húsinu, með smáhund með sér inn í lyftuna. Einsetukonan horfði óttaslegin og hrædd á vinkonu mína og úr augum hennar skein bæn um að atyrða hana ekki fyrir smáhundinn, besta vin hennar og sambýling. Vinkona mín lét sem ekkert væri og brosti og það var eins og heimsins áhyggjur hryndu í einu vetfangi af konunni. Hún hafði sloppið í þetta sinn með vin sinn einasta eina.
Einbýli og fjölbýli
Samkvæmt fyrrgreindri könnun um viðhorf fólks til gæludýrahalds í fjölbýli sem skoðanafyrirtækið Prósent framkvæmdi, þá eru búar í tvíbýli, þríbýli og fjórbýli jákvæðastir (enda má gera ráð fyrir að þeir hafi sjálfir einhverja reynslu af gæludýrahaldi í fjölbýli).
Athygli vekur, aftur á móti, að út frá búsetuformi fólks er minnstur stuðningur og mesta andstaðan við lagabreytinguna meðal íbúa í einbýlishúsum sem lögin hafa engin áhrif á! Þá erum við aftur komin að spurningunni um forsendur fólks þegar það svarar skoðanakönnunum, því þó þær spegli kannski viðhorf fólks til ákveðinna málefna, þá geta viðhorf fólks jafnvel blindað þeim sýn og rökhyggjan fokið út í veður og vind.
Það er þá kannski engin undra að maður spyrji sig í ljósi niðurstaðanna: Fer allt í hund og kött á nýju ári í einbylishúsum landsins vegna rýmri laga um gæludýrahald í fjölbýlum?
Ja, ekki er nú öll vitleysan eins.







