Íslendingar hafa mikinn áhuga á að ferðast innanlands í sumar. Þetta hafa kannanir sýnt. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, finnur það sterkt í starfi sínu og fylgist með ferðaþjónustufyrirtækjum vinna að því að koma með ferðatilboð á innanlandsmarkað. Þegar hafa komið fram tilboð frá hótelum og fyrirtækjum sem bjóða upp á ferðir, til dæmis á jökla eða í köfun eins og Tröllaferðir bjóða til dæmis.
“Tilboðin eru ýmiskonar eftir því hvernig staðan er hjá fyrirtækjunum og hvað þau geta teygt sig langt. Það er fullur vilji hjá þeim til þess að koma til móts við íslenska ferðamenn,” segir Jóhannes Þór.
Hægt að horfa á kýrnar gegnum gler
Fljótlega fer í gang markaðsátak á innanlandsmarkaði og ferðaávisanir verða sendar út. Þá geta landsmenn farið að velta fyrir sér hvernig, hvenær og hvar þeir vilja nota þá innistæðu.
Vogafjós í Mývatnssveit eru í hópi þeirra sem hafa kynnt gistitilboð í sumar. Ólöf Hallgrímsdóttir, eigandi Vogafjóss, segir að herbergin séu margskonar og verðið fari frá um 15.500 krónum upp í um 24900 krónur nóttin eftir stærð og fjölda gesta. Þau bjóði svo lambaborgara og drykk á veitingastaðnum á 2400 krónur og svo er hægt að sjá kýrnar gegnum gler.
“Það skiptir öllu máli að hafa samband við okkur beint, ekki gegnum erlendar bókunarsíður, því að við eigum öll að borga skatta á Íslandi,” segir hún.
Skemmtiferð og gisting á Hótel Hellu
Hjónin Herborg Friðriksdóttir og Guðjón Sigurðsson eru í hópi þeirra sem hafa nýtt sér hagstæð tilboð vorsins. Þau eru á leið með vinahjónum á Hótel Hellu í lok maí. Þau verða tvær nætur á hótelinu og borga um 20.000 krónur fyrir herbergið báðar nætur ásamt morgunverði báða morgna. Innifalið í verði er líka vínkynning og svo matur bæði kvöldin.
“Þá viku sem við erum ekki með sumarbústaðinn í sumar ætlum við að ferðast um með hjólhýsið. Það er fullt af tilboðum í gangi sem ég er ekki búin að skoða nógu vel,” segir Herborg. Þau langar að skoða Snæfellsnesið og gista þá kannski í Grundarfirði. Sumarið verður líka notað til ferðalaga með stórfjölskylduna.
Dagsferð eða sjö manna hópferð
Season Tours er dæmi um fyrirtæki sem býður eins til tveggja daga ferðir út frá Reykjavíkursvæðinu eða með gistingu eina nótt. Sem dæmi er ferð í Þjórsárdal, Stöng, Gjána og Háafoss og aftur til Reykjavíkur eða tveggja daga ferð með gistingu á Hótel Önnu undir Eyjafjöllum og stoppað á perlunum á suðurströndinni á bakaleiðinni daginn eftir. Ferðirnar eru leiðsagðar á íslensku til að hvetja Íslendinga til að koma.
“Verðið er 80 þúsund krónur fyrir dagsferðina fyrir allt að sjö farþega saman í hóp. Við ákváðum að hafa eitt fast verð því að annars borgar þetta sig ekki. Tveggja daga ferðin kostar 179 þúsund krónur. Innifalið eru tveir dagar og gisting fyrir tvo hjá Hótel Önnu en svo bætist við aukakostnaður gistingar fyrir fleiri pör eða börn. Í rauninni erum við að reyna að selja tvo daga á 80 þúsund hvorn fyrir hópinn þannig að þetta er gjafverð,” segir Gunnar Þór.
Íslendingar kröfuharðir viðskiptavinir
Jóhannes Þór telur að ágæt viðbrögð hafi þegar verið við þeim tilboðum sem komin eru fram. Hann bendir á að Íslendingar séu kröfuharðir viðskiptavinir og geri stundum óraunhæfar kröfur. Mikilvægt verði að átta sig á almennt séð að tilboðin verði alltaf að taka mið af þeim kostnaði sem fyrirtækin þurfi að leggja í til að taka á móti gestunum. Hér innanlands lendi kostnaðurinn til dæmis á færri sölum heldur en þegar erlendir ferðamenn eru líka með um hituna.